59 thoughts on “Æskulýðsfulltrúar”

  1. Mér finnst alveg vanta spurninguna, “á kirkjan að reyna að höfða til æskunnar” áður en menn spyrja sig hvort kirkjan eigi að hafa æskulýðsfulltrúa. Svarið liggur e.t.v. ekki beint við 🙂

  2. Svarið liggur í augum uppi hvað varðar spurningu Matta. Svo lengi sem börn eru borin til skírnar af foreldrum hlýtur kirkjan að taka það hlutverk sitt alvarlega að leitast við að uppfræða sömu börn.

  3. Þetta finnst mér auðveld afgreiðsla. Hljóta ekki öll lífsskoðunarfélög að velta því alvarlega fyrir sér hvort rétt sé að stunda barna- og/eða unglingastarf?

  4. Er foreldrum gerð grein fyrir því í að þegar þeir láta skíra barnið sitt þá er það gert í fúlustu alvöru gagnvart kirkjunni og hún fær veiðileyfi á það? Þið hljótið nefnilega að vita sem er að flestir koma aðeins með börnin sín í skírn af því að það er hefð fyrir slíku.

  5. Við erum svo sem ekki að fara í gegnum þessa umræðu í fyrsta sinn, en já. Í ollum þeim tilfellum sem ég þekki til, en ég annast reyndar ekki skírnir sjálfur, þá er þetta tekið fram mjög skírt og greinilega við foreldra og í athöfninni er söfnuðurinn gerður samábyrgur fyrir uppfræðslunni. En við vísum auðvitað ekki einvörðungu í skírnina heldur meint orð Krists: Leyfið börnunum að koma til mín, en varnið þeim eigi…

  6. Svo við förum ekki enn einu sinni út í þá umræðu (nema vilji sé fyrir því), þá held ég að það væri gott fyrir kirkjuna að velta því fyrir sér hvort hún vilji stunda trúboð (það sem þið kallið oft ranglega “fræðslu”) á ómótaða huga barnanna. Hvers vegna ekki að leyfa þeim að taka sjálf ákvörðun þegar þau hafa fengið smá sjálfstæða hugsun? Og ég skil ekki hvers vegna orð sem sett voru einhverjum heimsendaspámanni í munn í fornu trúarriti eiga að hafa eitthvað vægi í þeirri umræðu.

  7. Minn skilningur á uppeldi er að hann getur aldrei verið í tómarúmi. Sú hugmynd að trú á æðri máttarvöld sé valkvætt hugmyndakerfi fyrir fullorðna, er algjörlega fjarri mínum heimsskilningi og þar lít ég t.d. til orða Krists sem ég lít á sem frelsara mannkyns, sjálft orð Guðs. Til að sjálfstæð hugsun geti verið sjálfstæð og frjáls þarf enda fólk að vita um hvað málið snýst. Ég geri ráð fyrir að allir sem einhvern tímann öðlast sjálfstæða hugsun taki sjálfstæða ákvörðun um trúarlíf sitt, við það hef ég ekkert að athuga. Ég leyfi mér að fullyrða að þau börn sem alast upp við heilbrigt trúarlíf og umræður um trú eru alveg jafnhæf til þeirrar sjálfstæðu ákvörðunar og þeim sem er haldið frá því að heyra um bænir og skapara.

  8. Auðvitað heldur því enginn fram að það sé til algjört tómarúm. Það er ekki til, og hvað með það? Ertu að segja að þar sem við getum ekki náð fullkomnu hlutleysi ættum við að stunda stíft trúboð? Ertu sama sinnis þegar kemur að stjórnmálum? Þar er örugglega ekki heldur til þetta “tómarúm”. Ég skil ekki hvað þú átt við með valkvætt hugmyndakerfi. Hvað áttu við? Ég efast um að ákvörðunin geti verið mjög sjálfstæð ef einstaklingurinn hefur orðið fyrir skipulögðu trúboði á fyrstu árum ævinnar. Síðan held ég að þú þurfir að útskýra fyrir okkur hvað “heilbrigt trúarlíf” er í þínum huga. Það er enginn að tala um að krakkar fái ekki að heyra um bænir, guð og allt það. Eigum við ekki að tala um þrjá hópa: 1. verður fyrir skipulögðu trúboði 2. lærir um trú 3. lærir ekkert um trú. Hvaða hópur heldur þú að sé best til þess fallinn að taka sjálfstæða ákvörðun? Í hvaða hóp vill kirkjan að æskan lendi í?

  9. Uppeldi á sér ekki stað í tómarúmi, eins og Elli bendir á. Að geyma gildismat til fullorðinsára (líkar trúaruppeldi) heitir vanræksla. Að neyða börn til trúar væri vissulega ofbeldi, sem er eins víst til að skila vanheila einstaklinga. Engin kirkja sem ég þekki reynir hið síðara, og ekkert sem ég hef séð í fræðslustefnu Þjóðkirkjunnar leitast við að neyða neinn til trúar, hvorki unga né aldna.

  10. Það er fyrst og fremst foreldrar, afar og ömmur sem biðja með börnum, segja þeim sögur, lesa fyrir þau við rúmstokkinn … eða ekki. Ekkert sem kirkja gerir toppar það. Barnastarf kirknanna, samvinna við skóla, leikskóla o.s.frv. getur í besta falli stutt við svona og börn eru nokkuð fljót að velja fyrir sig hvort þau vilja halda áfram á þeim brautum sem aðrir en foreldrar halda að þeim. Börn á aldrinum 2-5 ára fara ekki í kirkju án foreldra eða eldri syskina. 6-12 ára hætta auðveldlega í barnastarfi kirknanna ef heimilið styður þau ekki til að sækja það. Það þarf sjálfstæði til að fara gegn straumi heimilisins, meira að segja skólastarfið í grunnskóla þarfnast góðs samstarfs og jákvæði foreldranna, ef börn eiga að vilja læra.

  11. Ef það er ekki hægt að kenna börnum hlutlaust gildismat, hlýtur það að vera hlutverk foreldranna að ákveða hvaða gildismat er grundvöllur uppeldis. Ef slíkt gildismat kallar á það að biðja bænir, heyra um Guð þá er það besta mál. Auðvitað flokkast stjórnmál undir gildismat sem foreldrar temja börnum sínum, að halda öðru fram er blekking. Varðandi hópana þá vantar fjórða hópinn. Þann sem lifir heilbrigðu trúarlífi, lærir að biðja bænir, ræða um trú og hefur getu til að notast við trúarlega hugtök í samræðum. Ég geri skýran greinarmun á því að leitast við að þroska trúarskilning barna í samræmi við t.d. kenningar James Fowler og því að ná einstaklingum á þriðja stig í kenningum hans og halda þeim þar. Ég geri ráð fyrir að einstaklingar sem þroska trú sína til fullnustu séu kjörhópur kirkjunnar.

  12. Af hverju haldið þið að tengja þurfi gildismat trú? Haldið þið virkilega að ekki sé hægt að ala upp börn í góðum siðum án þess að fræða þau um trúarbrögð í leiðinni? Ég á bágt með að trúa því.

  13. Það er enginn hér í þessari umræðu sem gerir kröfu um að gildismat sé nauðsynlega tengt trú. Það eru til margs konar gildismat sem er ekki trúartengt. Auðvitað er hægt að kenna börnum góða siði án þess að trú komi þar nokkuð við sögu. Um það hefur ekki verið rætt hér.

  14. Af hverju þá að tala um gildismat? Það var enginn að ræða gildismat fyrr en það var nefnt hér.

    Carlos: Að geyma gildismat til fullorðinsára (líkar trúaruppeldi) heitir vanræksla.

    Af hverju að nefna orðið “vanræksla” í þessari umræðu og tengja það þessari spurningu um hvort kirkjan eigi yfir höfuð að beina starfi sínu að æskunni? Hver er að vanrækja?

    Ég leyfi mér að fullyrða að þau börn sem alast upp við heilbrigt trúarlíf og umræður um trú eru alveg jafnhæf til þeirrar sjálfstæðu ákvörðunar og þeim sem er haldið frá því að heyra um bænir og skapara.

    Vantar ekki eitthvað inn í þetta hjá þér? Hvernig getur ákvörðunin verið sjálfstæð ef börnin kynnast ekki líka hinni hliðinni, þ.e.a.s. gagnrýni á trúarbrögð/trú? Ég fullyrði að t.d. mín börn komast ekki hjá því að læra um kristni, eru börnin í æskulýðsstarfinu frædd um trúleysi? Hvernig geta þau þá verið í stakk búin að taka þessa ákvörðun? Ég fullyrði á móti, þess börn eru ekki jafnh

  15. Mín sýn á heiminn gengur út frá tilveru Guðs, það mótar gildismat mitt og myndi ekki ganga upp án Guðsforsendunnar. Það gerir mér ómögulegt að ala börnin mín upp án þess að Guð sé hluti af veruleika þeirra. Umræður um trú hljóta að takast á við hugmyndir um tilveru/tilveruleysi Guðs. Hlutverk kirkjunnar er að vera vettvangur til að mæta Guði. Ég á ekki von á því að þar séu að öllu jöfnu kynntar sérstaklega önnur trúarkerfi/lífskoðanir. En sú staðreynd að slík kerfi/skoðanir séu til staðar er börnum/unglingum ljós mjög fljótt á lífsleiðinni og það kallar á vangaveltur, efasemdir og spurningar um veruleikann ef umræðuþátturinn fylgir trúaruppeldinu. Ég átta mig á því að þú telur ekki rétt að gera ráð fyrir Guði í uppeldi og það er ákveðin heimssýn sem ég virði. Vanrækslan felst í því að varast allt gildismat eins og Carlos bendir á, sama hvort það er trúartengt eða ekki.

  16. Carlos: Það hefur enginn haldið því fram að uppeldið ætti sér stað í tómarúmi. Enginn hefur minnst á að neyða börn til trúar, nema þú sért að tala um skipulagt barnatrúboð, sem Þjóðkirkjan stundar. Þegar menn segja litlum auðtrúa börnum í fúlustu alvöru að það geti lokað augunum og talað við guð, að Jesús hafi lifnað upp frá dauðum og fylgist með því, fara síðan með bænir með barninu og fleira í þessum dúr. Þá sé ég ekki hvernig barnið sé að velja það að trúa. Haldið þið að barnið velji þarna?

  17. Halldór: ” Auðvitað flokkast stjórnmál undir gildismat sem foreldrar temja börnum sínum, að halda öðru fram er blekking.” Já, en spurningin mín er þessi: Ættu stjórnmálaflokkarnir þá að hafa æskulýðsfulltrúa? Og stunda boðun í leik- og grunnskóla? Ættu foreldrarnir að lesa yfir stefnuskrá flokksins fyrst það er ekkert stjórnmálalegt tómarúm til? “Varðandi hópana þá vantar fjórða hópinn. Þann sem lifir heilbrigðu trúarlífi, lærir að biðja bænir, ræða um trú og hefur getu til að notast við trúarlega hugtök í samræðum.” Ég held að þetta sé hópur 1. þú bara orðar það öðruvísi, nema þegar þú segir: “lærir að biðja bænir” eigirðu við: “lærir um það hvernig fólk biður bænir”. Og stóra spurningin er: Vill kirkjan ala upp börn sem verða fyrir skipulögðu trúboði af hálfu kirkjunnar eða krakka sem læra bara um trú? Og hvor hópurinn verður betur í stakk búinn að taka sjálfstæða ákvörðun? Ég held að svörin við báðum spurningunum séu augljós.

  18. Þetta snýst um það að uppeldi sé aldrei í tómarúmi. Við getum hafnað því fyrir hönd barnsins að guð skipti máli/sé til, komið í veg fyrir raunveruleg/fölsk samskipti við þennan Guð og það hefur varanleg áhrif á trúarhugmyndir barnsins. Við getum líka gengið út frá því að Guð skipti/máli sé til. Leyft barninu að taka þátt í raunverulegum/fölskum samskiptum við hann og það hefur varanleg áhrif á trúarhugmyndir barnsins. Ég og þú erum líklega ekki sammála um hvor leiðin er betri.

  19. Nei, Hjalti ég vil að börnin læri að biðja bænir. Ég trúi á persónulegan Guð sem hefur samskipti við manneskjur og mér finnst í lagi að biðja. Mér finnst líka allt í lagi að börn læri að biðja. Því það er eina leiðin til að eiga í persónulegu sambandi við þann Guð sem ég trúi að sé raunverulegur. Án þessa persónulega sambands er trúin gagnslaus og dauð. Ég geri greinarmun á því að leitast við að þroska trú barna og stunda trúboð. Ég geri greinarmun á þessu hér að ofan. Ef þú skilur ekki þennan greinarmun þá verður svo að vera. Kirkjan vill þroska trú barna og gera samskipti þeirra við raunverulegan Guð merkingarbær, en ekki kenna þeim um kenningar. Kirkjan vill að trú barnanna þroskist og beri ávöxt í lífi þeirra. Ég trúi því að börn sem hafa þroskaða trúarvitund séu mun hæfari til að taka sjálfstæðar ákvarðanir en börn sem hafa hana ekki.

  20. Ég trúi því að börn sem hafa þroskaða trúarvitund séu mun hæfari til að taka sjálfstæðar ákvarðanir en börn sem hafa hana ekki.

    Ertu ekki að segja að þú trúir því að börn sem hafa “þroskaða trúarvitund” sé hæfari ti að verða trúuð (á einhvern ákveðin máta)? Varla trúir þú því sjálfur að börn sem hafa þessa þroskuðu trúarvitund (ég er ekki alveg að grípa þessi háfleygu hugtök stundum) eftir æskulýðsstarf kirkjunnar séu líklegri til að taka sjálfstæða ákvörðun um að trúa ekki heldur en hin sem ekki hafa farið í gegnum æskulýðsstarf trúfélags? Varðandi greinarmuninn á trúboði og því að þroska trú, þá verður þú að fyrirgefa, en ég sé hann ekki. Það að kenna annarra börnum að fara með bænir hlýtur að vera trúboð.

  21. Já, ég tel að börn sem hafa þroskaða trúarvitund séu að öðru jöfnu hæfari til að taka sjálfstæða og upplýsta ákvörðun um trúarlíf sitt eða trúleysi sitt, en þau sem hafa ekki tekið þátt í trúarlegu starfi. Trúboð í mínum huga felur í sér kröfu um einhvers konar hlýðni. Trúboð í mínum skilningi miðar að því að móta einstaklinga í samræmi við þriðja stig kenninga Fowler sem ég hef nefnt hér áður. Það að kenna annarra börnum bænir er í engu frábrugðið að kenna eigin börnum bænir ef það er gert með samþykki foreldra og í samræmi við óskir þeirra (t.d. í skírninni). Til að skilja þessi hugtök, hvað við erum að gera og hvers vegna, væri ráð að kynna sér t.d. kenningar margumrædds James Fowler.

  22. Þú ert ekki að hafna því fyrir hönd barnsins að guð sé til ef þú lætur það ekki biðja bænir. Af hverju segirðu það? Þú ert bara ekki að ota honum að því. Kannski hægt að skipta þessu í þrjá flokka: 1. Barnið er látið “tala við guð” og kennt “trúarsannindin”. 2. Barninu er sagt frá trú og frætt um trú. 3. Barnið er látið afneita guði fyrir svefninn og svo framvegis. Hvert er hlutlausasta uppeldið að þínu mati? Ég efast um þá staðhæfingu þína að kirkjan hafi ekki áhuga á því að innræta kristnar kenningar í börn. Þarf ég að nefna dæmi eins og upprisuna? Ég persónulega á erfitt með að skilja hvað þú átt við með að þroska trú barnanna og hvers vegna það passar ekki við hóp 1 (sem verða fyrir skipulögðu trúboði). En þó svo að þessi fjórði hópur sé til, þá ættirðu að geta svarað spurningunum mínum um hina þrjá (1. skipulagt trúboð 2. lærir um trú 3. lærir ekkert um trú og ekkert trúboð)….

  23. Hver af þessum hópum heldur þú að sé hæfastur til þess að taka sjálfstæða ákvörðun um trúmál?

  24. Mér finnst enginn hópanna þinna þriggja sérstaklega hæfur til að taka sjálfstæða og upplýsta ákvörðun um trúmál. Fjórða Hópnum: Barninu er kennt að tala við Guð og leyft að upplifa “trúarsannindi” og ræða um slíka upplifun. Það er slíkur hópur, sá fjórði sem ég tel hæfastan til að taka sjálfstæða og upplýsta ákvörðun að svo miklu leiti sem slík ákvörðun er möguleg. Svo ég ítreki mál mitt en einu sinni. Ef þú ert ekki tilbúin til að skilja það sem ég segi þá legg ég til að við stöðvum umræðuna hér.

  25. Og jú Hjalti, með því að ala börn ekki upp í samskiptum við Guð frá unga aldri og leyfa þeim ekki að upplifa hann sem raunveruleika frá barnsaldri ertu NÁKVÆMLEGA að hafna þeim Guði sem Kristnir menn trúa á, þeim Guði sem á að hafa sagt: “Leyfið börnunum að koma til mín, en varnið þeim ekki. Því þeirra er himnaríki.”

  26. Ég er alveg tilbúinn að skilja það sem þú segir, en þar með er ekki sagt að ég skilji þig. Ótrúlegt en satt, þá fékk ég fyrir uþb 2 vikum lánaða frá bókasafni 6. hefti ritraðar guðfræðistofnunar. Í henni er einmitt grein eftir Sigurð Pálsson um trúarþroska. Nú mun ég vonandi geta lesið hana á morgun, en eftir að hafa skimað yfir hana, sýnist mér “trú” ekki vera skilgreind þarna sem það sem við köllum venjulega trú, heldur er trú þarna allar heimsmyndir/lífsskoðanir. Þannig að ég skil ekki alveg hvernig “þroskuð trú” eigi að vera séreinkenni fjórða hópsins. Auk þess skil ég ekki hvernig það getur ekki flokkast undir trúboð að segja börnum að það geti virkilega talað við guð með því að loka augunum og að láta börnin eiga í þessu (ímyndaða) samtali. Er þetta virkilega ekki trúboð að þínu mati? Svo maður komi með svipað dæmi; Ætti þá ekki að segja börnum að miðlar geti séð framtíðina og talað við hina látnu og fara síðan með börnin á miðilsfundi?

  27. Er þetta virkilega ekki trúboð að þínu mati?

    Nei og aftur nei. Þú greinilega nærð því ekki að ég geng út frá því að persónulegur Guð sé til. Það að fólk kenni börnum sínum að hafa samskipti við raunverulegan persónulegan Guð er ekki trúboð í þeirri merkingu sem ég legg í orðið. Núna hef ég sagt þetta þrisvar. Það er greinilegt að þú hefur engan áhuga á að setja þig í spor viðmælanda þíns og leitast við að skilja hann. Það er til fólk sem gerir einmitt það, fer á miðilsfundi með börnin sín, vegna þess að miðlar eru sannir í þeirra huga. Það er ekki trúboð heldur uppfræðsla á raunveruleika slíkra foreldra. Hjalti svo ég segi það í fjórða sinn. Guð er í mínum huga persónulegur og raunverulegur, það gerir það að verkum að mér finnst eðlilegt að miðla þeim raunveruleika til barnanna minna og annarra barna sem eiga foreldra sem eru sama sinnis og ég. Og svo ég segi það enn einu sinni. Í mínum huga er það ekki trúboð.

  28. sýnist mér “trú” ekki vera skilgreind þarna sem það sem við köllum venjulega trú

    Bara svo það komi fram hér. Ekki gera mér upp sama skilning á trúarhugtakinu og þú hefur. Ég virði það í samtölum við trúleysingja að nota trúarhugtakið þröngt. En það er ekki það sem ég geri venjulega. Í mínum huga er mun eðlilegra að notast við hugtakaskilgreiningar á trúarhugtakinu.

  29. “Ertu trúaður maður Halldór?” “Já, ég hef gaman að fótbolta.” Dásemdir hinnar víðu skilgreiningar á trúarhugatakinu.

  30. Matti, þetta er ekki mjög málefnalegt innlegg. Nær væri að orða þetta svona. “Já, að jafnaði vikulega fer ég í rauðan viðhafnarbúning, við félagarnir komum saman og syngjum söngva, horfum á uppgjör vikunnar og hlæjum eða grátum, í samræmi við boðskap dagsins. Ég legg allt undir þegar kemur að því að mæta í helgihaldið. Vinnan verður að víkja ef samverur hitta á vinnutíma, ég hef sleppt því að fara með fjölskyldunni í ferðalög, þegar uppgjörin kalla. Þrisvar á ári að jafnaði yfirgef ég svo fjölskyldu mína til að fara í pílagrímsferð. Á þessu ári voru ekki aðeins spámenn að leitast við að láta æðstu vonir mínar rætast, heldur kom Guð sjálfur. Reyndar dugði það ekki til að bænir mínar rættust. En stundum svarar Guð “bíddu”. Mér skilst enda að Guð verði með mínum á næstu leiktíð.” 🙂

  31. Ég fullvissa þig um að ég hef áhuga á að setja mig inn í spor viðmælanda míns. Ég hef enn ekki lesið greinina, en það væri kannski gott ef þú gætir útskýrt í örstuttu máli hvað þú átt við með því að “að móta einstaklinga í samræmi við þriðja stig kenninga Fowlers”. Annars skilgreini ég trúboð einfaldlega sem allt það sem miðar að því að fá einhvern annan til þess að tileinka sér einhverjar af trúarkenningum þínum. Myndi þetta ekki vera það sem kallað er trúboð í daglegu tali? Þá er trúboðið í bænahaldi í mínum huga það að verið er að kenna barninu að til sé ósýnileg vera (guð) sem það getur talað við. En segjum sem svo að bókstafstrúaðir foreldrar séu að kenna börnunum sínum að Nóaflóðið hafi átt sér stað og að Jörðin sé 6000 ára gömul og svo framvegis. Nú eru allar þessar staðhæfingar sannar í hugum forledranna. Flokkast þetta sem trúboð skv þinni skilgreiningu?

  32. Ætli Halldór sé hlynntur því að aðdáendaklúbbur Liverpools fái að skráningu sem trúfélag? 🙂

  33. Hjalti telur að öll fræðsla sem gengur út frá tilvist Guðs sé trúboð. Ég var búin að átta mig á því, er ósammála og finnst það vægast sagt víðtæk skilgreining.

  34. Þannig að þú ert á móti víðtækum skilgreiningum þegar kemur að trúboði en fylgjandi þeim þegar fjallað er um trú 😉

  35. Á sama hátt og aðrir hérna á vefnum virðast sumir á móti víðtækum skilgreinum á trú, á sama tíma og þeir hafa mjög viðtækar skilgreiningar á trúboði! 🙂

  36. Tja, þegar prestur sem fer í leikskóla barna minna og fer með bænir með börnum kallar þá starfsemi sína kristniboð veit ég ekki af hverju þér þykir sú skilgreining víð?

  37. Ég er algjörlega ósammála því að um kristniboð sé að ræða þegar leikskólar eru heimsóttir. Ef einhver lítur svo á að markmiðið með heimsóknum sínum sé kristniboð, þ.e. boðun til barna sem eru ekki skírð og tilheyra þannig ekki kirkjunni, þá á starfið að mínu mati ekki heima í leikskólastarfi. Ef hins vegar um er að ræða að markmiðið með heimsóknunum sé að sinna skírnaruppfræðslu þá er það sú forsenda sem ég hef margsinnis reynt að verja á vefsíðunni þinni. Ég veit að Bolli hefur verið gagnrýndur innan kirkju fyrir að nota hugtakið kristniboð um skírnaruppfræðslu, enda er það ekki það sama.

  38. Jæja, nú ætla ég að hætta að nota orðið trúboð, svona til þess að auðvelda umræðuna. Hvernig líst þér á þessa skiptingu? 1. er kennt að guð sé til, er sagt að fleiri trúarkenningar séu sannar og er látið taka þátt í trúarathöfnum. 2. lærir um trú 3. lærir ekkert um trú Passar “fjórði hópurinn” núa í fyrsta hópinn? En nú skil ég ekki eitt í síðasta innlegginu þínu. Ertu að segja að einhver verknaður (td að segja að guð sé til) sé trúboð ef barnið er ekki skírt en er ekki trúboð ef barnið er skírt?

  39. Ég er hræddur um að skírnin ein sé ekki nóg til að skera úr um hvort trúboð eigi sér stað eða ekki … hvítasunnufólk skírist fullorðið (börn eru blessuð en ekki skírð). Sumir Þjóðkirkjumeðlimir skírast ekki fyrr en laust fyrir fermingu og svo eru þeir utantrúfélaga sem skíra börnin sín og láta prest gifta sig en skrá sig ekki í trúfélag. Ætla má að þessir þrír hópar vilji, að börn sín fái kristilegt uppeldi og óeðlilegt að kalla það trúboð eða áróður, eins og um aðskotahlut væri að ræða.

  40. Ég myndi enn kjósa fjóra hópa, því líklega liggur munurinn í mínum huga á trúboði og kirkjulegri fræðslu hvað skýrast í orðunum “og er látið taka þátt…” sem lýsir í mínum huga trúboði. Eða orðunum “og leyft að taka þátt…” sem lýsir þá kirkjulegri fræðslu. Að því sögðu þá tel ég að það svari spurningunni um skírn og ekki skírn, trúboð og ekki trúboð. Því fram að fermingu er ákvörðun foreldra um skírn einmitt það sem greinir á milli þeirra sem óska eftir að taka þátt og þeirra sem gera það ekki.

  41. Mér finnst spurning Matta hafa mætt daufum eyrum: Hljóta ekki öll lífsskoðunarfélög að velta því alvarlega fyrir sér hvort rétt sé að stunda barna- og/eða unglingastarf? Svarið liggur í augum uppi. Já, auðvitað. Hverskonar lífsskoðun er það sem 2. og 3. kynslóð geta ekki samþykkt eigin, eða a.m.k. borið virðingu fyrir?

  42. Carlos, ég vil líta svo á að ég sé einvörðungu hæfur til að svara þessari spurningu hvað kirkjuna varðar. Í mínum huga liggur svarið í augum uppi með vísun til orða Jesús um börnin, með vísan til barnaskírnar og þess trúarskilnings sem ég hef. Þetta hef ég bent á hér að ofan. Þannig er að mínu viti ekki um val að ræða fyrir kristna kirkju, henni er skylt að uppfræða börn. Ég geri að sama skapi ráð fyrir að ef lífsskoðun er þess virði að lífa eftir henni, þá hljóti hún að eiga erindi til barna.

  43. Siðmennt er með barna- og unglingastarf sem nefnist “borgaraleg ferming”.

  44. Ég veit ekki hve frumlega Ólöf túlkar BF. Fermingarstarf er flokkað með barna- og unglingastarfi í kirkjunni. Það sem Jóhann Björnsson hefur kennt þeim krökkum sem sækja fermingarundirbúning hans, getur vel flokkast undir lífsviðhorfsfræðslu, sjálfsstyrkingu og heimsspeki fyrir ungt fólk. Kirkjurnar kenna yfirleitt ekki heimsspeki í barna- og æskulýðsstarfi, en þær leitast við að efla sjálfsmynd og sjálfstæð lífsviðhorf þeirra.

  45. Carlos: Ég var ekki að halda því fram að skírn væri það eina sem greindi á milli trúboðs og ekki-trúboðs. Það sem ég var að spyrja um hvort sami hluturinn gæti flokkast sem trúboð ef börnin eru óskírð, en væri ekki-trúboð ef börnin væru skírð. Er það svo? Td er það trúboð að segja óskírðum börnum að það sé staðreynd að Jesús hafi risið upp frá dauðum? Svo held ég að það sem Matti hafi verið að spyrja út í sé hvort það sé rétt hjá þessum félögum að innræta börnum trúarkenningar.

    Hverskonar lífsskoðun er það sem 2. og 3. kynslóð geta ekki samþykkt eigin, eða a.m.k. borið virðingu fyrir?

    Hvers vegna heldurðu að þetta sé afleiðing þess að vera ekki með barna- og/eða unglingastarf? En ættu þá stjórnmálaflokkar að halda út barnastarfi? Ólöf: “borgaraleg ferming” gæti í mesta lagi flokkast undir unglingastarf, og ég veit ekki til þess að þar sé verið að innræta trúarskoðanir, td er ekki kennt að guð sé ekki til.

  46. Nú er það svo að guðfræðingar eru ekki sjálfir á einu máli um það hvort Jesús hafi í raun risið upp frá dauðum, eða hvort frásagnir af því séu aðeins táknrænar fyrir eitthvað sem síðan á að móta siðferðilega breytni okkar. Og þá spyr ég hvort það sé siðferðilega rétt að kenna börnum þetta eins og um staðreyndir væri að ræða. Eru slíkir kennsluhættir ekki einmitt til þess fallnir að ala upp kynslóðir bókstafstrúarfólks sem halda mun á lofti kenningum um guðlega sköpun og hafna um leið viðurkenndum vísindakenningum? Hve siðleg getur svona kennsla verið ef þeir guðfræðingarnir hafa rétt fyrir sér sem segja upprisuna táknmynd? Munið að það sem Jóhann kennir á fermingarnámskeiðunum borgaralegu er ekkert sem stangast á við þá heimsmynd sem rök og sannanir hafa látið okkur í té. En þetta gera prestar iðulega.

  47. Kirkjurnar … leitast við að efla … sjálfstæð lífsviðhorf þeirra [ungs fólks].

    Ég efast um þetta. Við hljótum td að vera sammála um að unglingastarfið í Krossinum og örðum bókstafstrúarsöfnuðum miðast við að gera unglingana að bókstafstrúarmönnum. Á sama hátt tel ég að unglingastarf Þjóðkirkjunnar miðast að því að gera unglingana þjóðkirkju-kristna.

  48. Trú hefur frá örófi alda kallast á við vísindin og önnur trúar- og lífsviðhorf í umhverfinu. Kristni er í engu frábrugðin öðrum trúarbrögðum og lífsviðhorfum hvað það snertir. Séu trúaratriðin kennd eins og vísindi, geta vissulega orðið bókstafstrúarfólk úr slíkri kennslu. Þegar ég skoða 0 – 30 ára gamalt efni sem kennt er til fermingar í lúthersku kirkjunum í kringum okkur, þá sé ég að það efni leitast við að styðja við sjálfstæða hugsun nemenda, þroska og lífsleikni. Þeir sem semja það efni vita það vel að börn í samfélögum okkar eru nestuð upp með nútímalegri heimsmynd en t.d. fyrir 100 árum síðan. Og þarna setur Hjalti fingurinn á púlsinn: Ef unglingastarf þjóðkirkjunnar gerir krakkana þjóðkirkjukristna, þá væri óskup gott að vita hvað það felur í sér. Eru meðlimir þjóðkirkjunnar almennt bókstafstrúar? Hafna þeir almennt heimsmynd vísindanna, vegnar þeim t.d. illa í læknisfræði eða genavísíndum? Ég fullyrði að svo er ekki.

  49. Ég tel spurningu Birgis um hvað sé siðferðilega tækt að kenna og hvað ekki afar mikilvæga. Ef við ljúgum að börnum (og fullorðnu fólki) með trúarkreddum okkar, erum við sjálfdæmd úr leik og ég ætti, ef satt væri, að snúa mér að öðru, t.d. tölvunarfræði eða matreiðslu. En málið er ekki svo einfalt. Það verður ekki gert út um sannleika og lygi átrúnaðar á þekkingarfræðilegum forsendum eingöngu, þótt þær forsendur þurfa vissulega að vera inni í myndinni.

  50. Það ætti samt að geta verið vísbending um aukna nálgun við hið sanna í málinu að æ meira af því sem áður var kennt sem heilagur sannleikur er afgreitt sem líkingamál og táknmyndir. Helvíti er ekki lengur staður, Eden ekki heldur og líf, starf, dauði og upprisa Jesú nálgast allt saman þann punkt að vera eitthvað allt annað en raunverulegir atburðir. Get ekki beðið eftir því að guðfræðingar verði almennt komnir á þá skoðun að guð sé aðeins tákngerving hins góða í manninum. En þá réttlætir líka ekkert að tilvist hans sé tíunduð í kirkjum og barnastarfi og því haldið fram að Jesús hafi í alvöru dáið fyrir syndir mannanna og risið upp í holdinu.

  51. Málið er ekki svona einfalt, Birgir. Sú var tíðin að átrúnaður Hebrea, sem Gyðingdómur byggir á og síðan kristni, hafði ekki not fyrir Helvíti eða Djöful. Sú var tíðin að Hebrear voru ekki eingyðistrúar, gyðingar fórnuðu dýrum til að friðþægja fyrir synd sína og kristnir voru hluti gyðingdóms. Trúarbrögðin breytast, eins og heimsmyndin og heimsspekin. Viljirðu dýpka þetta get ég bent þér á ágætis umfjöllun um gyðingdóm, íslam og kristni eftir Hans Küng, þar sem hann notar Paradigmukenningar Kuhn um breytingar í hugmyndasögunni og lagar þær að trúarbragðasögunni. Stuttútgáfa í bók sem heitir Global Ethics eftir H. Küng. Þá er einnig ágætur rithöfundur, Karen Armstrong sem hefur fjallað á skiljanlegan og áhugaverðan hátt um öll helstu trúarbrögð heims og hvaða breytingar þær hafa farið í gegnum. Pointið með þessu er að sýna að hugmyndasagan og trúarbragðasagan eru samgrónir tvíburar og svipuð lögmál gilda um þróun þeirra.

  52. Hitt pointið, Birgir, er að trúin, eins og lífsviðhorfið er glíma og maður hefur ekki alltaf öll svörin í hendi, en maður hefur aðferð og grunn sem maður stendur á og vinnur út frá.

  53. Já Carlos, trúarbrögð breytast. Og er þá ekki nóg að innræta börnunum bara heilbrigð siðferðisviðmið og láta hindurvitnin liggja á milli hluta?

  54. Ég hefði haldið það, Hafsteinn. Sérhver hópur og tími hefur sín sérkenni, fyrirmyndir og sýn á lífið og tilveruna. Meira að segja “heilbrigði” er afstæð stærð. En spurning Birgis er ekki um það. Fyrir honum er trúartengingin (“hindurvitnin”) aukahlutur, óþarft líffæri eins og botnlanginn, ef ég skil orð hans rétt. Og hann hefur mikið til síns máls. Trúmaður sem lítur á trú sína sem skiptimynt er ekki heill. Hver trúmaður verður að svara fyrir sjálfan sig. Fyrir mér er trúin ekki aukahlutur heldur skilgreinir hún mig. Hvort siðferðisviðmið mín séu heilbrigð eða ekki ræðst m.a. af trú minni, þau gætu staðið ein og sér, en trú mín eflir þau og mótar þau. Meira að segja spurningin um það að hve miklu leyti trú mín byggir á hindurvitnum hefur áhrif á það hvort trú mín er heil eða ekki. Og þar hafa Birgir og félagar nokkur áhrif, þeir eru fundvísir á dautt og rotnandi í huga trúmannsins.

  55. Þakka heiðarleg og hugdjörf tilsvör, Carlos, um leið og ég fagna því að ekki sé risið upp til handa og fóta lengur yfir jafnsjálfsögðu orðalagi og að kalla yfirnáttúruþátt trúarbragðanna hindurvitni. Sko til, við getum öllsömul eftir allt átt gagnlegar umræður.

  56. Núningsflötum fækkaði með rólegra viðmóti allra þátttakenda. Allt í einu er maður farinn að heyra hvað sagt er og hættur að hjakka í sama farinu. Allt annað að ræðast við undir þeim kringumstæðum. Gaman, takk Birgir og þið hin.

Comments are closed.