Markúsarguðspjall 2. kafli

Frásögnin af vinunum sem rjúfa gat á þakið heima hjá Jesú, til að láta lama mann síga niður til hans er oft notuð í barna- og æskulýðsstarfi kirkjunnar og kristinna félagasamtaka.

Þegar hún er lesin í samhengi við kaflann á undan, um hvernig mannfjöldinn þrengdi svo að Jesú að hann gat fátt aðhafst, og við áttum okkur á því að Jesús var að reyna að taka það rólega heima hjá sér, þá fær sagan á sig áhugaverðan „celebrity“ blæ. Vinirnir sem eru til í að skemma hús Jesú til að komast að honum, virðast hafa sama siðgæði og „paparizzi“ ljósmyndarar samtímans, nú eða hver annar sem hugsar „bara ef það hentar mér (og mínum)“.

Reyndar virðist hugsun Jesú ekki vera á þessa leið. Hann sér í vinunum trú á að allt sé mögulegt og segir við lama manninn:

Barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.

Þetta er að sjálfsögðu hið versta guðlast í augum rétttrúaðra. Hvaða fyrirgefningu á sá skilið sem er lamaður? Lömun er refsing Guðs í huga þeirra sem eru fastir í lögmálinu og eigin ágæti. Engin getur haft vald til að fyrirgefa einhverjum ef Guð hefur dæmt þann hinn sama til refsingar.

Ef við trúum á algóðan Guð og aðhyllumst verkaréttlætingu, þá gerist allt af ástæðu. Slæmir hlutir koma fyrir slæmt fólk. Sá sem þykist geta fyrirgefið þeim sem Guð hefur refsað, er þannig guðlastari. Hann ræðst á grundvöll trúarinnar. Þegar Jesús segir:

Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín.

Þá sýnir hann verkaréttlætingarfólkinu að refsing Guðs, sem þau töldu óumflýjanlega og endanlega er það alls ekki (ef það var þá einhvern tímann refsing Guðs).

Jesús heldur áfram að ögra þeim sem eru „góðir“ og gera allt rétt. Hann hangir með þeim sem eru bersyndugir og brýtur ásamt lærisveinum sínum föstuhefðir. Uppgjör hans við hefðirnar og regluverkið er kannski skýrast í orðunum:

Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. Því er Mannssonurinn einnig Drottinn hvíldardagsins.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.