Markúsarguðspjall 1. kafli

Markúsarguðspjall er oft talið elst guðspjallanna. Það er styst, virðist síst upptekið af flóknum guðfræðipælingum og birtir að einhverju leiti „hrárri“ mynd af Jesú en hin guðspjöllin.

Um leið er Markúsarguðspjall þó hluti af samstofnaguðspjöllunum og stór hluti guðspjallsins er endurtekin í Lúkasar- og Matteusarguðspjalli. Hefðbundna hugmynd flestra fræðimanna er að Markúsarguðspjall og önnur frásögn af Jesú, oft kölluð Q (úr þýsku, en quelle merkir uppspretta) séu grunnheimildir þeirra sem skrifuðu Lúkas og Matteus. Ég fjalla kannski frekar um Q síðar.

Eins og ég hef komið inn á áður er Jóhannesarguðspjall almennt talið yngra en samstofnaguðspjöllin og ef hefðbundnar kenningar um þróun guðspjallsskrifa eru réttar, þá er Markús augljóslega elsta heimildin um líf og starf Jesú.

Þrátt fyrir að vera elst, vera oft talið mest blátt áfram og laust við mjög þróaða guðfræðilega sýn á Jesú. Þá er markmið guðspjallsins skýrt, að segja frá fagnaðarboðskapnum um Jesú Krist. Þessi Jesús er enda ekki bara einhver, heldur lausnarinn sem sagt er frá í 40. kafla spádómsbókar Jesaja. Jesús er orð Guðs sem varir að eilífu, hann er sá sem gefur nýjan kraft:

þeir fljúga upp á vængjum sem ernir,
þeir hlaupa og lýjast ekki,
þeir ganga og þreytast ekki. (Jes 40.31)

Guðspjallið vísar til Jóhannesar skírara sem forvera þess sem verður. Í þessari frásögn staldrar enginn við hvort það sé við hæfi að Jóhannes skíri Jesús iðrunarskírn líkt og gerist í 3. kafla Matteusarguðspjalls eða sleppir því að tala um skírn Jesú líkt og í Jóhannesarguðspjalli.

Hér virðist enda skírnin marka þáttaskil, eða öllu heldur upphaf þess sem koma skal. Jesús er valinn, hann lætur sig hverfa strax og útvalningin er tilkynnt, kemur svo til baka eftir íhugun og kyrrð, og kemur sér upp traustum hópi fólks sem fylgir honum hvert sem er. Með öðrum orðum sama stef og er notað í fyrstu myndinni í öllum ofurhetjukvikmyndaseríum sem Hollywood framleiðir.

Jesús talar eins og sá sem valdið hefur eftir að hann kemur úr eyðimörkinni. Fólki finnst jafnvel

…eins og hann búi yfir guðlegum mætti!

Ásóknin og athyglin veldur því að hann dregur sig til baka og er sagður halda sér frá borgum og bæjum.

 

 

One thought on “Markúsarguðspjall 1. kafli”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.