Valkvætt hugmyndakerfi

Í færslu hér á undan notast ég við orðtakið valkvætt hugmyndakerfi. Ástæðan er sú að ég lýt ekki svo á að trúarbrögð séu markaðsvara á svipaðan hátt og t.d. þátttaka í Lions eða Kiwanis. Trú mín kallar mig til að eiga samfélag við Guð, sú köllun snýst ekki um hvort að mér líkar tónlistin í kirkjunni, hvort ég telji prestinn minn einstakan prédikara eður ei, hún er meira að segja óháð því hvort söfnuðurinn minn komi vel fram. Burtséð frá þessum þáttum á ég að leitast við að fylgja Kristi, eiga við hann samfélag og leitast við að gera sköpunarverkið að þeirri góðu sköpun sem Guð ætlaði því að vera.

Þessi trú mín byggir á samskiptum mínum við skapara minn, bæði í samfélagi við aðra og einn með sjálfum mér. Trú mín er mótuð af umhverfi mínu, íslensku þjóðfélagi, sunnudagaskóla, barna- og unglingastarfi og ekki síður af árekstrum við trúarskoðanir æsku minnar, sem hafa mótað og þroskað/þróað samband mitt við þann sem ég trúi á.

Þessi trú mín er að mínum skilningi ekki valkvæð af minni hálfu heldur afleiðing samband míns við Guð. Trúarskoðanir mínar eru að mínum skilningi ekki valdar af gnægtaborði trúarbragðanna heldur byggjast á reynslu minni (góðri og slæmri) af frelsara mínum og þeim sem fylkja sér um hann. Þannig trúi ég því að ég hafi ekki valið mér Guð eftir þörfum mínum, heldur að Guð hafi kallað mig til þjónustu og samfélags.

Hef ég velt fyrir mér hvort að Guð sé til? Hef ég efast um að köllun mín sé rétt? Hef ég efast um að Kristur sé sá sem hann sagðist vera? Hef ég lesið rit sem hafna trúarskoðunum mínum? Hef ég kynnt mér önnur trúarbrögð? Hef ég talað við fólk með aðrar skoðanir en ég? Hef ég hlustað á fólk með aðrar skoðanir en ég? Hef ég efast um tilurðarsögu Biblíunnar?
Já, það hef ég gert.

13 thoughts on “Valkvætt hugmyndakerfi”

  1. Hverjar telur þú líkurnar vera á því að þú værir kristinn ef þú hefðir ekki fæðst í kristnu samfélagi? Ef þú telur miklar líkur á því að umhverfið hafi mótað trú þína, getur þú þá haldið því fram að trúarbrögð séu ekki markaðsvara? Værir þú hugsanlega annarar trúar eða öðruvísi trúaður ef ekki væri fyrir æskulýðsstarf kirkjunnar? M.ö.o. gerir þú ráð fyrir að æskulýðsstarf beri einhvern árangur? Ef svarið er já er ljóst í að trúarbrögð eru markaðsvara og æskulýðsstarf er eitt af mark tækjunum sem notað er til að ná hylli neytenda.

  2. Ég á ekki von á að trú mín væri nákvæmlega samskonar á þessum tímapunkti ef reynsla mín af lífinu væri öðruvísi en hún er núna. Af þeim sökum álikta ég að trú mín sé EKKI markaðsvara, heldur Guðs gjöf. Trúin sé með öðrum orðum afleiðing reynslu en ekki valið gildismat. Ég sem verkfæri Guðs, en slíkt er ein af grunnhugmyndum trúar minnar. Ber síðan ábyrgð á því að sú reynsla sem kallar mig til trúar, sé til staðar í lífi annarra.

  3. Af þeim sökum álikta ég að trú mín sé EKKI markaðsvara, heldur Guðs gjöf. Trúin sé með öðrum orðum afleiðing reynslu en ekki valið gildismat.

    Ég fæ þetta ekki til að ganga upp! Reynsla verður til í því umhverfi sem þú lifir í. Umhverfið er mótað af utanaðkomandi aðstæðum og í því eru ýmsir aðilar sem móta okkur, þ.m.t. Þjóðkirkjan og önnur trúfélög. Með starfi sínu getur Þjóðkirkjan reynt að höfða til ýmissa hópa, þ.m.t. æskunnar. Slíkt starf hlýtur að vera til þess gert að móta reynslu þeirra einstaklinga og þar með hafa áhrif á trúarskoðanir þeirra, trúarskoðanir sem væru öðruvísi ef ekki væri fyrir starf kirkjunnar. Ég sé ekki hvernig þetta er ólíkt markaðsstarfi Vífilfells og gosdrykkjarmenningu landands í grundvallaratriðum.

  4. Já en nú er ég ekki að tala um þig persónulega og sú forsenda þín á ekki að vera þrætuepli hér. Ég er að reyna að ræða við þig um þá hugmynd að trúarbrögð séu markaðsvara, markaðsset af ákveðnum aðilum og reynt sé að höfða til annarra aðila. Útbreiðsla trúarbragða fari því fyrst og fremst eftir markaðssetningu (en ekki t.d. því að máttur Gvuðs sé misöflugur eftir því hvar á jarðkringlunni maður er staddur hverju sinni).

  5. Trúarbrögð geta verið markaðsvara, hey ég bý í BNA :-). Ég lít hins vegar svo á að sú trú sem ég lifi og “boða” sé afleiðing reynslu, samskipta manna við Guð. Hlutur kristinna í því að vera farvegur fyrir Guð hefur að sjálfsögðu áhrif á það hversu marga Guð snertir við, enda höfum við hlutverk sem ráðsmenn hans hér á jörðu. Trúin er hins vegar ekki “static” vara heldur mótast af samskiptum Guðs og manns. Þannig er trú mín ekki hrein endurspeglun þess sem mér var “innrætt” í æskulýðsstarfi, heldur hefur (þroskast og) breyst (að sumra mati til hins verra) enda mótast hún af því sambandi sem ég á við Guð. Það er slík trú sem ég lít á að sé ekki markaðsvædd. Hún byggir á samskiptum einstaklingsins við Guð sinn. Hér er auðvelt að saka mig um hroka gagnvart þeim sem telja trú vera lokað óbreytanlegt hugmyndakerfi (það sem ég myndi kjósa að kalla trúarbrögð til aðgreiningar frá trú). En svo verður bara að vera.

  6. Geturðu ekki séð þetta í því ljósi að trú þín sé bara hugmyndir sem ferðast hafa á milli kynslóðanna og þér voru innrættar af misvitru fólki með góðan tilgang? Gæti þetta verið kjaftæði, eða útilokarðu það alveg? Nú ferðast hugmyndir annarra trúarbragða á nákvæmlega sama hátt. Og auðvitað sérðu vel að þær hugmyndir eru ranghugmyndir. Af hverju ætti það ekki að geta átt við þær trúarhugmyndir sem þú namst af þér eldra fólki í æsku?

  7. Vissulega velti ég fyrir mér hvort að trú mín sé einhvers virði, hvort hugmyndaheimur sá sem ég lifi í sé blekking. Við þetta glími ég oft á tíðum. Hluti af trú minni byggir á þeirri von að svo sé ekki. Þú gerir mér upp þá skoðun að telja hugmyndir annarra trúarbragða rangar. Vissulega ríma þær ekki alltaf við þá von sem ég hef og hafa ekki endilega mótast af persónulegu sambandi Guðs við menn. En það er ekki þar með sagt að í þeim felist ekki sannleikurinn að einhverju leiti. Ég á erfitt með að svara því, get það raunar ekki.

  8. Varla eru hugmyndir um endurholdgun réttar að þínu mati, er það? Og hvað um þá hugmynd Astekanna, að fórna þyrfti manni hvern dag til að sólin (sólguðinn) kæmi örugglega upp? Við getum greint þessar hugmyndir og skilið þær fyrir það sem þær eru. Og hver sá sem ekki er á valdi kristilegra hugmynda getur séð að þær eru af sama meiði. Og þá spyr maður sig af hverju í ósköpunum þær ættu að vera eitthvað réttari en þetta sem ég nefndi.

  9. Þú talar tvisvar um það í dag að þú sért verkfæri/hendur guðsins þíns á jörðunni. Mikið megum við hin teljast heppin að það er ekki guð Astekanna sem þú ert að þjóna. 😉

  10. Nei, það er rétt hjá þér Birgir endurholdgunarhugmyndir og fórnir fyrir sólarguðinn ríma ekki við mínar hugmyndir um vonina. Hins vegar losar friðþæging Krists okkur undan vítahring endurholdgunar (því þær hugmyndir snérust um tilraunir til að losna undan hringrásinni, verða frjáls) og á sama hátt er fórnardauði Krists endanlegur og ekki lengur þörf á daglegum fórnum til að halda Guði rólegum. En báðar hugmyndirnar sem þú nefndir ganga út frá því að mannkyn/heimurinn sé í einhverjum skilningi fallinn/óréttlátur/syndugur/óhreinn og ekki Guði þóknanlegur. Ég trúi því að von mín sé raunveruleg vegna þess persónulega sambands sem ég á við Guð minn. Það er á forsendum þessa sambands sem ég trúi því sem ég trúi, vona á það sem eigi er auðið að sjá.

  11. Mig langar að vita hvort þú sért sammála því að önnur trúarbrögð en einmitt þín séu þá “valkvæm hugmyndakerfi”, td ásatrú, trú frumbyggja í Ástralíu, stjörnuspeki og fleiri vitleysa. Ertu sammála því?

  12. Nei, ég er ekki endilega sammála því. Reyndar er hefur stjörnuspeki verið markaðsvædd og varast að bendla sig við trúarbrögð, en öðru máli gegnir um trú frumbyggja og ég skil ekki alveg stöðu ásatrúar í samtímanum þannig að ég get ekki svarað fyrir hana. Eru til í að taka þér Birgi og Matta til fyrirmyndar og leitast við að vera kurteis í samræðum.

Comments are closed.