Við lestur greinar um Hillsong-kirkjuna í Sydney, Ástralíu hef ég lært tvö orðasambönd sem eru notuð í stórkirkjuheiminum (mega church). Ég ákvað að færa þau hér til annáls.
Seeker sensitive: Á uppruna sinn í Willow Creek’s, eða er alla vega tengt með skýrum hætti við Bill Hybels. Orðasambandið lýsir uppbyggingu sem felst í aðgengilegum guðsþjónustum með boðskap sem allir geta tekið undir. Eftir þátttöku í nokkurn tíma er fólki síðan beint í heimahópa, smærri grúpur þar sem raunveruleg boðun viðkomandi kirkju er kynnt.
50 per cent turnover every five years: Í greininni er fullyrt að í Hillsong endist 50% af söfnuðinum ekki nema í 5 ár sem þátttakendur. Fjárhagskröfur og boðunin valdi því að stór hluti þeirra sem mæta í söfnuðinn láti sig hverfa á innan við 5 árum. Þessi staðreynd er talinn eðlileg og vísað til þess að þetta fólk sé ekki tilbúið að taka Krist alvarlega. Þetta “turnover” gerir hins vegar gífurlegar kröfur til safnaðarins um að vera í stöðugu “outreach” til að finna fólk í stað þeirra sem hverfa.
Það sem vakti athygli mína einnig, er að í greinum sem ég las má sjá Rick Warren og Purpose Driven Church nefnd. Ekki reyndar í beinum tengslum við þessi hugtök en samt má greina að kirkjur sem notast við þessar hugmyndir leita einnig í smiðju Warren.
Athyglisverð finnst mér innanhússskýringin á 50% safnaðarveltunni: að fólk taki Krist ekki alvarlega. Kristur er semsagt bara boðaður þarna en ekki annars staðar svo eina ástæðan fyrir því að fólk finnur ekki Krist í Hillsong er að það hafði ekki augu til að sjá. Krist er semsagt bara hægt að taka alvarlega í kirkju, hjálpræðið er aðeins innan kirkjunnar – þessarar kirkju.
Veit annars ekkert um þessa tilteknu kirkju þó ég hafi nokkrum sinnum heyrt hana nefnda með blik í augum.
Það er ekki víst að það sem fram komi í greininni sé endilega opinber skilningur kirkjunnar.
Æi, þetta er svo sorglegt. Ef þið mynduð virkilega taka guðspjöllunum alvarlega er ég viss um að 50% væri mjög góð niðurstaða. Að minnsta kosti held ég að hann væri ekki ánægður með hálaunamennina. Jesús myndi örugglega byrja á því að reka þá hræsnara.
Kannski Jesús hefði frekar hvatt þá til að láta vel af hendi rakna til bágstaddra, til kirkjunnar og síðan að boða sig út um allt.
Ég skil þreytuna yfir 50% turnover þannig að greitt streymi í gegnum kirkjuna hindrar ákveðin heimilislegheit. En það er kannski ekki hægt að ætlast til af megakirkju, að hún sé heimilisleg.