4. Mósebók 8. kafli

Þegar ég var vígður til djáknaþjónustu hjá Æskulýðssambandi kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum af þáverandi biskup Íslands var ég 24 ára gamall. Ég var um tíma yngsti vígði þjónn þjóðkirkjunnar en ég vissi þó sem var að yngri prestar hefði fengið vígslu í einhverjum tilvikum, þó enginn væri yngri en ég á þessum tíma.

Mér þótti þetta áhugavert vegna þess að ég þóttist muna eftir að samkvæmt kirkjusamþykktum frá fyrsta árþúsundi eftir Krist væru til samþykktir um að ekki væri heimilt að vígja einstaklinga til kirkjulegrar þjónustu fyrr en eftir 25 ára aldur. Ég hef reyndar aldrei leitað þessar kirkjusamþykktir uppi, en í hér í 8. kaflanum í 4. Mósebók er miðað við að levítar hafi náð 25 ára aldri áður en þeir koma til þjónustu í helgihaldinu.

Reyndar er ekki síður áhugavert að það er gert ráð fyrir að formlegri þjónustu ljúki við fimmtugt, þó þeim sem eldri eru sé leyft að hjálpa til.

Annars er tvennt annað í þessum texta sem vakti athygli mína. Það er einvörðungu Móses sem talar við Guð, og sér um að koma skilaboðum til Arons. Aron og Guð virðast ekki eiga í milliliðalausum samskiptum.

Þá er þessi aðgreining Levítanna enn að trufla mig. Spurningin mín um hverjir Levítarnir voru/eru verður sterkari og sterkari. Hvað veldur sérstöðu þeirra í hópi Ísraelsmanna?

Eftir að ég skrifaði færsluna fór ég að velta fyrir mér vígsluathöfninni sem er lýst. Það er skemmtilegt að það eru Ísraelsmenn sem heild sem eru sagðir leggja hendur yfir Levítana við vígsluna, ekki einvörðungu Levítarnir sjálfir. En í prestsvígslu sem ég tók þátt í fyrir nokkrum árum í Michigan, var einmitt svo stórkostlegt að allur söfnuðurinn lagði fram hendur í fyrirbæn fyrir hinum vígða, en ekki einvörðungu hinir prestarnir. Myndin sem fylgir færslunni er frá viðkomandi prestsvígslu (af Facebook síðu Stephen Springstubbe).

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.