Áhugavert innlegg og nokkur ekki

Svanur Sigurbjörnsson skrifar ágæta umfjöllun um Vinaleiðina á Vantrú.is þar sem hann einangrar umræðuna við spurninguna hvort trúarlegt starf eigi heima í grunnskólum. Þar sem ég persónulega tel mjög mikilvægt að þessi umræða eigi sér stað (bý í BNA), þá hrósaði ég honum fyrir að losa umræðuna undan trúboðsdeilum og fullyrðingum um almennt vanhæfi presta og djákna. Það verður hins vegar að segjast að viðbrögð sumra ummælamanna Vantrúar hafi komið óþægilega á óvart.

  • Jón Magnús mætti og kallaði mig siðlausan og talaði um að ég væri blindur, enda væri trúarblindan merkileg blinda.
  • G2 sagði mig hafa búið of lengi í BNA, þetta væri trúboð.
  • Jogus talaði um að kirkjan þröngvaði sér inn í leik-/barnaskóla. Hann talaði um að kirkjan níddi margar fjölskyldur. Kirkjunnar fólk væri sjálfskipaðir siðapostular og litum á þá sem stæðu fyrir utan sem Collateral damage.
  • Jón Magnús hélt áfram og talaði um barnastarf kirkjunnar sem viðbjóðslegt. Hann sagði kirkjuna brjóta mannréttindi og ég þyrfti að éta orð mín ofan í mig. Hann fullyrti að ég og þjóðkirkjan gerðum ráð fyrir að öll börn væru skírð og hótaði mannréttindadómstól Evrópu.
  • Árni Árnason mætti á svæðið talaði um orðasmíð og málalengingar, kallaði svör kirkjunnar á trú.is prump og kirkjunnar fólk krossberandi bábyljulið.
  • Þórður Ingvason hélt því fram að kirkjan færi í kringum lög og almenn mannréttindi.
  • Loks fullyrti Matti að kirkjan reyndi að fá fram samþykki fyrir Vinaleið á fölskum forsendum.

Þrátt fyrir þessa upptalningu er umræðan við þessa grein að mínu mati gagnleg og áhugaverð. Ef litið er framhjá hugmyndum um að kirkjan sé samansafn siðlausra, trúblindra, sjálfskipaðra siðapostula sem níði fjölskyldur, telji að Collateral Damage sé ásættanlegt í starfi sínu, stundi viðbjóðslegt barnastarf, brjóti mannréttindi og leiti leiða til að komast framhjá lögum í landinu, kirkjan ástundi orðasmíð og málalengingar, svör kirkjunnar séu prump og við séum óheiðarleg, fölsk og krossberandi bábyljulið.

Ef hægt er að gefa sér tíma til að lesa sig framhjá þessum fullyrðingum, þá er hægt að hafa gaman af samræðunum.

E.s. Annars er náttúrulega snilldin að í upphaflegu athugasemdinni tók ég undir málflutning skrifarans og hrósaði honum. En það kom ekki í veg fyrir ofangreind viðbrögð, ó nei.

16 thoughts on “Áhugavert innlegg og nokkur ekki”

  1. Halldór, þú notaðir nýtt orðasamband þ.e. “trúarlega gildishlaðin þjónusta” og það hratt umræðunni af stað ekki það að þú værir að hrósa Svani Sigurbjörnssyni, hrós sem Svanur á fyllilega skilið.

  2. Trúarlega gildishlaðin þjónusta? Er allt sem trúmaður gerir “trúarlega gildishlaðið” af því að trúmaðurinn trúir? Ef trúmaður ber á sér kross (eða hylur sig slæðu) er þá umhverfið í bráðahættu um að frelsast, verða auðtrúa og trúgjarnt? Elli, þú ættir að vita betur en að nota orð sem byrja á trú og enda á þjónusta inni á téðu vefsetri með öðrum formerkjum en þar tíðkast. Skamm. Allt þér að kenna, hvernig komið er fyrir þér 😉 Grínlaust, umræðan þarf að fara fram og kirkjan skuldar ljósar leiðarlýsingar hvað hún gerir og hvar og á hvaða forsendum.

  3. Já, Carlos allt sem trúmaðurinn gerir er trúarlega gildishlaðið. Hins vegar er munur á einstaklingsbundinni hleðslu sem seint er hægt að banna og kirkjulegri sendingu og kannski er það hugtakið… (sending – missio – trúboð) … Er kannski “missio” eina rétta hugtakið yfir þetta. Hjalti, Matti, UVG og öll hin hafa kannski eitthvað til síns máls. Nei, vonandi ekki, þá þarf ég að bakka. (hugljómun, byggð á tíma um missiology í gær). Alla vega kirkjan þarf að vita hvað hún gerir og hvers vegna, það er ljóst.

  4. Loks fullyrti Matti að kirkjan reyndi að fá fram samþykki fyrir Vinaleið á fölskum forsendum.

    Þetta finnst mér afar villandi og ósanngjörn samantekt á athugasemdum mínum.

  5. Rétt er að taka fram að þetta er EKKI samantekt á samræðunni í heild, heldur einvörðungu þeim þáttum sem að mínu mati stungu í stúf við annars góða samræðu. Þórður, Jogus, Matti og jafnvel Jón Magnús komu einnig með áhugaverð innlegg sem ekki eru listuð hér. Ég útiloka heldur ekki að einstakar skoðanir hafi rétt á sér úr þessari samantekt. Ég er einfaldlega að benda á að þetta orðaval og þessar staðhæfingar birtust í umræðunni.

  6. Missio og mission er vissulega samstofna, hið fyrra merkir að vera sendur hið síðara að reka erindi, sbr. mission statement – hvað við ætlum okkur. Eitt jólaleyfi var ég sendill … var s.s. sendur út í bæ með pappíra, kaupa dót o.fl. sem sendlar gerðu. Ekki trúboði, en vissulega fulltrúi fyrirtækisins. Eins og með önnur margþætt orð verður því að huga að innihaldinu áður en felldur er dómur um “the mission”. Og nú þegar þriðja myndin í röðinni “Mission impossible” kemur út á dvd ætti enginn að veltast í vafa um að þar fer eðlisólík mynd um myndbandaleigur en “The Mission” með Jeremy Irons og Robert DeNiro frá 1980. Og þótt kirkjan sendi út einstaklinga, embættismenn og jafnvel heilu stofnanirnar þá er ekki þar með sagt að hún geri það alltaf í þeim tilgangi að búa til nýtt trúfólk. Stundum eru menn hreinlega að því að þjónusta samfélagið. Sú þjónusta getur einungis átt sér stað þar sem kirkjunni er treyst. Vanti traustið er þjónustan sjálfhætt.

  7. Allt sem trúmaðurinn gerir er trúarlega gildishlaðið, segir Elli. Hvað áttu við? Má trúmaðurinn ekki birtast í ræktinni án þess að það sé trúarlega hlaðið? Þegar presturinn fer úr prestaskyrtunni, mætir á þorrablót og heldur hátíðarræðuna þar, er þá kirkja? Ef prestur, sálfræðingur og hjúkrunarfræðingur hitta börn á sal eftir dauðsfall í skólasamfélaginu, er þá trúboð? Eða má vera að um einföld og viðeigandi tjáskipti og upplýsingagjöf (líka kölluð áfallahjálp) er að ræða? Snúum þessu við. Ef trúlaus kennari hefur hljóða stund vegna andláts í bekknum, er það þá áróður? En ef umsjónarkennarinn er óvart presturinn á staðnum og hefur hljóða stund eins og hinn trúlausi, er það þá áróður?

  8. Til Carlosar:

    Þegar manneskja sem býður þjónustu sína í skóla er á vegum trúflokks er ekki hægt annað en að flokka þá þjónustu sem trúarlega, burt séð frá því hvert innihaldið er.

    Hér held ég að Svanur hitti naglann á höfuðið. Við þurfum að geta svarað þessu ef við lítum á Vinaleiðina sem færa. Við þurfum líka að skoða Vinaleiðina í tengslum við okkar “mission statement”, Stefnumótunarvinnuna og sjá hvernig hún rýmar þar. Þetta hefur því miður ekki verið gert.

  9. Halldór, ég get tekið undir ívitnuð orð Svans og hef þegar bent á leið til að jafna sviðið. Lausn mín er ekki sú að gerilsneyða skólann af trúarlegu starfi heldur að bjóða þeim trúfélögum og lífsviðhorfafélögum sem treysta sér að vinna á grundvelli og skv. forsendum skólans til starfs í skólanum. Í Þýskalandi er þetta gert, er kallað “Schulbezogene Kinder/Jugendarbeit. Þetta krefur þá aðila sem bjóða fram þjónustu sína að vinna á grunni mannréttinda, halda sér frá tilraunum til “proselýseringu” og starfa í anda samtals og samvinnu.

  10. Eitt enn, það er athyglisverð og réttmæt aths. Svans um að við verðum að gera greinarmun á rýmum trúfélaga og opinberu rými í þessari umræðu. Í opinberu rými verða trúfélögin og lífsskoðunarfélögin að vinna skv. almennum starfsháttum skóla, heilsdagsskóla, félagsmiðsstöðva. Hugmynd mín byggist á því að æskilegra sé að leyfia fjölbreytilegu samfélagi að vera sýnilegu frekar en að fela það á bak við luktar dyr trúfélaganna. Nálægðin skapar skilning og vonandi virðingu fyrir fjölbreytileika.

  11. “Þetta krefur þá aðila sem bjóða fram þjónustu sína að vinna á grunni mannréttinda, halda sér frá tilraunum til “proselýseringu” og starfa í anda samtals og samvinnu.” Það væri nú gaman ef maður tryði orði af þessum fögru fyrirheitum. Vandamál trúaðra í þessari umræðu held ég að sé fyrst og fremst það að þeir geta ekki sett sig í spor þeirra sem líta svo á að prestar, djáknar eða aðrir sem tala um Guð sem lausn eða hjálp í vandræðum séu að ljúga. Og það er ekki rétt svar við þessu að segja “já en við erum ekki að ljúga”.

  12. Það er ekki eins og ég dragi þessa hugmynd upp úr pípuhattinum, Björn Friðgeir. Ef þú gúglaðir stikkorðin “Schulbezogene Jugendarbeit” þá fengirðu upp nokkuð gott yfirlit yfir kirkjulegar og veraldlegar stofnanir sem bjóða fram krafta sína í skóla- og tómstundaumhverfi í Þýskalandi. Þar er, eins og hér þjóðkirkjufyrirkomulag en munur á Þýskalandi og Íslandi er sá að samfélagið er fjölbreytilegra en hér. Þar er sumstaðar talað um 50% hlutdeild kristni vs. 80% hér, auk þess sem samtalið trú vs. guðleysi hefur staðið lengur en hér. Vandamál vantrúaðra í þessari umræðu hér er að sama hvað trúaðir hafa lagt fram þá er það snúið á versta veg, sbr. ummælin um lýgina, sem hjálpa engri umræðu til sæmilegrar niðurstöðu. Eða eins og sagt var í öðru samhengi: Ertu hættur að berja konuna þína?

  13. Varðandi fyrirheitin, ef við höfum ekkert annað svar við fjölþjóðlegu samfélagi en að loka á trúar- og menningarleg sérkenni, þá verður ekki langt í slæðuvandamál hér eins og í Frakklandi og nú (af öllum stöðum!) í Bretlandi. Við getum siglt áfram í átt að átökum menningarheimana (S. Huntington). Þá tapa allir! Sérstaklega róttækir guðleysingar, sem eru í besta falli mjög lítill minnihluti í heimi þar sem 85% aðhyllast einhverskonar trú. Eða við gætum lært af sálfræðinni og hætt að bæla það niður að flestir trúa einhverju, og notum þá siðferðislegu orku sem er til staðar til að vinna saman, í stað þess að reyna að sannfæra hver annan um það hver sé handhafi réttrar trúar.

  14. Björn Friðgeir, ég er sammála þér um að vandamálið felst í vantrausti. Það merkir samt ekki að sú vanvirðing sem felst í orðanotkuninni sem ég bendi á hér að ofan sé eðlileg. Þó ég telji einhvern hafa rangt fyrir sér, merkir ekki að ég kalli hann lygara eða siðblindan. Það er nefnilega munur á því að vera ósammála einhverjum og halda því fram að sá sem er annarrar skoðunar sé óheiðarlegur.

  15. Á enga konu til að berja, því miður. Nú er ljóst að hér á landi er það eingöngu þjóðkirkjan sem hefði bolmagn til að halda uppi svona starfi í flestum skólum. Því er ekki að undra að meðlimir þjóðkirkjunnar styðji hana. Vandamál mitt varðandi Vinaleiðina er sú að jafnvel þó að starfsmenn hennar séu allir af vilja gerðir, þá verður alltaf um það að ræða að trú er sýnd sem lausn á vandamálum. Það finnst mér trúboð. Með því að loka á trúarleg sérkenni í skólum er öllum gert jafn hátt undir höfði. Trú er þá stunduð utan skóla. Það er ekki vandamál trúlausra að okkar lífssýn er að fullu grundvölluð á staðreyndum (nema þú heitir Snorri í Betel) og því þarf ekki að kenna okkur eða okkar börnum neitt aukalega í skóla til að innræta okkur trú á æðri máttarvöld. Þessi staðreynd sýnist mér að fari í taugar trúaðra. Rétt er að það að ‘lýgi’ er gildishlaðið. Mætti ég frekar segja ‘Það er ekki satt, þeir halda það bara”

Comments are closed.