Jesús kallar lærisveina sína til að breiða út fagnaðarerindið. Hann gengur út frá því við lærisveina sína að ef Guð er ekki miðlægur í fagnaðarerindinu sé það marklaust, gagnslaust. Sá sem boðar fagnaðarerindið án Guðs, visnar upp og verður eldinum að bráð. Sumir vilja túlka þetta sem helvítishótun. Það er oftúlkun, byggir á þörfinni til að aðgreina, til að senda þá sem eru öðruvísi til andskotans.
Þvert á móti er hugmyndin sú að við erum kölluð til að fórna okkur fyrir aðra, verkefni okkar er að þjóna en ekki vera þjónað. Ef við föllum í þá gryfju að láta stöðugt þjóna okkur og látum okkur í engu um aðra varða, þá visnum við upp, þá glötum við getunni til að vera mennsk.
Vitneskjan um að við séum kölluð til þjónustu hvert við annað, dæmir okkur. Það er aðeins ef við deyfum samvisku okkar, drögum úr mennsku okkar, að við getum lifað í sjálfhverfunni. Dómurinn felst þannig í okkar eigin vanlíðan, okkar eigin skorti á mennsku þegar við leitumst við að hunsa köllun okkar til þjónustu.