Moral Man and Immoral Society

Fyrir um 18 árum tók ég saman stutt yfirlit á íslensku um bók Reinhold Niebuhr, Moral Man and Immoral Society. Í umfjöllun minni skoðaði ég sérstaklega hugmyndir í 5. kaflanum um viðhorf forréttindastétta. Þá skoðaði ég siðferðishugmyndir Neibuhr í ljósi þess sem ég kalla skylduboðasiðfræði, afleiðingasiðfræði og einkasiðfræði.

Um Reinhold Neibuhr

Reinhold Neibuhr fæddist í smábæ í Missouri ríki í Bandaríkjunum 1892, þar sem faðir hans var þjónandi prestur. Hann stundaði nám í Elmhurst College í Illinois, Eden Theological Seminary í Missouri og tók síðan masterspróf frá Guðfræðideild Yale háskóla 1915.

Eftir að hafa lokið námi tók hann við starfi sem prestur í kirkju í Detroit og voru það hans fyrstu kynni af iðnvæddri stórborg. Á þessum tíma var uppbygging bílaiðnaðarins í hámarki í borginni og á þessum tíma var farið að nota færiband í verksmiðjum Ford.

Niebuhr lýsir upplifun sinni af verksmiðjum Ford í dagbók sinni Leaves from the Notebook of a Tamed Cynic sem kom út 1929:

Hitinn var ógurlegur. Mennirnir virtust órólegir. Hér var erfiðsvinna leiðinleg og erfiðið þrældómur. Mennirnir hafa ekki neinn möguleika á að fá gleði úr störfum sínum. Þeir einfaldlega vinna til að geta lifað af. Sviti þeirra og stöðugur sársauki eru hlut þess verðs sem er greitt fyrir alla fínu bílana sem við keyrum… Öll viljum við eiga það sem verksmiðjan framleiðir og ekkert okkar er nægilega næmt til að skeyta um hversu mikið afköst nútíma verksmiðju kosta mannlega reisn.

Eftir þrettán ára starf í Detroit, 1929, og ári eftir útgáfu fyrstu bókar sinnar Does Civilization Need Religion? varð hann kennari við Union Theological Seminary í New York þar sem hann starfaði allt til 1960 er hann fór á eftirlaun.

Sem kennari í New York tók hann virkan þátt í ýmsum félagslegum umbótum og tók þátt í starfi Sósíalistaflokksins.

Hann ritaði margar bækur um þjóðfélagsmál og verkefni kristinnar kirkju og er ein þeirra einmitt Moral Man and Immoral Society sem hann skrifaði 1932.

Umhverfi ritsins

Hugmynd upplýsingarinnar um að þekking og tækni leiddu alltaf til góðs biðu skipbrot í tveimur heimsstyrjöldum á 20. öld. Þá hafði öreigabylting kommúnista í Rússlandi mikil áhrif á hugmyndir um jöfnuð og réttlæti.

Í Kauphallarhruninu 1929 komu brestir í hugmyndir um kapítalismans og einstaklingum varð mörgum ljóst að heimurinn færi ekki endalaust batnandi. Það er í þessu umhverfi sem Reinhold Neibuhr skrifar bók sína. Á þeim tíma þar sem trúin á eigin lausnir mannsins eru að bíða skipbrot. Spurningar samtímans sem Niebuhr reynir að svara í bók sinni eru því þessar: Hvaða aðferðir hefur maðurinn fundið upp og reynt til að bæta heiminn? Hvers vegna hafa þær mistekist eða munu þær mistakast? Hvaða leið er síðan vænlegust af þeim sem við höfum?

Listin að lifa saman

Þrátt fyrir allar aldir reynslunnar hefur mönnum ekki tekist að lifa saman án þess að magna upp lesti sína og ata hvorn annan drullu og blóði.

Þannig kemst Niebuhr að orði á fyrstu síðu fyrsta kafla bókar sinnar. Í upphafskaflanum staldrar hann við að manneskjur sem hafa hæfileika til að setja sig í spor annarra séu um leið óhæfar til að lifa í stöðugum friði við aðra.

Hann skoðar hugmyndir upplýsingarinnar um að aukin þekking færi fram réttlæti og hafnar henni. Hann heldur því fram að öll samskipti stærri hópa byggist að einhverju leiti á þvingunum. Þ.e. einstaklingar þurfi að vera á einhvern ákveðinn veg til að vera taldir fullgildir.

Þá hafnar Neibuhr lýðræðislegu leiðinni sem þeirri einu réttu þar sem minnihlutinn sé þá neyddur til að fylgja vilja meirihlutans.

Hann bendir á að völd séu undirliggjandi samskiptum. Hver geti þvingað hvern sé grundvallarspurning í samskiptum manna.

Um leið bendir Neibuhr á að sem einstaklingar, trúi manneskjur yfirleitt að þær eigi að elska og þjóna öðrum og viðhalda réttlæti, en þegar kemur að hagsmunum hópa sem einstaklingar tilheyra sé yfirleitt gripið til valda.

Niebuhr heldur því fram að helsta mein samfélagsins sé miskipting valds. Hann telur upp fjöldann allan af dæmum úr veraldarsögunni og endar fyrsta kaflann með þeirri hugmynd að takmark um fullkomið þjóðfélag, þar sem ríki fullkomin friður, sé of fjarlægt til að stefna á. Takmark okkar eigi að vera heimur þar sem ásættanlegt réttlæti ríki og þvingunum sé beitt án ofbeldis, til að koma í veg fyrir algjörar hörmungar.

Skynsemi einstaklingsins

Enginn maður mun nokkurn tíma sjá þarfir náungans jafn skýrt og þarfir síns eigin. Né heldur mun hann bregðast jafn snöggt við eymd náungans og hann gerir í eigin neyð.

Neibuhr bendir á að aukin skynsemi kalli á gagnrýnisraddir gagnvart óréttlæti. Skynsemin auki mjög sennilega vitund þeirra sem þjást um rétt sinn.

Jafnframt heldur Niebuhr því jafnframt fram að einstaklingar muni ekki hætta að koma illa fram þó þeim sé bent á það, svo lengi sem þeir hagnist á því. Hvar sem menn hafi óverðskulduð völd, þá reyni þeir að viðhalda þeim og beiti til þess hvaða aðferðum sem til þarf.

Niebuhr setur stórt spurningamerki við þá getgátu sumra félagsfræðinga t.d. John Dewey, að aukin skynsemi styrki samviskuna, þó Niebuhr samþykki að samviskan fái ákveðna þjálfun við meiri þekkingu.

Niebuhr bendir á að skynsemi einstaklinga réttlæti einnig sjálfselsku. Einstaklingsvitund sé ávöxtur skynseminnar. Þessi einstaklingsvitund kallar fram spurningar um eilífð og endanleika. Í afhelguðu þjóðfélagi leiði það til þarfarinnar fyrir að hafa hlutverk út fyrir gröf og dauða. Þannig er stutt í það að mati Niebuhr að þessi einstaklingsvitund, valdi ekki aðeins vilja til lífs, heldur ekki síður vilja til valda.

Trú einstaklingsins

Niebuhr reynir að svara því hvort þjóðfélagsvandamál verði leyst á grunni kristinna kennisetninga. Hann fer þá leið að skoða ýmsar tilraunir til þess og velta upp kostum og göllum þeirra. Hann kemst að því að vissulega megi vera að einhver þeirra atriða sem hann telur upp, skili betri heimi en það sé þó alls ekki víst og því beri okkur að leita áfram að lausnum.

Síðan segir Niebuhr:

Krossinn er tákn sigursins á sínum eigin forsendum, hann er ekki tákn um sigur kærleikans á heiminum eða þjóðfélaginu. Þjóðfélagið fyrirleit í raun krossinn. Bæði ríkið og kirkjan tóku þátt í krossfestingu Krists og munu sjálfsagt ávallt taka þátt í henni…. Kynslóð tilfinninganna hefur eyðilagt þessa opinberun um raunveruleika Krists. Hún telur Guðs ríki rétt handan við hornið, þrátt fyrir að Kristur segði það ónálganlegt nema fyrir náð Guðs.

Þannig er áhersla Niebuhr skýr. Okkur ber skylda til að reyna að ná fram ásættanlegu réttlæti, en hitt er ljóst að verkefnið verður aldrei leyst nema fyrir náð Guðs.

Siðferði þjóða

Neibuhr heldur því fram að samskipti hópa geti ekki verið siðferðileg á sama hátt og samskipti einstaklinga.

Til að skýra þessa kenningu bendir Niebuhr á að hópum hljóti alltaf að framkvæma í samræmi við eiginhagsmuni. Hóp sé í raun ómögulegt að taka tillit til annarra hópa þar sem þau vandamál sem steðja að öðrum verði aðeins skilin óbeint, með samúð sem byggi á næmni og skilningi á þörfum. Hópar og samfélög hafi takmarkaða getu til að sýna raunverulega samúð. Því sé auðsætt að samfélög geti vart tengst siðferðisböndum. Þó er smá von um að þetta breytist eitthvað með öflugri samskiptum og meiri þekkingu.

Þá heldur Niebuhr því fram að þjóð sé mun fremur haldið saman af tilfinningum og völdum en nokkurn tíma skynsemi. Þar sem ekki sé mögulegt að framkvæma siðferðislega athöfn án sjálfsgagnrýni og sjálfsgagnrýni sé næsta ómöguleg án þessa að beita ákveðnum hömlum á tilfinningar, þá sé siðferðislegar athafnir þjóða næsta ómögulegar.

Niebuhr bendir síðan á þá þversögn þjóðerniskenndar að hún umbreyti sjálfsauðmýkt einstaklings í þjóðernishroka. Því dugar skammt að auka samúð einstaklinga með öðrum ef markmiðið er að leysa vanda heimsins.

Hann nefnir fjölmörg dæmi úr samtíðarsögu sinni um það að þjóðum sé ómögulegt að horfa fram hjá eigin hagsmunum, en reyni hins vegar að réttlæta ákvarðanir sínar á einhvern annan hátt.

Forréttindi

Grundvallarspurning Neibuhr þegar kemur að forréttindastéttum er hvernig manneskja sem getur sett sig í spor annarra, geti lifað í vellystingum meðan aðrir þjást.

Hann hefur kaflann á þeirri fullyrðingu að ójöfnuður þrífist í öllum mannlegum samfélögum. Hann bendir á að þessi ójöfnuður sé til staðar vegna misskiptingar valds og völd þarfnist ekki fjármagns þó vissulega fylgi það iðulega með.

Niebuhr bendir á að mögulegt sé að skipta þjóðfélaginu í tvær stéttir, þá sem eiga og þá sem eiga ekki. Þessi skipting sé hins vegar alltaf óhreinkuð af sérhagsmunum smærri hópa.

Hann tekur síðan til við að telja upp helstu aðferðir ríkjandi hópa til að réttlæta velmegun sína. Hann nefnir til sögunnar eftirtalinn viðhorf:

  1. Forréttindi eru sanngjörn greiðsla vegna mikilvægra og lofsverðra starfa.
  2. Forréttindi eru sanngjörn greiðsla fyrir dyggðum prítt líf, þar sem að mati millistéttarfólks helstu dyggðir eru iðni, hófsemi og sparnaður.
  3. Forréttindi okkar eru nauðsynleg til viðhalds á listum og menningu og framþróunar vísinda er rökstuðningur aðalsins.
  4. Núverandi þjóðfélagsskipun er nauðsynleg til að viðhalda frið og reglu í þjóðfélaginu.

Þessar hugmyndir Niebuhrs hrekur hann síðan hverja á fætur annarri. Hann kemst samt sem áður að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt beita siðferðislegum fortölum til að brjóta niður stéttaskiptinguna, eiginhagsmunir stétta verði alltaf ofar spurningunni um rétt og rangt.

Siðferðiviðhorf öreiganna

Niebuhr bendir á að í gegnum söguna hafi þjóðfélög lifað og dafnað án mikillar sýnilegrar andstöðu öreiganna. Það sé fyrst nú með nýjum aðstæðum og aukinni þekkingu að öreigar láti í sér heyra. Þó sé það athyglisvert að helstu kennimenn öreiga séu sjálfir millistéttarmenn.

Niebuhr bendir einnig á að ris tæknimenningar hafi sett auðinn í hendur enn færri enn áður. Ábyrgð eigandans gagnvart starfsmönnum hafi minnkað og fjöldamenning (e. mass civilisation) hafi myndast. Þetta hafi búið til skýrari stéttskiptingu en áður og skilið þá sem hærra standa frá þeim lægra settu.

Niebuhr horfir í þessum kafla mikið til Marx og telur að skoðanir Marxismans á t.d. stöðu öreigans komist nokkuð nærri sanni. Neibuhr telur öreigann hafa lítið traust á siðferði mannskepnunnar, en um leið haldi hann vörð um ákveðna siðferðismynd sem þjóðfélaginu beri að halda á lofti.

Hann vitnar einnig í Marx þegar hann bendir á að sannur öreigi telji lýðræðisríkið verkfæri auðvaldsins til kúgunnar verkalýðnum. Öreiginn sé algerlega rændur allri ættjarðarást. Ættjarðarástinn hverfi með auknu óréttlæti. Um leið og óréttlætið sverfur að ættjarðarástinni hjálpar það öreiganum að finna samkennd með stéttarbræðrum sínum.

Í raun sé hugmynd Marx um margt svipuð hinni kristnu von. Á sama hátt og sá kristni bíður eftir andlegri lausn, horfir öreigi Marx með vonaraugum til þess dags að styrkur auðvaldsins snúist í höndum þeirra og styrkurinn verði afhentur hinum fátæku.

Hver gefi eins og geti og þiggi í samræmi við þörf. Í þeirri hugmynd felist það skynsemisþjóðfélag beri að stefna að. Að mati Niebuhr liggur sú hugmynd að baki bæði hugmyndum Marxista og kristinna.

Niebuhr notar orð James Madison, til að vara við hættunni sem blasir við Marxistum.

Sannleikurinn er sá að öllum þeim sem hafa völd, ber að vantreysta.

Umfjöllun Niebuhr um öreigana, lýkur á því að benda á að:

Spurningin sem samfélagið stendur frammi fyrir er sú hvernig hægt sé að uppræta þjóðfélagslegt óréttlæti án þess að eyðileggja það sem er þess virði að lifa fyrir og einnig án þess að annars konar óréttlæti skjóti ekki upp kollinum. … Öreiginn hefur í raun ekki áhyggjur af þessu. Hann sér ekki hvað hægt er að lifa fyrir í núverandi stöðu og hins vegar er ekki hans verk að kvíða framtíðinni. Eins og allir þeir sem örvænta hefur hann efni á að telja hlutina aðeins geta batnað.

Bylting

Niebuhr hafnar því að ofbeldi sé í sjálfu sér ósiðlegt. Og heldur því fram að:

Ekkert er í eðli sínu ósiðlegt annað en illvilji og ekkert í eðli sínu gott nema góðvildin.

Þannig geti stjórnmálakenning ekki verið vond í sjálfu sér ef henni sé ætlað að gera gott. Að sama skapi sé þó heldur ekki hægt að halda því fram að hún sé góð í sjálfu sér, þó hún virðist ætla að hafa góðar afleiðingar.

Sú fullyrðing að bylting og ofbeldi séu í eðli sínu vondar byggir á tveimur yfirsjónum. Önnur yfirsjónin er sú að ofbeldi sé alltaf tjáning á illvilja og hin að það að beita ekki valdi sé í eðli sínu af hinu góða.

Niebuhr hafnar því hugmyndum um ákveðnar dyggðir sem séu alltaf góðar og leggur á það áherslu að aðstæður og hugur geranda stjórni því hvort athöfn sé rétt eða röng. Þannig bendir Niebuhr á að öreiginn taki félagslegar umbætur fram yfir eignarréttinn, meti jöfnuð meira en frelsi og leggi ofuráherslu á stöðu sína í hópnum meðan einstaklingur úr millistétt horfir á sig sem einstakling fyrst og fremst, og leggi áherslu á eignarrétt, frelsi einstaklingsins, gildi gagnkvæms trausts einstaklinga og óeigingirni.

Þannig stjórnist öreiginn af kulda og hörku þjóðfélagssiðfræðinnar meðan millistéttinn beitir fyrir sig siðferði einstaklingsins í eigin samskiptum. Þó vissulega beiti millistéttarmaður fyrir sig siðfræði þjóðanna í samskiptum við aðra hópa.

Niebuhr rekur vangaveltur sínar um hverjir myndu styðja byltingu í nokkrum ríkjum Evrópu og niðurstaða hans er sú að án annarrar heimstyrjaldar sé möguleikinn á því að koma kommúnisma á með byltingu hverfandi í öllum hinum vestræna heimi. Niebuhr bendir þó á að ef byltingu myndi takast ætlunarverk sitt væri hægt að fyrirgefa henni margar aðferðir.

Niebuhr hefur hins vegar efasemdir um að byltingu geti tekist ætlunarverk sitt og bendir á að eina leiðin til að koma í veg fyrir það að vald fjármagns komist í fáar hendur sé að valdið sé í höndum öflugra stjórnvalda. Hins vegar sé þá engin trygging fyrir því að stjórnvöld misnoti ekki vald sitt.

Draumur um þjóðfélag þar sem hver lætur sér nægja að taka í samræmi við þarfir sínar er fullkomlega óraunsær og sniðgengur með öllu takmarkanir mannlegrar náttúru. Manneskjur munu alltaf hafa ímyndunarafl til að sjá hvernig þær geta haft það betra en nauðsyn krefur og munu alltaf vera það sjálfselskar að meta þarfir sínar meira en annarra.

Stjórnmál

Niebuhr horfir til þess að verkalýðurinn sé tvískiptur. Annars vegar séu þeir sem búa yfir sérhæfingu og hins vegar þeir sem eru í raun aðeins hrátt vinnuafl. Þeir sem eru sérhæfðir á einhvern hátt eða búa við eitthvert atvinnuöryggi, eru mun síður tilbúnir að taka þátt í einhverju sem umbyltir aðstæðum og kjósi því fremur leið stjórnmálanna.

Niebuhr rekur sögu upphafs 20. aldar og bendir á að nokkuð hafi þokast í jafnræðisátt. Aðaleinkenni sögunnar sé þó að hagkerfið hafi rænt verkamenn, en ríkið hafi komið til sögunnar og bætt verkamönnum tap sitt með uppbyggingu á velferðarkerfi. Eins hafi forréttindahópar fallist á réttindi verkamönnum til handa, til þess eins að veikja og/eða þagga niður í stéttarfélögum.

Niebuhr veltir upp hvort afnám eignarréttar leiði til aukins réttlætis. Hann bendir á að uppeldisfræðingum mistakist í sínum hugmyndum um aukið réttlæti vegna þess hversu þeir séu fastir í hugarheimi millistéttar sem haldi fast í eignarhugtakið.

Niebuhr hafnar hugmyndum um menntað einveldi, því þó að hægt sé að vita nokkuð skýrt hvert markmið samfélagsins sé, þá séu bestu aðferðir þjóðfélagsstjórnunar alls ekki ljósar. Og eftir allt séu það ekki alltaf stjórnmálamenn sem stjórna heldur ýmsir þrýstihópar.

Eftir að hafa síðan velt fyrir sér ýmsum möguleikum, kemst Niebuhr að þeirri niðurstöðu að engin ein stjórnmálaaðferð sé fær um að koma á valdajafnvægi, og ef ekkert breytist verði að láta duga að leitast við að nálgast slíkt jafnvægi eins og kostur er.

Hann bendir á að til að einhverjir séu til þess hæfir að gagnrýna þjóðskipulag þurfi þeir hinir sömu að standa að einhverju leiti utan við það. Þar standi nú öreigastéttinn og því séu þeir eini hópurinn sem í raun getur gagnrýnt skipulag þjóðarinnar til fulls.

Niebuhr heldur því síðan fram að enginn leið sé að meta til fulls siðferðilega hvort stjórnmálaþróun eða bylting sé betri kostur í átt til réttlætis. Ljóst sé að stjórnmálaþróun leiði ekki til fulls jafnréttis en hins vegar geti vel verið að bylting leiði til verra ástands. Ákvörðunin um leið sé háð því hversu alvarleg sú krísa er sem þjóðfélagið sjálft er statt í.

Siðferðiskennd

Það er mikilvægt að krefjast þess framar öðru, að réttlæti sé mikilvægara markmið en friður að mati Niebuhr. Hann fjallar um hugtakið kúgun og spyr hvort til sé kúgun án ofbeldis og svarar því neitandi nema ef skilið sé á milli aðgerða og afleiðinga, sem sé ógerlegt. Hann vill því fremur tala um að vera ósamvinnuþýður fremur en notast við hugmyndir um kúgun án ofbeldis. Enda sé mótsögn falin í hugmyndum um kúgun án ofbeldis, öll kúgun leiði til ofbeldis.

Hann tekur dæmi af baráttu Gandhi og segir að ef kúgun leiði ekki af sér ofbeldi sé það ekki kúgun heldur kennsla. Með öðrum orðum. Ef kúgun er án ofbeldis en afleiðingarnar eru ofbeldi þá vill Niebuhr kalla það að vera ósamvinnuþýður, en ef um er að ræða kúgun sem hvorki er né veldur ofbeldi, þá sé það kennsla.

Hann veltir einnig upp hvað sé í raun kennsla og staldrar svo við afstæði frelsisins.

Niebuhr vitnar í Ágústínus og segir að allt til enda heimsins þurfi að viðhalda friðnum með baráttu. Því verði aldrei fullkominn friður hér á jörð. Hitt sé þó ljóst að við gerum ekki okkar besta en sem komið er.

Árekstrar einstaklings- og þjóðfélagssiðferðis

Árekstrar einstaklinga og þjóðfélags felast í mismunandi markmiðum að mati Niebuhr.

Helsta markmið þjóðfélags á að vera jafnrétti, meðan markmið einstaklinga er kærleikur. Niebuhr reynir að gera grein fyrir þessum árekstrum og hvernig sé hægt að samtvinna þessi markmið.

Hann bendir á að sá kærleikur sem einstaklingurinn stefni að, sá kærleikur sem Kristur boðaði, krefjist einskis endurgjalds. Þvílíkur kærleikur sé ómögulegur þjóðfélagshóp því enginn leiðtogi hafi rétt til að vera ósjálfselskur fyrir annarra hönd.

Niebuhr kemst því að þeirri niðurstöðu að tvíhyggja í siðferðisefnum sé óumflýjanleg. Það verði alltaf þannig að einstaklingssiðferði og þjóðfélagssiðferði verði ekki samrýmd að fullu, því verði þeir sem fara með völd alltaf ásakaðir að hræsn í einstökum kringumstæðum og sjálfsagt ekkert við því að gera.

Röksemdafærsla Niebuhr

Í bókinni Textbook of Christian Ethics gengur Robin Gill út frá þremur aðferðum við siðferðilegan rökstuðning. Þær eru skylduboðasiðfræði, afleiðingasiðfræði og einkasiðfræði. Hér á eftir hyggst ég skoða þessar þrjár aðferðir og sjá hvernig Niebhur styðst við þær í riti sínu.

Skylduboðasiðfræði

Skylduboðasiðfræði er sú siðfræði sem gengur út frá því að til sé regla/dyggð/boð sem öllu sé æðra og stefna beri á af öllum mönnum og hópum.

Í riti sínu leggur Niebuhr áherslu á að þvílík boð séu til. Þau séu reyndar tvö, annað fyrir mann í persónulegum samskiptum og hitt fyrir hópa. Einstaklingum beri að sýna og mótast af auðmýkt og kærleika, þó ekki á kostnað sjálfsvirðingar. Grundvallarboð hópa/stétta/ríkja sé að viðhafa og stuðla að réttlæti.

Niebuhr fjallar svo um að þessi boð verði aldrei uppfyllt til fulls, en að þeim beri að stefna.

Afleiðingasiðfræði

Það sem ég hef kosið hér að kalla afleiðingasiðfræði er sú kenning sem einnig hefur verið nefnd nytjakenning eða hamingjusiðfræði. Alltaf beri að stefna að sem mestri hamingju fyrir sem flesta. Þar eð ekkert er rangt í sjálfu sér heldur vegna afleiðinganna sem það veldur.

Afleiðingasiðfræði hlýtur því alltaf að ganga út frá einhvers konar skylduboðafræði sem endamarki sínu, þ.e. afleiðingin er dæmd út frá því hvað er rétt og hvað rangt, hvað illt og hvað gott.

Á þennan hátt hugsar Niebuhr er hann heldur því fram að bylting öreiga sé réttlætanleg ef vissa fæst fyrir því að hún færi fram jöfnuð. Þannig telur hann að ófriður sé heimill ef jöfnuður er afleiðingin.

Einkasiðfræði

Að lokum færir Gill okkur hugmyndina um einkasiðfræði eða sjálfdæmishyggju. Sú kenning gengur út frá því að ekkert yfirvald sé einstaklingnum æðra og hinn eini mögulegi mælikvarði siðferðis sé tilfinning, samviska og ást. Hér er gengið út frá því að ekki sé hægt að viðhafa nein viðmið fyrir ákveðnar aðstæður. Hvert atvik kallar fram nýtt svar. Í stuttu máli má segja að Niebuhr hafni þessu þegar hann fjallar um að hópum sé ókleift að taka tillit til annarra og setja sig í spor þeirra.

Kristin siðfræði Niebuhr

Það má spyrja sig á hvaða hátt sú siðfræði sem Niebuhr kemur fram með sé ólík öðrum hugmyndum um siðfræði. Þá má líka spyrja hvort að siðfræði Niebuhr sé á einhvern hátt sérkristileg?

Í riti sínu vitnar Niebuhr á nokkrum stöðum til Biblíunnar og persónu Jesú Krists. Þar ber hann saman á gagnrýnin hátt kenningar Krists og annarra fræðimanna, svo sem Marx og Engels. Þessi skírskotun er þó alls ekki til að sýna yfirburði Krists heldur einungis til að bera saman mismunandi kenningar. Þar dæmir hann ýmist Kristi eða Marx í hag. Niebuhr leggur á það áherslu að kenning Krists, krossdauði hans og upprisa var ekki hugsuð sem þjóðfélagsleg framkvæmd heldur einstaklingsfrelsun og því sé vart hægt að ætlast til að kenning sé nothæf í samskiptum hópa/stétta/þjóða. Kenningar Marx hins vegar séu hugsaðar sem þjóðfélagskenningar og því betur til þess fallnar að fjalla um þá hlið mála.

Kristinn siðfræði hefur, að mati Niebuhr, tvo póla. Annars vegar stefnir hún að auðmýkt og kærleika hjá einstaklingum og hins vegar að jöfnuði milli allra. Á þann hátt gefi kristin siðfræði einstaklingum leiðbeiningar um hvernig öðlast megi hið fyrrnefnda, en skilur gátuna um hið síðara eftir í höndum okkar. Okkur beri að leita eftir svarinu af öllum mætti og stefna eins nærri lausn og okkur er mögulegt en þó sé ljóst að svarið sé ekki að finna til fulls hér á jarðríki.

Athugasemd um annað lögmál varmafræðinnar

Taka má undir með Niebuhr þegar hann gagnrýnir forréttindastéttir fyrir að réttlæta réttindi sín á forsendum eigin gæða eða vegna þess að hún sé nauðsynleg til að viðhalda menningu í samfélaginu.

Niebuhr gengur út frá því að ójöfnuður myndist í öllum þjóðfélagskerfum. Þar sem Niebuhr telur að ójöfnuður sé rangur má segja að Niebuhr tileinki sér siðfræðilega útgáfu af 2. lögmáli varmafræðinnar, þ.e. að allt stefni að óreiðu.

Af því má leiða að gagnrýni hans á að forréttindastéttir telji það hlutverk sitt að viðhalda ríkjandi ástandi, sé ekki réttmæt. Ef 2. lögmál varmafræðinnar gildir um þjóðfélagsástand eins og ætla má af orðum Niebuhr þá er viðhald ríkjandi ástands sú leið sem tryggir besta mögulega ástand.

Reyndar er hægt að færa fyrir því rök að hægt sé að bæta ástand til skemmri tíma. En slíkt getur vart gerst nema um sé að ræða sameiginlega ákvörðun allra þjóðfélagsþegna því að af öðrum kosti eykst óreiðan eða ójöfnuðurinn.

Sú niðurstaða Niebuhr að aldrei náist jöfnuður til fulls og öll þjóðfélög stefni til aukins ójöfnuðar, má því segja að snúist í höndum hans og kalli fram þá niðurstöðu að viðhald ríkjandi ástands sé besta mögulega leiðin sem hægt sé að stefna að.

Athugasemd um textann hér að ofan

Þegar ég bjó yfirlitið undir birtingu hér á vefnum, fékk ég á tilfinninguna að notkun mín á hugtökunum jafnrétti (e. equality) og réttlæti (e. justice) hefðu e.t.v. verið eitthvað á reiki í kringum 1995. Ég bið hugsanlega(n) lesanda/lesendur um að hafa þann fyrirvara í huga. Eins eru þýðingar á textum Neibuhr mínar og alls ekki yfir gagnrýni hafnar.

Heimildir

  • Niebuhr, Reinhold; 1932; Moral Man and Immoral Society; Touchstone
  • Niebuhr, Reinhold; 1929; Leaves from the Notebook of a Tamed Cynic; Willett, Clark & Cobly
  • Gill, Robin; 1985; A Textbook of Christian Ethics; T&T Clark
  • Scott, Nathan A.; 1963; Reinhold Niebuhr; University of Minnesota Press

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.