Ágætur samnemandi minn, hún Deb, spjallaði við mig og Nick í gær, þar sem við vorum að hvetja Trinity nema til að skrá sig í Flag-Football íþróttaprógramið við skólann. Deb sem starfar í UCC kirkju hér í Columbus, átti við sérkennilegt vandamál að glíma. Hún hafði verið að skipuleggja og halda utan um hjónavígslu sem fram fer í dag í kirkjunni, þegar henni barst til eyrna að hópur manna frá Minutemen United væri væntanlegur og hyggðust gera sitt til að eyðileggja athöfnina. Vandi Deb er að kirkjan hennar UCC, leggur áherslu á að allir séu alltaf velkomnir í kirkjuna, sama hvaðan þeir koma og á hvaða forsendum og er auglýsingaherferðin þeirra skýr hvað þetta varðar.
Hjónavígslan sem á að eyðileggja er reyndar nokkuð spes, þar sem presturinn er Únitarinni (líkt og Matti Joch og íslenski þjóðsöngurinn) sem fær að notast við húsnæði UCC, en guðfræðikenningar UCC eru ekki í samræmi við kenningar únítarana (enda vafasamt að tala um kenningar únítarana). En slíkar guðfræðivangaveltur eru þó ekki ástæða væntanlegra mótmæla. Þannig er að gefa á saman tvo karlmenn og það ræðst svona harkalega gegn karlmennskuvitund mínútumannanna að þeir hyggjast mæta og misnota gestrisni UCC.
Þar sem Deb stóð við borðið hjá okkur 300 punda+ mönnunum sem vorum að hvetja fólk til að skrá sig í flag football, flaug mér í hug hvort við ættum að bjóðast til að vera dyraverðir og sigta út óæskilega kirkjugesti, en hennar vangavelta var reyndar öllu fremur, hvernig hún gæti réttlætt það fyrir sjálfri sér að hringja í lögregluna til að láta fjarlægja óeirðaseggi úr kirkjunni, þar sem allir eru velkomnir.
Þessi vandi er djúpstæður og mjög skýr í orðum Krists sjálfs. Það er ekki alltaf hægt að vera endalaust opin fyrir öllu, við þurfum að setja mörk. Ef mörkin eru ekki skýr, þá verða það ávallt háværu ofbeldismennirnir sem koma í veg fyrir að gleðin fái að ríkja í kirkjunni.
Varðandi að Deb hringi á lögguna:
Ef athafnir annarra hindra að Deb og fleiri fái óáreitt að framfylgja trúarsannfæringu sinni sé ég ekkert því til fyrirstöðu að fjarlægðir séu þeir sem raska friði. Er ekki rétturinn til að iðka trú og verja sannfæringu sína varinn af stjórnarskránni þarna? Ég velti líka fyrir mér hvort ekki vegi þyngra skylda Deb og hennar fólks til að verja skjólstæðingana andspænis þeim sem vilja niðurlægja þá en að vera næs við þá sem ofsækja? Kristur talaði vissulega um hinn vangann en það felst ekki endilega í því að láta löðrunga sig beggja vegna. Getur Kristur ekki líka verið segja okkur að bregðast ekki við með hefnd, að safna glóðum elds að höfði illvirkjans?