Heiður, hefnd og sæmd

Ég sat í Laugarársbíó á laugardagskvöld og velti fyrir mér hvort að þjóðgildi þjóðfundarins í Laugardalshöll fyrir tveimur árum hefðu e.t.v. verið blekking. Þar sem ég horfði á Borgríki, sá heiftina, reiðina og hefndina, þar sem ég horfði á menn leggja allt í sölurnar fyrir heiður og sæmd. Þá hugsaði ég samtímis um Gísla með innyflin úti og öskureiða eggjakastara á Austurvelli. Reiðin, heftin og hefndin eru alls staðar. Á málþingi um karla og jafnrétti, telja frummælendur og fyrirspyrjendur upp alla hina, hina sem eru skaðvaldarnir, ollu þessu öllu. Fingurinn fer á loft gagnvart þotueigendum, þeim sem eiga fleiri en eitt einbýlishús í sömu götu, gegn sjálfhverfum íþróttafræðingum, gullæturnar eru ásakaðar og ekki síst hinir, þeir sem eru ekki eins og ég.

Þegar spurt er um framtíð, breytingar, hvað ég get gert, þá er fátt um svör, fingurinn er settur á loft. Reiðin ræður ferð, ásakanir í garð annarra eru viðbrögð dagsins.

Á Austurvelli er skrílræði en ekki lýðræði. Heiðarleiki er fyrir hina, mér ber virðing, en ekki endilega öðrum. Einhver þarf að bera ábyrgð, en ég vil vera frjáls undan henni. Traustið er ekkert, réttlætið á bara að ná yfir aðra. Jöfnuður er baráttumál þeirra sem gleymdu sér í neysluhyggjunni og vilja fá að hafa jafn mikið nú og þá. Kærleikur er hugtak sem hefur aldrei merkt neitt. Það er helst að fjölskyldan hafi eitthvað gildi, en þó finnst siðfræðiprófessornum í Háskólanum að börn þurfi ekkert frekar að virða foreldra sína, eða hvað.