Innihald eða umgjörð

Ég segi stundum að umgjörðin sé aðalatriðið, innihaldið sé aukaatriði. Þetta eigi ekki síst við um í þeim störfum sem ég hef sinnt í gegnum tíðina. Ég upplifði þetta sterkt þegar ég og konan skoðuðum leikskóla fyrir dótturina fyrir hartnær 10 árum. Það að leikskólinn hefði stefnu sem trúað var á og unnið eftir af heilindum virtist skila góðu leikskólastarfi, og það virtist ekki skipta öllu máli hver stefnan (innihaldið) var.

Ágætur fræðimaður sem ég held mikið uppá, Israel Galindo, benti ítrekað á þessa staðreynd í áhugaverðum fyrirlestri sem ég sat nú í lok maí. Það er ekki innihaldið heldur ferlið sem telur (e. not the content, it is the process).

Greiningin þarna á milli er hins vegar ekki alltaf auðveld og snýst fyrst og fremst að því að átta sig á eigin hegðun og viðbrögðum, þegar kemur að ákvarðanatöku eða öllu heldur ákvarðanatökuferlinu. Hugtakið sem Galindo notar um okkar eigin stöðu er “Differentiation of Self” og en í því hugtaki felst meðvitund um skýr mörk, sjálfsaga, grunngildi (sjálfvirðing), tjáningu sem horfir áfram í stað þess að bregðast við (non-reactive), að horfa á ferli en ekki innihald og halda tengslum þrátt fyrir mismunandi gildismat.

Ein hættan í ákvarðanatökuferlinu sem kallar á alla þessa þætti “differentiation” er þörfin fyrir að taka yfir ábyrgð annarra, stíga inn og “bjarga málum”. Þannig er mikil hætta á að þörfin fyrir að allt sé gott, leiði til þess að við losum aðra undan ábyrgðinni, tökum yfir hlutverk og stöðu annarra, sem leiðir til þess að við brennum út og aðrir þroskast ekki.

Hugmyndir Galindo snúa ekki síst að kirkjulegu starfi þar sem “krónískur kvíði” ríkir mjög víða og hugmyndir um ábyrgð og ákvarðanir, hlutverk og virkni eru oft á tíðum óljósar. Þannig eru þeir sem stíga fram í þjónustu oft með uppblásna ábyrgðarkennd sem leiðir til þess að þau sem í kringum þau eru ná ekki að þroskast og dafna.

Þannig myndast í kirkjulegu starfi jafnvægi sem samanstendur af fólki sem er “overfunctioning” og skynjar að það er ekki allt með felldu og brennur jafnvel upp og hinna sem komast ekki að, taka lítt þátt, ná ekki að þroska hæfileika sína, enda er þeim ekki leyft að taka ábyrgð.