Frelsi án ábyrgðar, er ekki alvöru frelsi. Það að vera frjáls til góðra og slæmra verka merkir samt ekki að við getum vikist undan ábyrgð. Skilaboðin eru skýr í myndinni um fljóta fólkið. Við berum ábyrgð á fólkinu okkar, fjölskyldunni sem við tilheyrum. Við berum ábyrgð í því samfélagi sem við lifum í, tökum þátt í.
Stefin eru ótalmörg, óheft frelsi er gagnrýnt og lofsungið um leið. Fjölskylduhugtakið er útvíkkað í anda Páls postula, það inniheldur alla sem vilja vera með. Fjölmenningin er tekin alvarlega, eins og Wesley Morris hefur bent á meðal annars í viðtali á NPR.
Guð er kynntur til sögunnar sem faðir sem vakir yfir og verndar. Þá bregður fyrir í myndinni mörgum áhugaverðum myndum af samfélagi “hinna trúuðu” sem eru verðar skoðunar.
Guðsmynd fljóta fólksins og þá sér í lagi Dominic er guð sem vakir yfir, guð sem er “þarna uppi”. Eins og sést klárlega í einu skoti myndarinnar. Þetta er mynd af guði sem föður. Hér er enginn akademísk rétthugsunarhræðsla í gangi eða áhersla á mál beggja kynja. Guð Dominic fær á sig mynd þegar Dominic lýsir sínum eigin föður. Hann lýsir hvernig faðir sinn grillaði eftir sunnudagsmessu og bauð öllum að setjast til borðs sem tóku þátt í messunni. Hann lýsir föður sem gaf sér tíma til að setjast niður með börnunum sínum, veita þeim þá athygli sem þurfti.
Guðsmynd Dominic er á engan hátt “universal,” það er ekkert sem bendir til þess að allir muni njóta náðar guðs. Þannig eru það þau sem koma til kirkjunnar sem fá að safnast kringum grillmatinn, ekki aðrir. Það stendur auðvitað öllum til boða að koma til kirkjunnar og það geta allir komið til málsverðarins svo lengi sem mætt er í messu. Það geta allir verið hluti af fjölskyldu Guðs en það er ekkert sem segir að allir séu hluti af fjölskyldunni, eiginlega þvert á móti.
Myndin gerir enga tilraun til að leysa glímuna um verkaréttlætinguna, eða svara því hvort að nauðsyn þess að við játumst Guði takmarki náð Guðs. En það er ein af glímum margra mótmælendakirkna. Guðsmyndin hjá Dominic leggur enga áherslu á náð guðs, heldur blessun og vernd. Ef við kjósum að tilheyra fjölskyldu Guðs, þá er Guð með.
Uppgjör hinna fljótu við stjórnvöld og spillingu, sú staðreynd að þau dvelja meðal hinna fátæku en ekki á fínum hótelum í Ríó, ásamt því hvernig samfélagið verndar þau þegar utanaðkomandi valdastrúktur birtist, kallast í einhverjum skilningi á við frelsunarguðfræðina. Auðvitað leysist þessi mynd upp þegar líður á, en brotið grindverk á ströndinni og lágreistur strandkofinn í lok myndarinnar, gefa til kynna hógværð, nægjusemi og vilja til að standa með þeim sem minna hafa, alla vega hjá þeim sem hafa tileinkað sér guðsmynd Dominic.
Fljót í fimmta sinn endurspeglar samt fyrst og fremst strákaguðfræði, ekki endilega kristna, heldur guðfræði sem um margt er “únítarísk,” án þess að vera “universal”. Endurlausnin stendur hverjum til boða sem vill þiggja, hverjum þeim sem kemur að borði Guðs, og Guð er góður pabbi. Hann blessar, verndar og stendur með okkur, jafnt í gleði og sorg. Guð hinna fljótu, kallar okkur um leið til ábyrgðar og aðgerða. Kallar okkur til að gera það sem “gott” er.
Og meðan ég man, það eru rosa læti, flottir bílar, sprengingar, eltingaleikir og meiri sprengingar, að ógleymdum bílaeltingaleikjum.