Embættisgengi enn á ný

Á nokkurra ára fresti velti ég fyrir mér hvað mig vantar upp á til að hljóta embættisgengi til prests í íslensku þjóðkirkjunni. Lagagreinin um skilyrði til embættisgengis hljóðar svona:

Embættispróf frá guðfræðideild Háskóla Íslands eða frá viðurkenndri guðfræðideild eða guðfræðiskóla og skal biskup um hið síðarnefnda atriði leita umsagnar guðfræðideildar Háskóla Íslands.

Þetta gæti reyndar bent til þess að aðeins nám sem er skilgreint sem embættisnám sé viðurkennt. Því sé MA eða jafnvel Ph.D.-gráða ekki fullnægjandi þrátt fyrir að öll sömu námskeið séu tekin og í Cand. Theol. eða Mag.Theol. við HÍ. Hér þarf þó að hafa í huga að merking embættisprófs frá guðfræðideild Háskóla Íslands virðist fremur óljós (alla vega á vefsíðu deildarinnar) í kjölfar breytinganna úr Cand. Theol. í Mag. Theol.

Ef skilningurinn er ekki svona þröngur (þ.e. að námið þurfi að kallast embættispróf) þá væri hægt að hugsa sér að viðmiðið sé nám sem inniheldur sömu eða svipuð námskeið og guðfræðideild HÍ gerir kröfu um í Mag.Theol. náminu. Ég gróf því upp gamla innihaldslýsingu á Cand. Theol. náminu (þar sem innihaldslýsing Mag. Theol. liggur ekki enn fyrir) og fór í smá talnaleikfimi með einingar.*

Gamlatestamentisfræði (10e kjarni, 10e hebreska, 28e framhaldsnámskeið, alls 48e)

  • Ég hef lokið kjarnanum í HÍ
  • Ég hef tekið tvo OT/HS kúrsa í TLS, alls um 16,4 einingar.
  • Ég á eftir að taka Hebresku 10 einingar
  • Ég á eftir 11-12 einingar í GT-ritskýringu

Nýjatestamentisfræði (6e kjarni, 20e gríska, 40e framhaldsnámskeið, alls 66e)

  • Ég hef lokið kjarnanum í HÍ
  • Ég hef tekið 8 eininga “val”kúrs í HÍ
  • Ég hef tekið 21,4 einingar í NT í TLS.
  • Ég á eftir 20 einingar í grísku
  • Ég á eftir 11 einingar í NT-ritskýringu

Önnur fræðasvið guðfræðinnar

  • Ég hef tekið mun fleiri einingar í Trúfræði en gert er ráð fyrir.
  • Ég hef tekið mun fleiri einingar í Siðfræði en gert er ráð fyrir.
  • Sérsvið mitt er á sviði Kennimannlegrar guðfræði þar sem ég hef tekið mun fleiri námskeið en kallað var eftir í Cand.Theol.náminu. Reyndar hef ég ekki tekið námskeið í söng, né flutt lokaprédikun.
  • Þá hef ég tekið fleiri námskeið í Almennum trúarbragðafræðum en kallað er eftir.
  • Ég hef örugglega tekið nóg af kirkjusögu einingum.
  • Kjörsvið og frjálst nám upp á 48 einingar gæti ég mætt með ýmsum námskeiðum sem ég hef tekið umfram kröfur í Cand.Theol.-náminu ýmist í HÍ eða TLS.
  • Þegar allt er tekið saman þá hef ég lokið rétt um 7 ára háskólanámi í guðfræði, 3 árum í grunnnámi og 3,5-4 árum í framhaldsnámi. Þannig hef ég lokið miklu mun fleiri einingum en krafa er gerð um í embættisprófi.

Niðurstaðan er því sú að ef krafan snýst um guðfræðipróf, en ekki embættispróf en að jafnframt að sá skilningur sé til staðar að uppbygging Cand. Theol. námsins í HÍ sé óbrigðul þegar kemur að menntun presta, þá skortir mig hebresku og grísku, auk 11 eininga í ritskýringu NT og 11-12 eininga í ritskýringu GT. Alls um 53 einingar.

Með öðrum orðum, ef ég hefði áhuga á að verða prestur þá þyrfti ég að fara að lesa í Biblíunni minni. Ekki veitir af.:-)

Ef hins vegar skilyrðin eru öðru fremur bundin við yfirgripsmikla guðfræðiþekkingu, sér í lagi á sviði trúfræði þá er ekkert vandamál til staðar.

Annað skilyrði fyrir vígslu sem prestur er þetta hér:

Áður en kandídat hlýtur vígslu skal hann hafa starfað með sóknarpresti eigi skemur en fjóra mánuði undir eftirliti prófasts. Um framkvæmd og eftirlit þessa skal nánar kveðið á um í reglugerð.

Hér hlýt ég að spyrja mig hvort störf mín sem djákni komi að einhverju leiti til móts við þetta skilyrði.

* Meðan ég var við nám við Trinity Lutheran Seminary, var annakerfi skólans breytt úr fjórðungum í semester. Til að fá út hversu margar einingar ég tók í einstökum fræðum við Trinity hef ég farið þá leið að miða við að ein fjórðungs eining jafngildi 1,6 Evrópueiningum og ein semester eining jafngildi þá 2,5 Evrópueiningu. Þetta byggi ég á því að 36 fjórðungseiningar töldust fullt námsár, meðan 24 semester einingar teljast fullt námsár í nýja kerfinu.

** Rétt er að taka fram að gefnu tilefni að þessi færsla er ekki skrifuð vegna greinar á mbl.is 29. janúar 2011.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.