Fyrir nokkrum árum endaði ég fyrir tilviljun á aðalsafnaðarfundi í lútherskri kirkju. Fyrir fundinum lá að samþykkja eða synja hugmynd um að leyfa félagasamtökum í bænum að nýta lítinn skikka af kirkjulóðinni fyrir ákveðið verkefni. Enginn á fundinum var í sjálfu sér mótfallinn verkefninu, en margskonar áhyggjur voru viðraðar.
Það var sérstakt að sjá hvernig presturinn tókst á við áhyggjurnar. Í stað þess að hafna þeim sem óþörfum (sem þær vissulega voru) gekk hann að manneskjunni á fundinum sem var háværust og settist hjá henni. Þar fóru þau í rólegheitunum yfir hvað væri að varast og settu fyrirvara inn í samþykktina til að mæta hugsanlegum vandamálum. Með því að virkja háværustu rödd gagnrýnendanna til að endurskrifa samþykktina, tókst prestinum að útbúa samþykkt sem allir greiddu atkvæði með og það sem meira var, prestinum tókst að gera sterkustu gagnrýnisraddirnar að virkum þátttakendum í framkvæmdinni.