Nýr konungur tók við völdum í Babýlon. Að þessu sinni Daríus frá Medíu. Hann setti upp kerfi héraðshöfðingja og af þeim bar Daníel af. Þetta leiddi til afbrýðissemi og öfundar, enda er óþolandi að vinna með fólki sem er öflugt og duglegt og lætur alla aðra líta illa út. Veikleiki Daníels var átrúnaðurinn, hann neitaði að biðja til konungsins.
Konungur var hvattur af samstarfsmönnum Daníels til að setja löggjöf um að enginn skuli biðja til annars en konungsins sjálfs. Daníel var gripinn við að biðja til Guðs og sendur í ljónagryfjuna, enda þurfti konungurinn að standa við löggjöfina sem hann sjálfur hafði sett. Líkt og félagar hans í fyrri frásögn, þá lifði Daníel dvölina með ljónunum af og Daríus flytur lofgjörð til Guðs Daníels.
Höfðingjarnir sem höfðu fengið konung til að setja löggjöfina með það að marki að losna við Daníel fengu „að sjálfsögðu“ að bragða á eigin meðölum og var kastað fyrir ljónin ásamt börnum og konum þeirra.
Það er athyglisvert í þessum frásögum af Daníel og félögum hans, að hér er Guð ekki lengur bundin við Ísraelsþjóðina. El- er Guð allra manna og ef gyðingar lifa heiðvirðu og réttlátu lífi, standa sig vel og víkja ekki frá hefðum sínum og siðum, munu allir taka upp trú á El-. Þetta er augljóslega yngri guðshugmynd en við höfum í flestum frásögum af YHWH, sem eiga uppruna sinn á tíma herleiðingarinnar í kringum 597-587 f.Krist.