Þá er það frá

Fyrir þremur tímum sendi ég tölvupóst til kennarans míns í námskeiði um Trúarbrögð hjá Theological Consortium of Greater Columbus en námskeiðið er kennt í Guðfræðiskóla katólsku kirkjunnar hér í Mið-Ohio. Verkefnið er veigamesta ritgerðin sem ég hef skrifað hér úti og fjallar um stöðu múslima í Vestur Evrópu í ljósi félagsvíddar Ninian Smart og guðfræðilegt mat á því hvernig kirkjan eigi að bregðast við innflytjendum úr hópi múslima og óskum þeirra um viðurkenningu.
Í morgun fékk ég í tölvupósti alvarlegar athugasemdir vegna orðalags og uppbyggingar ritgerðarinnar frá skrifráðgjafanum í Trinity, en ég fékk hana til að lesa yfir áður en ég skilaði. Ég notaði því hátt í 5 klst í dag í enduruppbyggingu, leiðréttingar á málfari og til að skrifa upp guðfræðilega matið.
Það verður að segjast að lesturinn og rannsóknin var mun auðveldari en skrifin sjálf, en nú er bara að bíða og vona hið besta.

4 thoughts on “Þá er það frá”

  1. Það getur verið snúið að skrifa ritgerð á móðurmálinu, að ekki sé nú talað um annað eða þriðja mál. Best er að koma sér upp vini, sem skrifar góðan texta í viðkomandi máli og láta þann vin lesa allt sem maður kastar á blað. Reynsla mín er sú að skrif manns taka breytingum eftir tvö til fjögur svoleiðis skipti, fer náttúrlega eftir magni og eðli skrifanna.

  2. Skólinn er með ráðgjafa sem ég hef leitað til í svona tilfellum, og ég er að skrifa 1-2 styttri pappíra í næstum hverri viku og reyndar lengri öðru hvoru.
    Stærsti vandinn hér var að ég las heimildir á 5 tungumálum, af mismunandi gerð, guðfræðilegar úttektir, félagsfræðitexta, blaðaviðtöl, lagatexta, vitnisburði frá trúskiptingum og svo mætti lengi telja. Að steypa þessu í heilsteypt verk á tungumáli sem er ekki manns eigið var mun flóknara en ég hélt. Annars verður áhugavert að sjá hvernig kennarinn tekur á verkefninu mínu, en hitt er ljóst að ég veit meira um Islam í Evrópu núna, en ég vissi áður.

  3. Fimm tungumál? Það er ekki smá! Gaman að geta sagt frá þessu, ekki satt? Mér fannst ekkert auðvelt að byrja að skrifa á þýsku á sínum tíma og fyrsta árið fór í það að uppræta Kansellístílnum. Ég hafði það ögn betra en þú, las þrjú til fjögur tungumál.

  4. Þetta er eitt af því sem hljómar vel, sérstaklega þar sem tungumál eru ekki mín sterka hlið. En hins vegar er þarna um að ræða fremur lítið sérhæfða texta (fréttavefir) á norsku og sænsku, ásamt greinarskrifum á íslensku, dönsku og ensku. Ég er ekki viss um að ég myndi treysta mér í þýskuna fyrir svona skrif, þannig að ég þurfti að treysta á þýðingar þegar kom að Þjóðverjum. En það er rétt, þetta hljómar flott.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.