Ég trúi…

Ég trúi á þann Guð sem er með. Þann Guð sem er upphaf og endir alls. Þann Guð sem gefur sig allan fyrir aðra. Þann Guð sem gengur á undan, gefur ekki eftir, stendur sannleikans megin jafnvel þegar sannleikurinn særir vinahópinn.

Ég trúi á Guð sem í Jesú Kristi steig óhræddur fram og gagnrýndi þá sem völdin höfðu. Ég trúi á Jesú Krist sem gekk til þeirra sem fundu sig á jaðrinum, ég trúi á Jesú Krist sem kallar mig til að feta í fótspor sín. Ég trúi á Jesú Krist sem gaf sjálfan sig fyrir aðra.

Ég er meðvitaður um syndina og sjálfhverfuna sem lýsir sér m.a. í að skrifa trúarjátninguna MÍNA. Ég er meðvitaður um illskuna sem býr í heiminum sem algóður Guð hefur skapað og glími við hvort frelsið sé illskunnar virði.

Ég trúi á heilagan anda Guðs sem hjálpar mér að sjá brot af Guðsríkinu, því fagra góða og fullkomna allt í kringum mig. Ég er þakklátur anda Guðs að hafa veitt mér innsýn í ríki sitt, bæði í sköpunarverkinu í heild og í gjörðum fólks sem ég hef fengið að mæta. Ég er þakklátur fyrir vonina um Guðsríkið, þakklátur fyrir að hafa mark til að stefna að.

Ég er misánægður með að Guð hafi kallað mig til þjónustu við sig. Ég er ekki viss um að Guð hafi endilega valið vel, hugsa oft að ég hafi hugsanlega misheyrt kallið. En ég leitast eftir að standa mig. Vitandi að þegar mér mistekst þá reisir Guð mig við.

Ég hef séð illskuna og afleiðingar hennar í gjörðum fólks eins og mín sem kallar sig Kristsfólk. En ég hef einnig séð Guð starfa í gegnum þá sem lofa Guð og ákalla. Ég hef séð fegurðina í baráttu trúaðra og trúlausra fyrir réttlæti, en svo sem líka séð sársauka og eymd þar sem hinir sterku kúga í krafti hefðar, vitsmuna, valds og venju.

Fyrst og fremst trúi ég á Guð sem skapar, frelsar, leiðir og elskar. Guð sem fyrirgefur og Guð sem stendur með hinum smáa í baráttunni fyrir réttlæti.