Að lokinni hátíðarsýningu myndarinnar “Submarino” í Bíó Paradís í byrjun nóvember var leikstjóri myndarinnar spurður út í gerð hennar og þá hugmyndafræði sem hann aðhylltist í listsköpun sinni. Það vakti athygli mína að Thomas Vinterberg talaði um að það þyrfti alltaf að vera til staðar umgjörð sem að sköpunin ætti sér stað í, listsköpun ætti sér ekki stað í tómarúmi. Þannig talaði Vinterberg um mikilvægi þess að “Make a set of rules to liberate yourself.” “Framework is inspirational,” sagði Vinterberg. Umgjörðin veitir listamönnum innblástur, í stað þess að hefta þá.
Það mátti skilja á leikstjóranum að án regluverks og umgjarðar færi sköpunarkrafturinn í það að útbúa regluverkið/umgjörðina í stað þess að mynda merkingarbæra list.
Það er ekki bara í listaheiminum þar sem umgjörðin er nauðsynleg til að veita innblástur. Þetta á ekki síður við í stjórnun og hvar sem unnið er með breytingar. Ef umgjörð og reglur eru ekki til staðar, fer krafturinn að jafnaði í að móta og þróa umgjörð og reglur í stað þess að móta stefnu og/eða framtíðarsýn.