Með lögum um sóknargjöld nr. 97 frá 1987 breyttust forsendur þjóðkirkjusafnaða allverulega. Með lögunum komst festa á tekjur safnaðanna og möguleikar til að setja sér framtíðarplön um safnaðarstarf urðu möguleg sem aldrei fyrr.
Í kjölfar breytinganna fengu stóru prófastsdæmin á höfuðborgarsvæðinu aukið svigrúm til að byggja upp stoðþjónustu. Aukin kraftur kom í barna- og æskulýðsstarf. Enda var söfnuðunum í þéttbýli gert mögulegt að ráða ungt fólk til starfa til að sinna þessum málaflokki. Vissulega voru sóknargjöldin fyrst og fremst miðuð við að hægt væri að halda kirkjum við á sómasamlegan hátt en stærri söfnuðir sem höfðu þá þegar komið sér upp húsnæði sáu sér leik á borði til að nýta sóknargjöldin til að byggja upp öflugt starf.
Óhætt er að segja að vel hafi tekist til. Fella- og Hólakirkja var dæmi um kirkju sem réð fagmenntaðan æskulýðsfulltrúa til starfa strax í kringum 1987 og fleiri kirkjur fóru sömu leið. Nokkur umræða varð í sjálfboðaliðastarfi KFUM og KFUK á þessum tíma og reyndar síðar um þann vanda sem fólst í því að kirkjan væri tilbúin til að borga leiðtogum í KFUM og KFUK fyrir að skipta um starfsvettvang og koma til starfa hjá sér. Þannig má segja að skyndilegt aðgengi kirkjunnar að peningum hafi alla vega með óbeinum hætti grafið undan sjálfboðaliðastarfi í kristilegum vettvangi, að minnsta kosti tímabundið.
Þróun æskulýðsstarfs kirkjunnar hefur haldið áfram síðan og má segja að með tímanum hafi fagmennskan aukist stig af stigi. Þannig hafa margir leiðtogar sem hófu störf í kirkjunni um 1987, haldið áfram störfum meðan þeir hafa verið í háskólanámi og í nokkrum tilfellum sérmenntað sig með starf á vettvangi kirkjunnar í huga. Aukin menntun og reynsla leiðtoga hefur leitt til þess að kröfur um laun og réttindi hafa aukist af hendi leiðtoganna og gæði starfsins væntanlega aukist. Þessi þróun átti sér ekki einvörðungu stað á æskulýðsvettvangi kirkjunnar heldur og í öldrunarstarfinu.
Inn í þessa þróun spilaði síðan ákvörðun um að endurreisa hið forna djáknaembætti í kirkjunni, í og með til að móta formlega stöðu fyrir þennan nýja hóp starfsmanna kirkjunnar. En e.t.v. ekki síður til að mýkja hinna sterku prestlegu ásýnd þjóðkirkjunnar, með því að kalla til starfa einstaklinga með fjölþættari bakgrunn en prestsmenntun. Ég treysti mér til að halda því fram að ákvörðunin um uppbyggingu djáknaþjónustu í þjóðkirkjunni hafi átt sér stað án þess að tryggja stuðning sóknarnefnda við framkvæmdina. Stuðning sem var nauðsynlegur, enda var hugmyndin sú að laun djákna kæmu frá sóknarnefndum. Ekki var síður skortur á því alla vega í fyrstu að skilgreina hvernig fólki væri leitað eftir til djáknastarfa. Hugmyndir um metnaðarfulla “selektíva” nálgun varð aldrei að veruleika, hugsanlega vegna fjarlægðar milli Háskóla Íslands sem opinnar menntastofnunar og Biskupsstofu sem þjónustuaðila framtíðarvinnuveitenda.
Auðvitað voru ekki einvörðungu æskulýðsfrömuðir, öldrunarstarfsmenn og djáknar sem sáu tækifæri í auknu fjárflæði hjá sóknarnefndum. Í einstaka tilfellum töldu sóknarnefndir við hæfi að þau, eða að minnsta kosti framkvæmdanefnd safnaðarins fengi greiðslur fyrir þjónustuna, kirkjukórar, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu, fóru að fá greitt fyrir viðvikið og söfnuðir sáu tækifæri til að ráða presta til starfa við hlið sóknarpresta og greiða þeim af sóknargjöldum. Allt var þetta gert á forsendum sóknargjalda sem upphaflega voru hugsuð fyrst og fremst til að gera söfnuðum mögulegt að viðhalda fjárhagslegu sjálfstæði, greiða laun organista, kirkjuvarðar og annast viðhald.
Sóknargjöld voru endurskoðuð 1997 og upphæð þeirra ákvörðuð 400,24 kr á mánuði p. sóknarbarn 16 ára og eldra með fyrirmælum um að upphæðin hækkaði með meðaltekjuskattstofni. Þessi upphæð gerði flestum söfnuðum mögulegt að halda úti því starfi sem hafði mótast 10 árin á undan. Hins vegar var eins ljóst að ekki yrði mikið rými til frekari aukningar, sem kom mjög illa við hugmyndirnar um endurreisn djáknaþjónustunnar, en fyrstu djáknarnir með viðbótarnám útskrifuðust 1995 og fyrstu djáknarnir með BA-gráðu 1997. Auðvitað var ekki algilt að söfnuðir væru þá þegar aðþrengdir og nokkrir vel stæðir söfnuðir réðu djákna til starfa.
Frá 1997 hefur verðgildi sóknargjalda rýrnað verulega án þess að kirkjan hafi leitað og hvað þá fundið nýjar leiðir til tekjuöflunar. Í kjölfar hrunsins hefur verðgildi sóknargjalda minnkað enn mun meira. Nú er svo komið að fjöldi djákna í fullu starfi hjá söfnuðum er teljandi á fingrum annarrar handar. Þá hefur starfshlutfall fastráðinna starfsmanna í æskulýðsstarfi kirkjunnar minnkað til mikilla muna og sífellt færri kirkjur sjá sér fært að vera með starfsmann á þessu sviði.
Á margan hátt er kirkjan að stefna á sama stað og hún var fyrir 1987, áður en núverandi sóknargjaldafyrirkomulagi var komið á. Það er gífurlega mikilvægt fyrir kirkjuna að ákveða hvernig bregðast á við, ef bregðast á við. Sóknargjöldin verða ekki “leiðrétt” í bráð, það er alveg á hreinu. Tal um að standa vörð um barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar er marklaust án þess að gripið sé til róttækra aðgerða.
Núverandi fjármálalíkan þjóðkirkjunnar er gengið sér til húðar, hvort sem við tölum um 30% eða 40% niðurskurð. Áframhaldandi niðurskurður er eina framtíðarsýnin í núverandi kerfi. Við sem látum okkur varða um framtíð kirkjunnar erum kölluð til að svara krefjandi spurningum um framtíðina, og framtíðin er núna.
Hérna er hugmynd, sem ég set vanalega fram þegar ég sé þjóðkirkjufólk tala um sóknargjöld, og þá sérstaklega þegar þeir kalla þau félagsgjöld. Af hverju ekki að biðja um að fá sjálf að innheimta sóknargjöld af meðlimunum, og þá getur kirkjan sjálf ákveðið upphæðina?
Ég held að það sé ein af þeim hugmyndum sem kirkjan verður að velta upp í fullri alvöru. Að því tilskyldu að það sé vilji til að bregðast við.
Ég nefndi það ekki hér að ofan en hlutfallsleg fækkun í þjóðkirkjunni hefur auðvitað haft neikvæð áhrif á fjármál hennar. Þrátt fyrir allt hefur verið vilji til að þjóna öllum, þó færri og færri tilheyri kirkjunni. Þannig er rekstrarkostnaðurinn að mestu óbreyttur þrátt fyrir fækkun skráðra meðlima.
Halldór, en þú (og allt þjóðkirkjufólkið sem talar um “félagsgjöld” sem heyrir þessa hugmynd mína) hlýtur að vita að kirkjan myndi tapa gífurlega á því ef fólk gæti sparað á því að vera ekki meðlimir í Þjóðkirkjunni.
Ég er ekki viss um að það sé endilega rétt. Ég held að tekjur flestra safnaða á höfuðborgarsvæðinu gætu aukist verulega, sér í lagi þar sem til staðar væri metnaðarfullt safnaðarstarf.
Mikil er trú þín 😛
En hvað um það, alltaf gaman að lesa það sem þú skrifar um þetta, þú ert ekki djúpt ofan í skotgröf 😉
Er ekki alveg ljóst að þetta yrði ákaflega mismunandi eftir sóknum? Sóknarstarf er jú mjög misöflugt milli sókna, prestar misvinsælir, starfið misviðamikið. Þarna myndi náttúrulega reyna á það hversu mikilvægt safnaðarstarfið og hliðargreinar þess (æskulýðsstarf, mömmumorgnar, eldri borgara starf ofl) er hverju “nærsamfélagi” – sem er að vísu tískuorð sem pirrar mig stundum, en ég ætla samt að nota. Fyrir marga, t.d. mig, sem nota sér ekki þjónustu kirkjunnar á neinn hátt (og þurfa jafnvel að leggja á sig krók stundum til að forðast þá þjónustu!:)) en greiða samt sóknargjöld, yrði þetta lítið dilemma. Fyrir aðra, sem hafa haft einhverja aðkomu að kirkjunni og tekið mismikinn þátt í starfinu (farið í messu á jólum og páskum, látið gifta, skíra og ferma, sent krakkana stundum og stundum ekki í sunnudagaskóla, átt kannski unglinga í æskulýðsstarfinu og annað í þeim dúr) en kannski ekki velt sérstaklega fyrir sér raunverulegu gildi þjónustunnar fyrir sig sjálft, yrði þetta snúnara; það fólk yrði að spyrja sig hversu há sóknargjöld það væri reiðubúið að greiða til að njóta áfram þessarar þjónustu. Fyrir þriðja hópinn væri þetta ekki einu sinni spurning, hugsa ég: fólk sem finnst kirkjan nauðsynlegur þáttur af daglegu lífi og greiðir möglunarlaust það sem um er beðið. Hugsa að millihópurinn sé langstærstur og þar gæti kirkjan þurft að fara í raunverulega baráttu. Sem gæti auðvitað verið spennandi áskorun fyrir marga presta og sóknarnefndir, en hreint ekkert fagnaðarefni fyrir aðra.
Þetta er mjög mikilvæg greining sem þú kemur með hér, Halla. Þessi þrískipting þeirra sem eru skráðir í þjóðkirkjuna er líklega staðan eins og hún er. Sá hópur sem þú segist tilheyra er í raun hópur sem á eftir að leiðrétta trúfélagsskráninguna.
Millihópurinn, eða lausafylgið, gæti komið sterkt inn þegar það sjálft er á einhverjum þeim tímamótum í lífinu þar sem kirkjan kemur oft að (skírn, ferming, gifting, greftrun), en myndi sveiflast að öðru leiti eftir styrk safnaðarstarfsins (barna- og æskulýðsstarfs, mömmumorgnum, eldri borgara samverum o.s.frv.). Mér var bent á það við eldhúsborðið heima hjá mér að aðferðafræðin við ráðningu prestsins í hverfið gæti líka haft veruleg áhrif á aðkomu millihópsins.
Þriðji hópurinn eru hins vegar þau sem mæta á sunnudögum. Sá hópur er e.t.v. ekki stór en er mjög líklega tilbúin að leggja mjög mikið af mörkum eins og þú segir. Ég segi fyrir sjálfan mig og fjölskyldu mína að við komum því sem næst aldrei í kirkjuna okkar hér í BNA, nema á sunnudögum milli 9:45 og 12:00. Þrátt fyrir það leggjum við fram margföld íslensk sóknargjöld til starfsins, einfaldlega vegna þess að við trúum því að þeim peningum sé vel varið.
Ég sé ekki fyrir mér að sóknargjöld yrðu föst tala eða hlutfall af launum ef kirkjan myndi taka innheimtuna yfir. Hugsanlega yrði til staðar eitthvað viðmiðunargjald, en megininnkoman myndi þurfa að byggja á frjálsum framlögum lykilhópsins, þeirra sem telja peningum sínum vel varið í kirkjulegt starf.
Það er líka rétt að söfnuðir eru misvel fallnir til að höndla svona breytingar. Ég held að ég gæti hérna við eldhúsborðið í BNA, bent á nokkra söfnuði á höfuðborgarsvæðinu sem myndu blómstra í nýju umhverfi, en svo sem líka bent á sóknir sem myndu leggjast af mjög fljótt og þurfa að sameinast öðrum. Enn aðrar þyrftu að endurskoða safnaðarstarf sitt en gætu án mikillar fyrirhafnar haldið sjó.
Ég veit ekki hvernig sameiningartillögur myndu leggjast í liðið, svona eftir nýliðna umræðu og sterk, neikvæð viðbrögð við sameiningaráformum varðandi skóla og leikskóla í Rvík! En það kann hins vegar vel að vera íhugunarvert að samræma e.k. yfirstjórn á sóknum. Ekki skal ég segja. Ég er reyndar búin að leiðrétta trúfélagsskráninguna en upplifi mig þó enn óþarflega mikinn “hluthafa” í kirkjunni, einfaldlega vegna þess að á meðan hér er opinber “ríkiskirkja” – og svo geta menn þráttað fram og til baka um það hversu “ríkisrekin” hún er, það breytir engu um að allur þorri Íslendinga lítur á Þjóðkirkjuna sem ríkisrekna kirkju amk. hugmyndafræðilega! – á ég hlut í henni. Hvort sem mér líkar það betur eða verr. Um leið eru málefni kirkjunnar og stefna hennar í ýmsum málum eitthvað sem mér finnst ég eiginlega neyðast til að hafa skoðun á, jákvæða eða neikvæða,t.d. orðræða kirkjunnar þjóna og framkoma þeirra í ýmsum málum, að ekki sé minnst á fjárveitingar til hennar og aðkomu hennar að opinberum skólum. Svo þetta snýst ekki bara um það að skrá sig úr Þjóðkirkjunni, því miður … 🙂 En ég held að Þjóðkirkjan mætti að ósekju hrista af sér afneitunina og byrja að vinna af krafti í því að meta og áætla raunverulega stöðu sína, ef til þess kemur að hún þarf að standa í raun á eigin fótum. Þótt ekki væri nema til að fara í heilbrigða sjálfsrýni og innri endurskoðun. Ég held, og segi það án allrar Þórðargleði, að það sé orðinn raunveruleiki í dag að kirkjan er ekki lengur sjálfskipaður þátttakandi í lífi manna – það er hægt að fæðast og deyja og gera allt þar á milli án þess að þiggja nokkra þjónustu frá kirkjunni, nema maður óski þess sérstaklega. Útfarir voru síðasta vígið og nú er hægt að láta husla sig borgaralega, hef verið við og raunar komið að skipulagningu slíkrar athafnar og var mjög ánægð með hana. Það er auðvitað ekki ýkja langt síðan það var nánast ógerningur að komast hjá því að fá kirkjulega þjónustu einhvern tíman á ævinni, svo þetta er þannig séð nýr veruleiki en hann er kominn til að vera. Þannig að það er ekki lengur hægt að líta á kirkjuna sem samofna lífi okkar, hún hlýtur að vera valkostur. Og ætti að vera það. Það verður spennandi að sjá hvernig Þjóðkirkjan tekst á við þetta á komandi árum, tilneydd eða ótilneydd!
Það er rétt hjá þér Halla að meginþorri fólks telur kirkjuna vera hluta ríkisins og þegar ég starfaði í söfnuði fyrir rúmum fimm árum gerðist það að fólk kom í húsið til að fá skírn fyrir barnið sitt því það hélt að skírn væri lagaleg skylda.
Á sama hátt hef ég þurft að eiga við fermingarbörn og foreldra sem telja kirkjulega fermingu vera réttindamál. Þ.e. það sé þeirra réttur að fá fermingu af hendi kirkjunnar, enda kirkjan opinber stofnun. Algjörlega burtséð frá þátttöku í fræðslu eða mætingu í guðsþjónustur.
Eignarhald þitt og allra Íslendinga á kirkjunni hefur auðvitað fjölmargar aðrar hliðar. Þannig situr tiltölulega lítill söfnuður í Þingholtunum í Reykjavík uppi með gríðarlega byggingu með óhugnanlegum viðhaldskostnaði og tilheyrandi stússi. Byggingu sem var samþykkt að byggja, ekki á aðalsafnaðarfundi, heldur á Alþingi.
Hvað varðar sameiningarmál, þá er þjóðkirkjan að stíga ákveðin skref í átt til sameiningar með hugmyndum sínum um samstarfssvæði. Í annan stað, ef breytingar verða á innheimtu sóknargjalda, þá gerast sameiningar sjálfkrafa. Ef rekstrargrundvöllur safnaðar er ekki til staðar, þá er einfaldlega sjálfhætt þegar bankar hætta að hækka yfirdráttarheimildina.
Ég held að enginn þurfi að efast um að mjög miklar breytingar eru framundan í starfi og umhverfi þjóðkirkjunnar. Þú bendir réttilega á að fyrst nú er möguleiki á að komast í gegnum lífið á Íslandi án þess að þurfa að leita nokkru sinni til kirkjunnar. Kirkjan getur ekki lengur treyst á óskilyrtan stuðning ríkisvaldsins og traust til kirkjunnar mun halda áfram að minnka.
Hins vegar held ég að okkur flestum sé ljóst að þjóðkirkjan er ekki á útleið. Evangelísk lútherska kirkjan verður áfram á Íslandi um ókomna tíð. Hvernig sú vera verður byggir eins og þú segir á því hvort kirkjan sé tilbúin að ganga inn í sjálfa sig og glíma við raunverulega stöðu sína.