Það er enda svo að fúla vatnið og froskarnir eru töfrabrögð sem spáprestar Egyptalands eru sagðir geta framkvæmt ekki síður en YHWH gerir fyrir hönd Ísraelsmannanna tveggja. Samt sem áður lofar Faraó þeim bræðrum að ef þeir fjarlægi froskana, fái Ísraelsmenn fararleyfi, en jafnskjótt og froskarnir drepast eru gleymir Faraó loforði sínu.
Það er nefnilega gömul saga og ný að þeir sem þurfa ekki að standa skil á loforðum sínum, þeir sem geta komist upp með að segja eitt og gera annað, án þess að þurfa að gera reikningsskil, læra að notfæra sér stöðu sína. Í heimi stjórnmála og valdakerfa eru loforð til lýðsins oft léttvæg fundin þegar kemur að efndum.
Mývargurinn sem kemur næst reynist þrautinni þyngri fyrir faraó. Að þessu sinni ráða spáprestar Egypta ekki við táknið. Faraó biður Móse um að aflétta plágunum gegn því að Ísraelsmenn fái að tilbiðja YHWH opinberlega, en Móse gefur lítið fyrir það loforð og krefst þess að Ísraelsmenn fái að fara. Faraó segir að sjálfsögðu já, en strax og mývargurinn hverfur er loforðið gleymt.