Hugmyndin um fagnaðarárið (Jubilee) er rótfest í þeirri heimsmynd að allt sé guðsgjöf. Hugmyndin gerir ráð fyrir að á 50 ára fresti sé gert upp, þjóðin slaki á í auðsöfnun og treysti á það sem Guð gefur. Landamerki séu færð til upprunalegs horfs.
Ekki má selja land fyrir fullt og allt því að ég á landið. Þið eruð aðeins aðkomumenn og leiguliðar hjá mér. Alls staðar í eignarlandi ykkar skuluð þið virða endurkauparéttinn. Þegar ættbróðir þinn lendir í kröggum og þarf að selja eitthvað af jarðeign sinni skal það skyldmenni, sem stendur honum næst, gerast lausnarmaður hans. Hann skal leysa til sín það sem ættbróðir hans seldi.
Hugmyndin um takmarkaðan eignarrétt á þó ekki við um borgina. Þar má safna sér auði, enda ekki ósennilegt að þessi lög eigi uppruna sinn í musterinu í Jerúsalem. Hugmyndin er á margan hátt spennandi, eignarhugtakið er takmarkað við tíma.
Hugmyndin um fagnaðarárið er áhugaverð t.d. í ljósi kvótakerfisins á Íslandi. Tímabilið (50 ár) gefur nægan tíma fyrir fyrirtæki til að hagræða í starfsemi sinni og vinna framtíðaráætlanir, en um leið vitum við að það kemur að uppstokkun og uppgjöri að lokum.
—
Bann við okurvöxtum og því að misnota bága stöðu náunga síns er sömuleiðis mikilvægt siðaboð.
—
Lög um þræla stuða hins vegar marga og skiljanlega. Lögin í þessum kafla ganga hins vegar út frá þrælahaldi sem staðreynd, fremur en að um sé að ræða kröfu um að þrælahaldi sé viðhaldið.
Lögin leggja enda kröfur á „eigendur“ þræla, takmarka rétt þrælahaldara og tengja þrælahald við fagnaðarárið, á þann hátt að allir hebreskir þrælar skulu fá frelsi á fagnaðarári.
Takmarkanirnar eiga þó ekki við á sama hátt ef þrælarnir eru hluti af „hinum“. Eiga uppruna sinn í öðru samfélagi en hinu hebreska. Rökin fyrir þessum mun er skilgreind út frá eignarhaldi Guðs.
[Þ]ví að Ísraelsmenn eru eign mín, mínir þrælar. Þeir eru þrælar mínir sem ég leiddi út úr Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð ykkar.
Guð Ísraels, er ekki Guð allra. Stef sem er áberandi í Gamla Testamentinu, en er þó alls ekki látið ósvarað m.a. af einstaka spámönnum.
One thought on “3. Mósebók 25. kafli”