1. Mósebók 6. kafli

Það er erfitt að fullyrða um gamla texta, en þegar ég les fyrsta hlutann hér í 6. kafla velti ég fyrir mér, hvort hér sé um einhvers konar tilraun skrifara til að tengja ýmsar guðshugmyndir fornaldar inn í heildarmynd YHWH, þannig séu vísanir í glæsilega guðasyni og risa hugsanlega tilvísanir til goðsagna Grikkja. Þannig séu þessi vers einhvers konar “spin” á handriti kvikmyndarinnar Thor sem er væntanleg í kvikmyndahús nú í sumar. Nú veit ég ekki, en minnir að það hafi verið einhverjar aðrar skýringar nærtækari þegar ég stúderaði textann. En hvað um það.

Í annað sinn í 6. köflum kynnumst við reiði/réttlæti Guðs. Samkvæmt textanum hafa mennirnir aðhafst illt í augum Guðs og hann leggur á ráðin um að útrýma sköpun sinni. Nema hann Nói.

Sagan um Nóa kemur fyrir að hluta til tvívegis í næstu köflum 1. Mósebókar og virðist sagan hafa varðveist í munnlegri geymd hjá Ísraelsþjóðinni í tveimur mismunandi útgáfum, sem eru þá einfaldlega báðar birtar. Hugsanlegt er reyndar að önnur sagan sé skrifuð sem viðbrögð við hinni, enda er guðsmynd frásagnanna tveggja ólík, alla vega ef eitthvað er að marka verkefni sem ég gerði fyrir Gamla testamentisfræðikúrs hér í BNA.

Sagan um Nóa er ekki upprunaleg saga Ísraelsþjóðar, hún er til í margvíslegum myndum, þeirra þekktust er sjálfsagt flóðfrásögn Gilgamesh sem er hluti af elsta varðveittu frásögnum heimsins. Flóðið kemur og eyðir öllu, eða öllu heldur, næstum öllu. Af hverju?

Þessi spurning er sístæð og í frásögninni um Nóa eins og hún birtist í 6. kaflanum, sjáum við hryggan Guð (YHWH) sem sér ekki annarra úrkosta völ en að byrja upp á nýtt. Textinn er úr J-hefðinni, fjallar um Guð sem er nærri, þann Guð sem gekk í kvöldsvalanum í aldingarðinum. Guð sem finnur til með sköpun sinni. Textinn gengur út frá skýru orsakasamhengi, sem bindur hendur Guðs, blessar góða og bölvar þeim illu. Textinn gengur einnig út frá því að lífið haldi áfram þó hörmungar dynji yfir. Það má halda því fram að Jesús gagnrýni þessar hugmyndir um orsakasamhengi m.a. í 9. kafla Jóhannesarguðspjalls.

En ef þetta er “léleg” guðfræði, af hverju er þetta þá birt í Biblíunni kynni einhver að spyrja. Svarið er margþætt. Að mínu viti er mikilvægt að hafa í huga að “léleg” guðfræði, endurspeglar upplifun mannkyns af Guði alveg eins og “góð” guðfræði. Það á ekki síst við þegar við erum föst í aðstæðum sem við ráðum ekki við, fáum vart skilið.

Mig langar að bæta við einu. Sagan um Nóa er nefnilega til í margvíslegum myndum. Hún birtist í tveimur útgáfum í Biblíunni, hún á uppruna sinn í eldri helgisögnum, hugsanlega Gilgamesh kviðu, en hún er líka til í nútímaútgáfu Barnabiblíunnar, þar sem hún lýsir fyrst og fremst mikilvægi þess að vera góður, stilltur og hlýða yfirvöldum. Það er nefnilega þannig að öll höfum við tilhneigingu til að lesa inn í sögur það sem við viljum koma á framfæri.

Það á sjálfsagt líka við um bloggið hér. 🙂

2 thoughts on “1. Mósebók 6. kafli”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.