Að höndla verkefnið

Dóttir mín bauðst fyrir nokkrum vikum til að aðstoða við ljósastýringar á „Fiðlaranum á þakinu“ sem unglingaleikhús í St. Paul’s Episcopal Church er að setja upp. Boði hennar var tekið fagnandi en þegar hún mætti á staðinn fékk hún munnlegan lista yfir ljósabúnaðinn sem til var og spurð hvernig hún vildi vinna verkið.

Einhvers staðar í samtölum hafði orðið misskilningur. Dóttir mín sem bauðst til að hjálpa, því hana langaði til að sjá og læra, var skyndilega orðin sérfræðingur, átti að taka ákvarðanir og sjá um uppsetningar sem hún hafði aldrei áður annast.

Þetta er svo sem ekki óalgengar aðstæður, sér í lagi í smærri samfélögum eins og á Íslandi. Einhver sýnir áhuga á að hjálpa til og skyndilega standa öll spjót á viðkomandi. Þegar það gerist, þá er stóra spurningin hvernig brugðist er við.

Þegar við finnum okkur sjálf í djúpu lauginni er hægt að bregðast við á mismunandi vegu. Sumir grípa í næsta mann, hanga á honum eða toga hann niður með sér. Aðrir baða út öllum öngum, hrópa, kalla og öskra, ónáða fólkið sem er að synda sínar venjulegu ferðir.

Síðan eru þeir sem leitast við að verða sér út um aðstoð, lesa sér til, mæta verkefnunum með auðmýkt, tala við fólkið í kringum sig í rólegheitum og vinsemd. Slíkt fólk skammast sín ekki fyrir að viðurkenna þekkingarleysi, heldur kemur fram í einlægni og leitar upplýsinganna sem skortir.

Ég hef lent í djúpu lauginni nokkrum sinnum, tekið að mér verkefni sem ég hef illa ráðið við. Mín fyrstu viðbrögð eru oft þau að leita að einhverjum öðrum til að ásaka, í stað þess að horfast í augu við eigin vanmátt. Í einhverjum tilfellum hef ég þurft yfirmenn sem hafa gripið inn í og haldið mér á floti. En stundum tekst mér að staldra við nægilega lengi og endurskilgreina verkefnið svo ég ráði við það. Ég næ að sjá hvar mig skortir aðstoð og yfirleitt finn ég einhvern sem getur dregið mig að landi.

Þegar yfirmenn lenda í djúpu lauginni, þá skortir oft aðhaldið að ofan. Þegar yfirmenn skortir yfirsýn og skýr markmið, er oft á tíðum engin augljós líflína að landi og það sem meira er, tíminn til að setjast niður og endurskilgreina stöðuna virðist ekki til staðar. Í slíkum aðstæðum verður reiði og vanlíðan auðveldlega ofan á.

Þegar djúpa laugin er of djúp, tíminn er of naumur og lausnir ekki í nánd, þá er eins og eina leiðin sé að finna sökudólg. Kannski er sökinni skellt á undirmanninn sem hlýðir ekki, fjölmiðlamanninn sem spyr vitlausra spurninga eða rannsóknarskýrsluna sem opinberar mistökin og úrræðaleysið.

Það er ekkert óeðlilegt við að úrræðaleysi og erfiðleikar leiði til reiði og vanlíðunar þegar við fáumst við verkefni sem við höndlum ekki. Mér finnst hins vegar alltaf jafn sorglegt að sjá það gerast.

Þegar úræðaleysið brýst fram í sjónvarpsviðtali við forsætisráðherra, sem ræður ekki við aðstæður, þá finn ég til. Ég finn til með Sigmundi Davíð, ég finn til með Gísla Marteini og síðast en ekki síst finn ég til með þjóðinni, sem þarf að búa við óöryggi og óvissuna sem fylgir úrræðaleysinu.

Dóttir mín er ekki yfirmaður á leiksýningunni. Hún veit vel að hún má leita sér ráðgjafar um ljósastýringar og -uppsetningar. Ég vona að Sigmundur Davíð geri það líka. Hann staldri við, finni hæfa ráðgjafa, hlusti og viðurkenni vanmátt sinn í þeim flóknu verkefnum sem hann stendur frammi fyrir á hverjum degi. Í stað þess að stöðuglega leita að sök annars staðar.

One thought on “Að höndla verkefnið”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.