Fréttirnar með morgunmatnum

Helstu fréttir hér í Columbus að morgni þessa ágæta dags, eru um margt merkilegar og spennandi. Þær lýsa gagnrýnni þjóð, sem hefur samt á einhvern hátt tapað fyrir því sem gagnrýnt er. Þjóð sem veit að margt fer miður, er til í að ræða það – en hinn ósýnilegi fjöldi verður ekki sigraður.

i. Á forsíðu Columbus Dispatch síðustu daga hefur verið mikil umfjöllun um kæru 31 trúarleiðtoga hér í Columbus á hendur Rod Parsley í World Harvest Church in Columbus og Russell Johnson í Fairfield Christian Church. Kæran sem hefur verið send til skattayfirvalda beinist að því að þeir félagar Rod og Russell hafi notað kirkjur sínar sem áróðurstæki í kosningabaráttu, en kirkjum hér er bannað að hafa bein afskipti af stjórnmálum nema þær afsali sér ákveðnum skattafríðindum. Þetta mál væri áhugavert að skoða nánar.

ii. The Wal-Mart effect er einnig til umræðu, þó ekki á forsíðu. En 27 af 31 stórmarkaðarkeðjum sem hafa farið á hausinn hér í BNA á árunum 1990-2000 nefndu Wal-Mart í greinargerð um ástæðu greiðslustöðvunnar. Annar þáttur sem fjallað er um er sú staðreynd að vörugæði hafa minnkað verulega, enda kaupir enginn örbylgjuofn á $100 ef hægt er að fá græju sem gerir það sama á $29.99 í Wal-Mart. Hvernig lýðurinn (mass) leiðir okkur öll, hvort sem við viljum eður ei er spennandi verkefni til skoðunar. Enda hefur Wal-Mart effect áhrif á alla í BNA hvort sem þeir hafa það “prinsip” að versla í búðunum eða ekki.

iii. “Rougue State” eftir William Blum er líka nefnd til sögunnar, en hún náði inn á listann yfir 10 mest seldu bækurnar hjá amazon.com hér í BNA, eftir að Osama Bin Laden mælti með bókinni í síðasta ávarpi sínu til heimsins. Þannig er OBL komin í samkeppni við Oprah, en hún á að jafnaði tvær bækur á amazon.com top-10. Það má segja að kapítalisminn hafi gert út af við hryðjuverkamanninn og breytt honum í “Talk Show Star” og bókasölumann. Það er spurning hvort bóksalar hér í BNA nýti sér tækifærið og fái OBL til að kynna umdeildar bækur um leið og hann tjáir sig um illa heimsveldið.