Hér er því ekki leynt í 3. versinu og síðan aftur í 10. versinu.
Það sem eftir er af kornfórninni fá Aron og synir hans. Það er háheilagur hluti af eldfórnum Drottins.
Fórnarkerfi samfundatjaldsins er líflína prestastéttarinnar. Ef ég væri mjög krítískur á trúarbrögð myndi ég líklega segja að sektarkennd og syndahugmyndir væru forsendur fjárhagsleg sjálfstæðis prestakirkjunnar eins og hún birtist okkur hér í upphafi 3. Mósebókar.
Lýsingarnar eru ítarlegar á helgiatferlinu en fórnarferlið mótast í mínum huga sterklega af því hvernig fórnaratferlið er nátengt fjárhagslegum hagsmunum trúarleiðtoganna. Þegar við tölum um fórnardauða Jesú Krists á krossinum, þá er hægt að sjá hann í því ljósi að með dauða Krists var skorið á fjárhagslega hagsmuni trúarleiðtoga sem áður högnuðust á sektarkennd og vanlíðan. Þó vissulega hafi ekki liðið á löngu þar til sektinni var komið inn á ný, nú með ásökuninni um að Jesús hafi dáið vegna minna synda og spurningunni: „Hvað ætlar þú að gera fyrir Jesú í staðinn?“
Ég er reyndar á engan hátt sérfræðingur í fræðilegum pælingum um sektarkennd og skömm, en þeir eru til sem hafa skoðað skömm (shame) og sektarkennd (guilt) frá sjónarhorni kristinnar guðfræði enda hugtökin mikilvægur þáttur í trúarlífs- og/eða trúleysismótun.