Mennskan

Ég keypti mér um daginn Bowie, This is not America, á iTunes. Það er nefnilega einstaklega skemmtilega ögrandi og undarlegt að hafa lagið í eyrunum þegar keyrt er eftir hraðbrautunum sem skera í sundur miðbæinn hér í Columbus. Því það er sannarlega Ameríka. En Ameríka er meira en hraðbrautir, við fjölskyldan höfum tvívegis mætt á hafnaboltaleik og það er svo sannarlega Ameríka. Þjóðsöngurinn í upphafi, unglingarnir sem hafa nýskráð sig í herinn að fara með eið um að lúta forsetanum frammi fyrir áheyrendum og pallbílarnir á bílastæðinu.

En Ameríka er víðar, í gær fór ég með börnin á Ohio State Fair. Mér var hugsað til mannsins sem sagði enga þörf að fara til útlanda það væri miklu skemmtilegra á hrútasýningum þar sem við gengum um fjárhúsið í miðbæ Columbus og skoðuðum rollur, með langa skanka og sumar í skikkjum til að verjast hitanum. Sigurhrútur ársins í Ohio bar sig vel, vel hyrndur og glæsilegur með bláan sigurborða yfir básnum sínum, þó ég hafi ekki mikla trú á að hann hefði enst lengi í fjöllunum á Íslandi. Við kíktum líka í hesthúsið þar sem Anna Laufey sá þá stærstu hesta sem hún hafði nokkru sinni séð, annað en litlu kubbana sem við Íslendingar köllum hesta. Við fengum okkur ís í fjósinu og gengum í gegnum innanhús sölusvæði sem minnti á Kolaportið. Við reyndar fórum ekki á tónleika á Fair-inu, þar sem nýjasta unglingastjarna Disney (sem dóttur minni finnst æði), Weird-Al Yankovic, aðalkántrístjörnurnar og stórböndin Slayer og Quit Riot (Common Feel the Noise) fá hver sitt kvöldið.

Á leið okkar á skemmtitækjasvæðið sem minnti á tívolíið við Smáralind á sterum, var tjaldið sem breytti sýn minni á “fair”-ið. Utan á tjaldinu voru myndir af fólki í dýragervum og yfir innganginum stóð “Wonders of the World”. Framan við tjaldið stóðu síðan manneskjur í skrautlegum fötum á sviði og hvöttu fólk til að fara inn á sjá fólk sem væri fætt án handa, dverga og aðra skrítnar manneskjur. Þetta væri tækifæri til að sjá hvers kyns undarlegar fatlanir fyrir aðeins $3 miðann fyrir fullorðna og $2 fyrir börn eldri en 5 ára. Mér fannst sem að ég hefði hrapað til baka um 50 ár. Ég sá fyrir mér Jóhann risa úr Svarfaðardalnum, falinn inn í húsbíl fram að sýningu svo engin sæi undrið án þess að borga gjaldið.

Reyndar fór ég með börnin og við sáum “show” með tígrisdýrum sem eftir 50 ár, gæti vakið svipuð viðbrögð og viðundrasýningin, en ég velti fyrir mér mennskunni. Er það svo að kennismiðir eins og Dwight N. Hopkins hafi rétt fyrir sér þegar þeir fullyrða að eina mennskan í kapítalísku samfélagi sé mælanleg í dollurum?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.