Síðastliðin ár hef ég verið heimavinnandi, en tekið að mér fjölbreytt verkefni, flest tengd kirkju og kristni. Þessi verkefni hafa verið fjölbreytt, að jafnaði spennandi og gefið mér kost á að nýta reynslu mína og þekkingu á margbreytilegan hátt.
Það sem oft einkennir verkefnin eru óljós skil á milli launaðrar vinnu og sjálfboðina verkefna. Þá byggja sum verkefnin á hugmyndum um mögulegt endurgjald síðar og í einhverjum tilfellum greiðasemi við vini og fyrrum samstarfsfélaga. Þessi óljósu skil geta leitt til margskonar vandamála í samskiptum, ekki einvörðungu gagnvart mér, heldur og ekki síður gagnvart þeim sem ég vinn með eða fyrir.
Annað sem hefur einkennt mörg þessara verkefna eru ósvaraðar spurningar um frumkvæði og ábyrgð. Þ.e. hverjum sé ætlað að veita aðhald og sjá til þess að verkinu miði áfram.
Fyrir rúmlega ári síðan ákvað ég taka með skýrum hætti á skilum launaðrar vinnu og sjálfboðinnar, auk þess sem ég ákvað að taka ekki yfir ábyrgð á verkefnum sem ég bæri ekki ábyrgð á.
Fræðikenningar um “over- and under-functioning” hafa hjálpað mér að sjá mikilvægi þess að nálgast þessa óvissuþætti með faglegum hætti, en það er eitt að skilja hlutina fræðilega og annað að ná að beita faglegri og fræðilegri nálgun í raunverulegum samskiptum.
Persónulegur áhugi getur skapað erfiða togstreitu þegar kemur að faglegum ákvörðunum. Þannig get ég talið framgang einstakra verkefna sem ég hef komið að mjög mikilvægan og spennandi, en um leið þarf ég að vera þess meðvitaður að of mikið frumkvæði af minni hálfu geti hliðrað eða skaðað eignarhald (e. ownership) á verkefninu.
Þá hafa tímabundin sjálfboðin verkefni kallað á aukið umfang vegna góðs árangurs sem síðan ekki er hægt að sinna án launaðs framlags. Þegar það gerist getur myndast mjög flókin spenna milli þeirra sem kalla eftir að verkefnið sé unnið, þeirra sem njóta afraksturs verkefnisins og síðan milli mín eða annarra sem sinntu verkefninu sem sjálfboðaliðar í upphafi.
Í fullkomnum heimi væri hægt að draga úr spennu og árekstrum með því að vanda til ákvarðanatöku í upphafi, skilgreina hlutverk, skrá niður væntingar þeirra sem að koma og vinna með markvissum hætti að því að skapa traust milli þeirra sem koma að verkefnum. Lykilatriðið er traustið, því ef traust er til staðar, fyrirgefst margt sem miður fer.
Þannig má segja að það sé því sama hverju ég sinni, æskulýðsstarfi, sumarbúðastjórnun, vefsíðugerð, hönnun, ráðgjöf, þróunarstarfi fyrir söfnuði eða fræðsluefnisgerð. Verkefnin snúast þegar allt kemur til alls ekki um HTML, PHP og SQL, söngvaval, dagskrárgerð eða Photoshop. Það snýst um velskilgreinda verkferla og traust, já, fyrst og fremst um traust.