Tættir þankar um fermingarfræðslu

Reglulega velti ég fyrir mér hvernig hægt er að nálgast fermingarfræðsluna í íslensku þjóðkirkjunni. Verkefnið er flókið, þar sem fermingarhefðin og foreldrakrafan um að “allir” unglingar fermist kallast á við áhuga kirkjunnar á að fá unglingana til að taka meðvitaða og upplýsta ákvörðun um ferminguna sína.

Ég hef í gegnum tíðina tekið þátt í að kenna og/eða skrifa margvíslegar samverustundir fyrir unglinga í fermingarfræðslu og ein spurningin sem ég glími alltaf við, er hvort miða eigi kennsluna við þá unglinga sem eru í raun að glíma við efnið, eða hvort markmiðið sé fyrst og fremst að sjá til þess að þau sem áhugalaus eru, missi ekki allan áhuga á kirkjunni.

Annað sem er um margt flókið er glíman við guðfræði fermingarinnar. Guðfræðilegar forsendur hafa verið ýmsar. Villukenningin um að verða verðug til að ganga til altaris er sterk enn í dag á Íslandi. Guðbrandur biskup í kringum 1596, talaði um að verða þegn í ríki Krists í því sambandi og eins er sterk píetíska hugmyndin um staðfestingu skírnarinnar, eða persónulega afstöðu til Krists sem var til staðar í málflutningi Harboe á Íslandi í kringum 1741 og hefur verið til staðar alla tíð síðan. Báðar þessar leiðir eru í raun ófærar skv. lútherskri guðfræði, og það skilur okkur eftir með spurninguna hvernig fermingin geti haft guðfræðilega merkingu án þess að sú merking komi niður á skírnarskilningi kirkjunnar eða komi í veg fyrir aðgang allra að kvöldmáltíðarsakramentinu.

Þriðji vandinn er tengdur fyrsta vandamálinu. Er yfirleitt hægt að hafa samskonar fermingarfræðslu fyrir unglinga sem taka þegar þátt í kirkjustarfi og kunna Faðir vorið, og fyrir þau sem hafa aldrei í kirkju komið og hafa e.t.v. aldrei kynnst bænalífi?

Lútherska kirkjan víða hefur reynt að bregðast við þessum spurningum með því að afnema ferminguna, t.d. á Íslandi milli 1550-1596, og í fjölmörgum söfnuðum í BNA á 19. öld, en allt kemur fyrir ekki. Mikilvægi rituals á aldurskeiðinu 13-15 ára virðist vera sterkara en guðfræðilegar forsendur gegn slíku rituali.

Hugmyndir hafa komið fram um að nýta einfaldlega þessar aðstæður sem eru til staðar til að hjálpa unglingunum að fá jákvæða mynd af kirkjunum og prestunum, þannig að unglingarnir fái fullvissu um að kirkjan sé til staðar ef þau þurfi á henni að halda. Þannig sé fermingarfræðslan fyrst og fremst kynning á mögulegri framtíðarþjónustu stofnunarinnar.

Hluti af þessum þönkum mínum hefur kallað fram hugmyndir um hvernig má nálgast fermingarfræðslu á forsendum unglinga án þess að slá af trúarlegum áherslum fræðslunnar. Hér á eftir eru nokkrar hugmyndir sem ég hef og þarfnast frekari útfærslu.

  • Við eigum að byrja fermingarfræðsluna á trúarjátningu unglingana. Hverju trúa þau, hvers vegna og hvaða áhrif hefur það á líf þeirra? Ég trúi þessu – vegna þess – þannig að -. Hvernig rímar trú þeirra við trúarjátningar evangelísk lúthersku kirkjunnar.
  • Við þurfum að opna umræðu með unglingum um hver munurinn er á sannleika í frásögn og sannleika í raunvísindum. Ef sá munur er til staðar.
  • Við eigum að vera óhrædd við að láta unglingana lesa Guðspjöll, skrifa stuttlega hjá sér hvað þau skilja, hvað skiptir máli, hvað er undarlegt eða asnalegt og hvort textinn hafi einhverja samsvörun í þeirra lífi. Unglingar á fermingaraldri ráða við að lesa texta og greina hann á margvíslegum forsendum.
  • Við eigum að skipuleggja samverur með smáum fermingarhópum, 6-8 unglingum, sem ræða saman um guðspjallstextann sem þau hafa lesið.
  • Þegar unnið er með sjálfsmynd unglinga og hugmyndir um lífið er auðvelt að notast við “high and low” vikunnar. Hvað hefur áhrif á líðan okkar?
  • Við eigum að gera kröfu um að fermingarbörn hlusti á prédikanir þegar þau koma í guðsþjónustu og skrái hjá sér viðbrögð og athugasemdir. Prestar þurfa að vera tilbúnir til að taka þátt í slíkri gagnrýnni samræðu um orðið sem þeir boða.
  • Við þurfum að hjálpa unglingum að velta upp spurningum um köllun í lífinu, hvað það merkir að vera sköpun Guðs sem hefur fyrirætlanir í hyggju með okkur? (Jer 29.11)
  • Þegar líður á fermingarfræðsluna er mikilvægt að láta unglingana vinna með Biblíutexta. Góð leið til þess að fara í samanburð á guðspjöllum, lesa sömu frásögn í mismunandi guðspjöllum og velta fyrir sér muninum. Horfa á “Nativity Story” og velta upp spurningum hver sé munurinn á sögunni í samanburðarguðspjöllunum og í myndinni. Breytir munurinn einhverju um inntakið. Það mætti nota aðrar bækur og myndir í þessu samhengi t.d. Harry Potter. Verkefni í þessum dúr er aukaefni við kennslustund um Biblíuna á fermingarnámskeiðum í Vatnaskógi.

One thought on “Tættir þankar um fermingarfræðslu”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.