Jesaja 58. kafli

Þriðji Jesaja kallar þjóðina til iðrunar. Óréttlætið sem ræður ríkjum er andstætt vilja Guðs. Helgihald og fasta eru marklaus ef ekki fylgir réttlæti.

Nei, sú fasta sem mér líkar
er að leysa fjötra rangsleitninnar,
láta rakna bönd oksins,
gefa frjálsa hina hrjáðu
og sundurbrjóta sérhvert ok,
það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
hýsir bágstadda, hælislausa menn
og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.
Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði
og sár þín gróa skjótt,
réttlæti þitt fer fyrir þér
en dýrð Drottins fylgir eftir.

Stef spámannanna um réttlæti fyrir þá sem minna mega sín, birtist nú í Spádómsriti Jesaja. Fyrsti Jesaja virtist einfaldlega sjá fyrir óumflýjanlegt hrun, annar Jesaja boðaði von í herleiðingunni og nú er komið að þriðja Jesaja. Þjóðin er kominn heim í fyrirheitna landið og strax hefur ójöfnuður og óréttlæti fest sig í sessi. Ógnin er ekki að utan, eins og hjá fyrsta Jesaja, ógnin felst í innra óréttlæti samfélagsins.

Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
hættir hæðnisbendingum og rógi,
réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
og seður þann sem bágt á,
þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu
og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.
Drottinn mun stöðugt leiða þig,
seðja þig í skrælnuðu landi
og styrkja bein þín.
Þú munt líkjast vökvuðum garði,
uppsprettu sem aldrei þrýtur.
Menn þínir munu endurreisa hinar fornu rústir,
þú munt reisa við undirstöður fyrri kynslóða
og þú verður nefndur: múrskarðafyllir,
sá sem reisir byggð úr rústum.

En í baráttunni fyrir réttlæti og jöfnuði er mikilvægt að muna að hvílast.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.