Eitthvað spennandi í gangi?

Eins og einhverjir vita þá er ég á leiðinni til Íslands í haust eftir rúmlega 5 1/2 árs dvöl í Bandaríkjunum. Ég á samt eftir að ganga frá einu máli áður en ég kem til baka. Finna mér eitthvað skemmtilegt að gera.

Atvinnuleit/verkefnaleit mín snýst fyrst og fremst um fjóra þætti og í þessari röð.

  1. Hversu spennandi starfið er.
  2. Hvernig fólki ég er að fara að vinna með.
  3. Hversu mikið svigrúm er í starfinu (til að gera nýja hluti, varðandi vinnutíma o.s.frv.)
  4. Hvaða laun eru í boði.

Ég get hugsað mér fjölmargar ástæður fyrir því að fyrirtæki, félög, stofnanir eða kirkjur eigi að fá mig til starfa.

Ég á auðvelt með að setja mig inn í hluti. Ég hef mikla reynslu bæði í að vinna sjálfstætt og með hópum. Ég hef reynslu af að takast á við flókin vandamál, hvort sem er þegar kemur að fjármálum eða mannlegum samskiptum. Ég hef tvær meistaragráður í guðfræði þar sem ég lagði annars vegar áherslu á stjórnun skipulagsheilda, árangursmat og leiðtogakenningar og hins vegar á safnaðarstarf, sérstaklega með börnum og unglingum.

Ég hef annast vefsíðugerð. Ég hef grunnþekkingu á forritun, mestmegnis í PHP, þó ég hafi í fyrndinni einnig lært lítillega á Pascal og síðar C++. Ég hef notast við MySQL gagnagrunna og einföld kerfi til að halda utan um vefsíðulén og er óhræddur við að setja mig inn í hverskyns tölvukerfi. Ég þekki vel til og hef reynslu í notkun félagsmiðla, eins og bloggs, spjallþráða, Facebook og Twitter.

Ég hef unnið við uppsetningu og hönnun prentgripa. Fyrst í kringum 1991 með aðstoð PageMaker, síðar í QuarkXPress og nú síðustu ár í InDesign. Eins hef ég notast við Photoshop í myndvinnslu og FreeHand og Illustrator við táknmyndagerð.

Fyrst og fremst er ég samt hreinskiptinn, heiðarlegur, forvitinn, tilbúinn til að læra nýja hluti og takast á við ný verkefni.

Ef þú hefur lesið í gegnum þetta allt og veist af einhverju skemmtilegu og spennandi sem ég get tekið þátt í. Endilega hafðu sambandi.