Skapaði Guð illgresið?

Innlegg á KSS fundi 2004. Textinn hefur verið lítillega lagfærður með tilliti til málfars og þroska.

Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: Hvar ertu?
Hann svaraði: Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur, af því að ég er nakinn, og ég faldi mig.
En Guð mælti: Hver hefir sagt þér, að þú værir nakinn? Hefir þú etið af trénu, sem ég bannaði þér að eta af?
Þá svaraði maðurinn: Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át.
Þá sagði Drottinn Guð við konuna: Hvað hefir þú gjört?
Og konan svaraði: Höggormurinn tældi mig, svo að ég át.

Sköpunarsaga Biblíunnar eða öllu heldur sköpunarsögur Biblíunnar birta okkur margvíslegan sannleika. Þær segja okkur að Guð hafi skapaði allt, og allt hafi verið gott. Við lesum þar líka um fall mannsins. Komu hins illa inn í heiminn. Í sköpunarsögunni má líka finna fyrirheit um komu Jesú Krists. En stöldrum við fyrri tvo þættina, sköpunina og komu hins illa inn í heiminn.

Biblían segir það klárt og skýrt. Sköpunin er ÖLL Guðs, það er engin annar sem skapar. Veröldin er frá Guði kominn. Þetta er grundvallarsýn kristinna manna. Þannig að svarið við spurningunni í upphafi er einfalt. Já, Guð skapaði illgresið.

Ástæðan fyrir því að það fer í taugarnar á okkur, eru einfaldlega að við [mennirnir] teljum að þessar jurtategundir eigi ekki heima í umhverfinu sem við viljum vera í.

En það er kannski ekki þetta svar, sem átti að koma. Líklega er það vangaveltan um hið illa sem lesa má milli línanna í spurningunni, sem á að vera umræðuefnið hér í kvöld.

Sköpunarsagan segir frá komu hins illa í heiminn og það er óhætt að segja að þrjár stefnur séu ríkjandi í heiminum þegar rætt er um illskuna.

fyrsta er hugmynd “póstívísmans,” tæknihyggjan. Ekkert illt er til. Illska heimsins byggir á skorti á þekkingu. Með aukinni þekkingu og tækni minnkar illskan. Þessi hugmynd var mjög ráðandi í lok 19. aldar og fram á þá tuttugustu. Hugmyndin beið sitt fyrsta skipbrot með fyrri heimstyrjöldinni. Síðan þá hefur hún skotið upp kollinum, m.a. í kommúnismanum og í húmanistahreyfingum, þar sem áherslan er á að allir séu í raun góðir og vilji gera það sem gott er. Freistarinn hið illa, sé í raun ekki til.

Önnur hugmyndin er ekki síður vel þekkt. Hugmyndin um að hið illa sé raunverulegt afl sem berst við hið góða, Guð, um yfirráðin í heiminum. Þessi hugmynd er oft ranglega tengd við kristna trú og vísað m.a. til Páls postula og Opinberunarbókarinnar. Þessi hugmynd er sterk í boðun ýmsa safnaða sem telja sig kristna og kemur fram t.d. á Omega. Gospelpoppraparinn Carman hefur lagt upp með þessa áherslu t.d. í söngvum þar sem baráttu góðs og ills er lýst sem boxkeppni. Trúfélagið Frelsið sem starfaði hér á Íslandi fyrir nokkrum árum setti upp í þessum dúr leikþátt sem endaði með því að Jesú tók upp byssu og skaut djöfulinn.

Segja má að þessar hugmyndir um baráttu góðs og ills séu mest áberandi og sterkastar í Bandaríkjunum og þar eru þær notaðar m.a. í stjórnmálabaráttunni. Þar var Saddam Hussein útmálaður sem starfsfélagi Satans og sú mynd látin réttlæta stríðsreksturinn í Írak. Þessu fylgir iðulega að það sem aflaga fer í veröldinni sé verk djöfulsins. Hann sé ábyrgur og gegn honum þurfi að berjast.

Tvíhyggjan kemur inn í kristnina í gegnum gríska heimspekihugsun. Með kenningum um tvö guðleg öfl í baráttu um sálirnar og óvissu um endalokin er auðvelt að taka ábyrgðina frá okkur sjálfum. Afleiðing þessarar kenningar er sú að við föllum í þá gryfju að hugsa fyrst og fremst um frelsun okkar sjálfra, tökum stöðu Evu og segjum þegar eitthvað misferst “Það var ekki ég, það var höggormurinn.”

Þriðja hugmyndin sem ég hyggst nefna hér til sögunnar er sú sem við lesum um í Biblíunni. Guð er einn Guð og ekkert afl er til sem stenst hann. Aðeins eitt guðlegt afl er til. En þrátt fyrir að illskan sé ekki guðleg er hún raunveruleg. Illskan er afleiðing þess að maðurinn vill sjálfur gerast Guð. Frásagan sem ég las áðan segir frá því. Um leið og maðurinn vill verða Guð er hann ekki tilbúin til að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Illskan birtist í því að maðurinn leitast við að hugsa fyrst og fremst um sjálfan sig, lokar á umhverfi sitt.

Biblían útskýrir hins vegar ekki hvers vegna þjáningin á sér stað á einum stað en ekki öðrum. Þegar hún hefur útskýrt tilurð illskunar snýr hún sér að hugguninni.

Hvernig tökumst við á við illskuna?

Adam Smith einn þekktasti hagfræðingur allra tíma fór þá leið að líta á eigingirnina sem forsendu framfara, hann talaði um að ef við gefum okkur sjálfumhverfunni á vald myndi þjóðfélagið njóta mestra hagsmuna. Þessar kenningar eru kallaðar kapítalismi og móta flest vestræn samfélög í dag. Gefumst upp fyrir syndinni, nýtum hana í okkar þágu. Þeir sem þannig gera ná mestum árangri. Þessar hugmyndir Adam hafa reyndar sannað sig að hluta til rangar m.a. með leikjakenningum í stærðfræði á seinni hluta 20. aldar, en lifa samt góðu lífi í dag.

Kristur fór annan veg, bæði mjórri og ógreiðfarnari. Hann gaf sjálfan sig fullkomlega fyrir aðra. Hann þjónaði þjónum sínum, í auðmýkt. Hann réðst á synd sjálfhverfunnar.

Guð gefi að við förum veg Krists, berjumst gegn illskunni og komum fram í auðmýkt og þjónustu hvort við annað.

3 thoughts on “Skapaði Guð illgresið?”

  1. 1. Það væri áhugavert að fá aðeins meiri útskýringu á því hvað þú átt við með að aðeins eitt “guðlegt” afl væri til. Varla ertu að neita því að það sé alveg í samræmi við kristna trú að gera ráð fyrir því að mikið af því slæma í heiminum sé orsakað af illum andaverum? Jesús í guðspjöllunum virðist amk telja að ýmsir sjúkdómar séu í raun og eru illir andar.

    2. Miðað við titilinn, þá virðistu vera að einbeita þér að náttúrulegu böli. Við gætum bætt jarðskjálftum við, ef illgresi er ekki nógu slæmt. “Lausnin” þín virðist vera sú að þetta sé allt saman manninum að kenna, en jarðskjálftar og illgresi var til löngu áður en menn komu fram á sjónarsviðið.

  2. Þakka þér fyrir ágætar spurningar, ég vona að það sé í lagi að ég svari ekki öllu sem þú spyrð um, enda hef ég ekki alltaf svör við öllu sem þú veltir upp og þannig eru spurningar þínar ágæt áminning um opna enda í hugsunum mínum.

    Mig langar þó að staldra við “guðlegu” öflin. Það sem ég gagnrýni hér er hugmyndin um tvö sambærileg guðleg öfl sem berjast um yfirráðin yfir heiminum. Þeir illu andar sem Jesús glímir við í guðspjöllunum eru svo sannarlega ekki á neinn hátt jafnokar Guðs eða guðlegir.

    Það er mikilvægt að taka fram að ég hafna ekki illskunni sem raunverulegri, sem á sér margvíslegar myndir. Það sem ég gagnrýni í öðrum lið eru tilraunir til að persónugera illskuna sem leið til að komast hjá ábyrgð.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.