Frásögnin hér er ein af þessum sem hefur orðið grundvallarfrásögn í öllum Barnabiblíum á 19. og 20. öld og hefur verið notuð af einhverjum óskiljanlegum ástæðum í sunnudagaskólaefni um allan heim. Sagan þegar Abraham fer af stað til að fórna syni sínum.
Ég átta mig á að ástæða þess að þessi frásögn er notuð í barnaefni er líkast til frekar byggð á Hebreabréfinu 11. kafli, versum 17-19, en á frásögunni eins og hún birtist hér. Sagan er þannig notuð sem dæmi um fullkomið traust til Guðs, sem er túlkun Hebreabréfsins, en ekki dæmi um blinda hlýðni við yfirvöld eins og auðvelt er að sjá út úr textanum hér.
Þegar sagan er lesin í ljósi mismunandi sagnahefða, kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Það er Guð E-hefðarinnar sem setur atburðarásina í gang, kallar Abraham til að taka son sinn og halda á fjall til að fórna syni sínum. Það er hins vegar engill Jahve sem grípur inn í atburðarásina og það er Jahve sem Abraham telur sig hafa mætt á fjallinu, Jahve sem veitir honum enn á ný fyrirheit um bjarta framtíð.
Skiptingin er e.t.v. ekki alveg klippt og skorin, þrátt fyrir að það sé Guð E-hefðarinnar sem kallar Abraham til aðgerða, þá kannast Jahve við það að Abraham hugðist fórna Ísak sér til dýrðar. Þá er ekki eins og Jahve virðist jafn fráhverfur helgihaldi eins og stundum áður í 1. Mósebók, því Abraham fórnar vissulega hrútinum sem þeir finna á fjallinu.
Önnur nálgun á söguna kemur úr íslamskri hefð, en frásagan kemur fyrir í Kóraninum, nema hvað að þar er sonurinn sem fórna á ekki nefndur á nafn. Það hefur leitt til þeirrar túlkunar í Islam að sonurinn sem fórna átti hafi í raun og sann verið Ísmael en ekki Ísak. Á þann hátt er sagan áfram um fórn Abrahams á syni sínum. Abraham gefur son sinn á vald Guðs og Guð lofar að blessa soninn margfaldlega. Fórnin er ekki bókstafleg heldur getur skilist sem svo að Guð “ættleiði” soninn, og Guð verði ættfaðir þeirrar þjóðar sem sonurinn myndar. Þegar sagan er skilinn á þennan hátt liggur beint við að skilja það sem svo að sonurinn hafi verið Ísmael en ekki Ísak, enda sjáum við í framhaldinu að Ísak losnar ekki undan föðurvaldi Abrahams þó gamli maðurinn leggist í kör. Á hinn bóginn er Ísmael látinn sigla sinn sjó. Eina vandamálið við þessa túlkun er auðvitað að Ísak er nefndur á nafn í frásögn 1. Mósebókar.