Í leit sinni að nýjum markhópum hafa ferðaskrifstofur hér í BNA í auknum mæli beint augum sínum að trúfólki. Á sama hátt hafa skoðanamótandi trúarleiðtogar, s.s. J.Dobson, markaðssett kirkjumiðstöðvar sínar sem ferðamannastaði.
Í USA Today, er fjallað í dag um þennan nýja markhóp og bent á Narniu Disney manna, kristilegt popp og kristilegar bækur séu í auknum mæli að ná inn á almenna vinsældalista, Wal-Mart selji trúarlegt fræðsluefni og fyrir 15 árum hafi kristilegar útvarpsstöðvar verið því sem næst óþekktar. Hér er óhætt að benda á Píslarsögu Mel Gibson sem dæmi um afþreyingu sem var beint að þessum markaði, enda er markhópurinn um 25% Bandaríkjamanna, eða um 70 milljónir manna
En aftur að ferðalögunum. Í USA Today er því haldið fram að fyrir einvörðungu 4-5 árum hafi trúarleg ferðalög átt aðallega við pílagrímsferðir til Ísrael eða Mekka, en nú sé öldin önnur. Á síðasta ári hafi um 600.000 Bandaríkjamenn farið erlendis í trúarferðir. Hluti þessa hóps séu vissulega katólikkar á leið til Rómar eða andlega leitandi einstaklingar á leið til Tíbet. En trúarferðir hafa tekið á sig fleiri myndir, enda rúmlega 200 af 600 stærstu ferðaskrifstofunum sem bjóða upp á trúarferðir hér í BNA.
Ferðirnar eru af öllu tagi. Boðið er upp á siglingar um Karabískahafið, þar sem spilavítunum á skemmtiferðaskipunum er breytt í bókasöfn með trúarlegu lesefni og börunum lokað. Unnið er að hönnun á Biblíussafni/skemmtigarði í Ísrael, þróun sem hefur gengið hægt undanfarið, vegna óvissunar þar austurfrá. Slíkt safn er nú þegar í Orlando í Flórída, The World Spring Discovery Center. Eigendur þess segjast þó ekki keppa við nágranna sína hjá Disney, en bjóða upp á dýpri upplifun en þeir.
Loks má nefnda að ein greinin á trúarferðum er svo sjálfboðaliðar sem halda í hópum í þróunarlönd, til að breiða út boðskapinn og veita aðstoð eftir aðstæðum. Slíkir hópar hafa á stundum heimsótt Ísland, þó fram til þessa hafi það ekki verið á vegum ferðaskrifstofa.