Það þarf ekki að rýna lengi í síðustu kannanir fyrir kosningarnar á þriðjudaginn hér í OHIO til að sjá að Bandaríkjamönnum er nóg boðið. Ríkið sem færði Bush forsetaembættið 2004, virðist hafa breytt um stefnu svo um munar. Þannig leiðir fulltrúi demókrata til Ríkisstjóra, kapphlaupið með 36% mun skv. nýjustu könnun Dispatch.
Öldungadeildarþingmaðurinn DeWine er að tapa sæti sínu með 24% mun og svo virðist að demókratar taki meira og minna öll embætti hér í mið-Ohio. Undantekningin er hugsanlega Pat Tiberi sem gæti haldið sæti sínu í “húsinu” í Washington, en hann er í framboði á móti Bob Shamansky. Shamansky þessi er milljónamæringur, fjármagnaði baráttu sína sjálfur, var á þingi fyrir tæpum 20 árum og býr hérna úti á Drexel Ave, alla vegana þar til eftir kosningar. En Tiberi hefur einmitt gagnrýnt Shamansky harðlega fyrir að halda heimili á þremur stöðum. Eitt heimili til að bjóða sig fram, annað heimili þar sem hann er skráður kjósandi og þriðja heimilið þar sem hann borgar skatta. Það ætti að vera óþarfi að taka fram að Shamansky er ekki með skattalegt heimili sitt út á Drexel Ave, enda skattar í Bexley með þeim hærri í mið-Ohio.
Annars er Shamansky kallinn sjálfsagt fínn. Sonur hans spilar með mér fótbolta í Bexley Gold og þegar hann (þ.e. sonurinn) veifaði mér út um bílgluggann sinn um daginn þegar ég var að ganga heim úr skólanum, sá einn skólafélaginn ástæðu til að spyrja mig hvernig ég þekkti fólk í BNA sem keyrði um á uppgerðum Porsche 911, fornbíl.
Hvað aðra þætti varðar, þá virðist lítill stuðningur við að veita 9 einstaklingum einkaleyfi á skattfrjálsum spilavítum í Ohio, jafnvel þó 35% af hagnaðinum renni í skólagjaldasjóð. Hagnaður þessara 9 var talinn geta orðið allt að 1 milljarður USD á ári, enda hafa þeir félagar auglýst stíft hvað það væri gott fyrir alla að samþykkja einkaleyfið. Þá virðist sem tóbaksfyrirtækjunum mistakist að fá fram stjórnarskrábreytingu sem bannar bann við reykingum m.a. á veitingastöðum, keilusölum og veðhlaupabrautum. Hins vegar virðist Krabbameinsfélaginu takast að fá fram lög um bann á sömu stöðum. Annars er tillaga tóbaksfyrirtækjanna (SmokeLessOhio) með svo miklum ólíkindum að myndin Thank You for Smoking fær algjörlega nýja merkingu í huga mínum. En ég hyggst ekki eyða tíma í það að sinni.
Segja má að þessi þrjú mál sem ég nefni, fylgi flokkslínum, alla vega að mestu leiti. Frelsi til að fara í spilavíti og um leið bölva þeim í kirkju, frelsi til reykinga og bann við bönnum hins opinbera og síðast en ekki síst höfnun á veraldlegum bönnum, eru allt mál sem á góðum degi myndu hljóta gott gengi hjá hægri mönnum. En nú er ekki sá tími og því fer sem fer, vinstri slagsíðan virðist alsráðandi þetta árið í Ameríku.
Ég hef fylgst svolítið með kosningunum gegnum sjónvarpið (BBC, CNN og fl.) en ég verð að segja að þessi grein þín er mun áhugaverðari en það sem ég hef séð hingað til. Takk fyrir hana Elli.
Sammála Þorkatli, fín grein. Sparar margra tíma áhorf á CNN. Hey, flottur í fótboltanum, ævinlega.