Að gleðjast með skaparanum

Mig langar að lesa úr Litla Prinsinum eftir Antoine De Saint-Exupéry

– Stjörnurnar eru ekki eins fyrir alla. Fyrir suma sem ferðast eru stjörnurnar leiðarljós. Fyrir aðra eru þær ekkert nema smáljós. Fyrir aðra sem eru lærðir eru þær viðfangsefni. Fyrir kaupsýslumanninn minn voru þær gull. En allar þessar stjörnur eru þöglar. Fyrir þig verða stjörnurnar öðruvísi en fyrir alla aðra…
– Hvað áttu við?
– Úr því að ég á heima á einni þeirra, og úr því að ég hlæ á einni þeirra, þá verður það fyrir þig eins og allar stjörnurnar hlæi þegar þú horfir á himininn á kvöldin. Þú átt þér stjörnur sem kunna að hlæja!
Og hann hló enn.
Og þegar þú lætur huggast (maður lætur alltaf huggast) þykir þér vænt um að hafa kynnst mér. Þú verður alltaf vinur minn. Þig mun langa til að hlæja með mér. Og stundum opnarðu gluggann, svona til gamans … Og vinir þínir undrast að sjá þig hlæja er þú horfir á himininn. Þá segirðu við þá: “Já, stjörnurnar, þær koma mér alltaf til að hlæja!” Og þeir halda að þú sért ruglaður. …

Sköpunartextinn í 1. kafla 1. Mósebókar Biblíunnar. Er einn af fjölmörgum en um leið ólíkum textum Biblíunnar sem segja okkur að Guð sé höfundur heimsins. Fullyrðing sem er stórkostlega einföld og tær, en um leið uppfull af erfiðum vangaveltum.

En sköpunartextar Biblíunnar eru ekki fyrst og fremst fræðilegt úrlausnarefni. Einstakir þættir textanna, þankar um tilvist illskunar og vangaveltur um ábyrgð mannsins, eru vissulega áhugaverðir til skoðunar og umræðu en fullyrðingin um skapara er ekki lögð fram til sönnunar eða afsönnunar. Hún er sett fram sem frumsenda.

En hvað er frumsenda?

Ég notaði tvo mánuði ævi minnar í að stúdera stærðfræði við Háskóla Íslands og lærði þar að allt sem við gerum byggir á frumsendum sem við einfaldlega gefum okkur, eða reyndar einhver annar gefur okkur. Það merkilega við þessar frumsendur er að þær fást ekki sannaðar eða afsannaðar. Það eina sem gildir um þær er að annað hvort hjálpa þær okkur að takast við verkefni lífsins eða ekki.

Þannig getur afstaðan til þess hvort Guð skapaði heiminn, ekki byggst á eðlisfræðirannsóknum eða steingervingafræðum – einfaldlega vegna þess að ef Guð sem skapar er til – þá er hann ekki háður þessum fræðigreinum.

Þessar frumsendur kristinnar trúar eru þrjár,

  1. Guð faðir – skapari,
  2. Jesús Kristur – frelsari
  3. heilagur andi – huggari

eins og við játum í Trúarjátningunni.

Það að samþykkja áður nefndar frumsendur kallar okkur til aðgerða. Okkur er ætlað að fara vel með sköpunarverkið, gera góða hluti. Eða með orðum Guðspjallsins: „Ljós okkar á að lýsa meðal mannanna, að þeir sjái góð verk okkar.“

Ef við gefum okkur að góður Guð sem elskar okkur, hafi skapað þessa jörð sem við lifum á, þá hljótum við að bregðast við því með því að fara vel með sköpun hans. Ef við vitum að góður Guð hefur gefið okkur lífið þá hljótum við að leita eftir að fara vel með það. Ef við svo höfum í huga að líf annarra er einnig sprotið frá góðum Guði, þá verðum við að leitast við að gera líf annarra betra. Afstaða okkar til Guðs sem skapara kallar okkur þannig til að gera öðrum gott. Segir okkur að gleðjast yfir lífi og verkum annarra. Þrátt fyrir að við skiljum ekki allt til fulls, vitum ekki svörin við öllum gátum, megum við hvíla í trausti til hans sem skóp allt. Gleðjast yfir því að hann hefur öll svörin í hendi sinni. Síðast en ekki síst megum við gleðjast yfir sköpuninni, svo við yfirfærum orðin úr Litla Prinsinum yfir á sköpunarverkið.

– Sköpunin er ekki eins fyrir alla. Fyrir suma er sköpunin flókin, full af ævintýrum. Fyrir aðra líður sköpunarverkið hjá óséð. Fyrir aðra sem eru lærðir er hún viðfangsefni. Fyrir viðskiptajöfurinn er hún tekjutækifæri. En öll þessi sköpun er einstök og ómetanleg í augum Guðs. Fyrir þig verður sköpunin öðruvísi en fyrir alla aðra…

– Hvað áttu við?

– Úr því að Guð er skapari alls og elskar þig, og úr því að hann hlær og gleðst yfir sköpun sinni. Þá verður það fyrir þig eins og að öll sköpunin hlæi þegar þú horfir í kringum þig.

Og þegar þú lætur huggast (maður lætur alltaf huggast) þykir þér vænt um að hafa kynnst skaparanum. Hann verður alltaf vinur þinn. Þig mun langa til að hlæja með honum. Og stundum opnarðu gluggann, svona til gamans … Og vinir þínir undrast að sjá þig hlæja er þú horfir á sköpunarverkið. Þá segirðu við þá: “Já, sköpun Guðs, hún kemur mér alltaf til að hlæja!” Og þeir ef til vill halda að þú sért ruglaður. …

(Upphaflega flutt á Sæludögum í Vatnaskógi 2006)

One thought on “Að gleðjast með skaparanum”

  1. Það merkilega við þessar frumsendur er að þær fást ekki sannaðar eða afsannaðar. Það eina sem gildir um þær er að annað hvort hjálpa þær okkur að takast við verkefni lífsins eða ekki.

    Mér finnst þetta hljóma eins og “taktík” sem ég hef stundum heyrt hjá frjálslyndum trúmönnum. Þeir virðast ákveða eiginleika guðs á grundvelli hversu gagnlegir þeir myndu verða í guðlausum heimi. Þeas guð kemur ekki inn í myndina þegar við ákveðum hvað er gott og slæmt, heldur ákveðum við það fyrst, og síðan reynum við að finna einhvern guð sem passar við það.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.