2. Mósebók 14. kafli

Forherðing faraós er áfram til staðar. Jafnskjót og faraó áttar sig á að Ísraelsþjóðin er flúin, kallar hann saman herinn til að elta uppi flóttafólkið. Hann nær Ísraelsmönnum sem bregðast við hræddir. 

Leiðin að fyrirheitna landinu kallar á breytingar. „Allir“ vita að breytingar eru af hinu illa, eins og ég sagði í partýi í fyrradag, með framsæknu vísindafólki, og uppgötvaði mér til skemmtunar að líklega áttuðu þau sig ekki á háðinu í orðum mínum. Það er ekki alltaf auðvelt að vera hæðin á öðru tungumáli en sínu eigin.

Alla vega var Ísraelsþjóðin fljót að hafna breyttum aðstæðum þegar ógnin steðjaði að.

[Þ]egar Ísraelsmenn komu auga á Egypta og sáu að þeir sóttu fram á eftir þeim urðu þeir mjög hræddir. Ísraelsmenn hrópuðu á hjálp til Drottins en sögðu við Móse: „Eru engar grafir til í Egyptalandi úr því að þú fórst með okkur til að deyja í eyðimörkinni? Hvers vegna hefurðu gert okkur þetta og farið með okkur út úr Egyptalandi? Er það ekki einmitt þetta sem við sögðum við þig í Egyptalandi: Láttu okkur í friði. Við viljum þræla fyrir Egypta því að það er skárra fyrir okkur að þræla fyrir Egypta en að deyja úti í eyðimörkinni.“

Allar breytingar fela í sér nýjar aðstæður, nýjar ógnir og á stundum virðist gamla góða kúgunin og eymdin betri, en óvissan og óttinn.

Þannig var þolinmæðin gagnvart vinstri stjórn á Íslandi, sem jafnaði lífsskjör og tók á þensluþörfinni aðeins eitt kjörtímabil. Á sama hátt var stemmningin fyrir lýðræði í Egyptalandi 21. aldarinnar, aðeins rétt ríflega ár.

Hræðslan við breytingar er nefnilega öflugt afl. Það er betra að lifa í fullvissu og pirringi vegna illu kvótakónganna, en að horfast í augu við að kannski gætu aðstæður mínar breyst við aukið réttlæti.

Guð grípur enn á ný inn í heim Ísraelsþjóðarinnar, sagan minnir okkur á að Guð er gerandinn, mótandinn og hreyfiafl hlutanna. Enn á ný sjáum við skýrt að Ísraelsþjóðin er ekki Guðs útvalda þjóð vegna mannkosta, djörfungar eða krafts. Þvert á móti. Ísraelsþjóðin er samansafn hræddra einstaklinga, sem óska sér einskis fremur en að lifa áfram í öryggi þrælahaldaranna. Guðs útvalda þjóð er Guðs, svo máttarverk Guðs verði sýnilegt.

Væli og aumingjahætti Ísraelsþjóðarinnar er mætt af Guði með kraftaverki. Hafið klofnar og Ísraelsþjóðin getur gengið þurrum fótum í burtu frá ógninni. Her faraós eltir en vatnið rennur aftur í sinn eðlilega farveg á ný, eftir að Ísraelsþjóðin er öll komin í gegn.

Þegar vatnið kom aftur luktist það yfir hervagna, riddara og allt herlið faraós sem farið hafði á eftir þeim út í hafið. Enginn þeirra komst af.

Það er ekki fyrr en Ísraelsþjóðin sér Egyptanna liggja dauða á ströndinni að máttur Guðs rennur upp fyrir þeim. Hvað skyldi það endast lengi?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.