Þökk fyrir samveruna, takk fyrir traustið

Það var blendin tilfinning sem fylgdi því fyrir nokkrum dögum að rífa sig frá fjölskyldunni til að vinna sem forstöðumaður í sumarbúðunum í Vatnaskógi. Það er nefnilega erfitt að byrja að vinna á ný eftir að hafa haft tækifæri til að vera heima með nýfæddum syni sínum í rúma sex mánuði. Um leið var spennandi að mæta í Vatnaskóg eftir nokkurra ára hlé. Á staðnum beið nýtt samstarfsfólk, nýir strákar, sömu sumarbúðir.

Reglulega heyrast hugleiðingar og birtast greinar um að heimur versnandi fari, spennan í þjóðfélaginu, þenslan og lífsgæðakapphlaupið sé að fara með fjölskyldulíf í gröfina. Börn séu óalandi og óferjandi, beri ekki virðingu fyrir neinu og erfiðleikarnir aukist sífellt í skólakerfinu. Í 6. flokki í Vatnaskógi 2006 hugsaði ég oft með mér, að heimsendaspámennirnir færu villur vegar. Klárir athugulir, hjálpsamir strákar sem gleymdu sér í leik og áttu auðvelt með að hlusta var það sem mætti mér í skóginum. Önnur orð sem lýsa drengjunum sem ég dvaldist með eru hugmyndasamir, fyndnir, kurteisir og vingjarnlegir. Á knattspyrnuvellinum í Svínadal spiluðu drengir með meiri hópþroska en sjá mátti hjá þekktustu knattspyrnumönnum heims í júní. Óeigingirni einkenndi leikmenn í kappleiknum við foringja staðarins og ljóst að orð sr. Friðriks um að kappið mætti ekki bera fegurðina ofurliði voru í heiðri höfð.

Auðvitað gekk ekki allt hnökralaust fyrir sig, fyrr má nú vera í 100 manna hópi, en drengirnir áttu auðvelt með að fyrirgefa og sættast ef upp komu árekstrar. Hegðun sem mörg okkar sem eldri eru mættu læra af.

Ég veit vel að ég er ekki tölfræðingur og enn síður virtur fræðimaður á sviði félagsvísinda, en þessi kynni af 96 drengjum á aldrinum 10-12 ára sannfærðu mig um að víða eru foreldrar að vinna frábært starf við uppeldi barna sinna. Starf sem allt of sjaldan er ausið því lofi sem það á skilið, en mun oftar kaffært í neikvæðum samanburði við fortíð sem líklegast aldrei var.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þann heiður sem mér og starfsfólki Vatnaskógar var sýndur með því að leyfa okkur að njóta frábærra samskipta við einstaka drengi um miðjan júlí.

(Áður birt í Morgunblaðinu 23. ágúst 2006.)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.