Að nota skilgreiningar til að vanvirða

Með reglulegu millibili birtir Forbes lista yfir ríkustu þjóðarleiðtoga heims og í kjölfarið birtist frétt um meinta stöðu Kastró á listanum. Svo virðist vera að í áróðursskini og/eða fávisku um hugmyndaheim kommúnismans á Kúbu telji Forbes mikilvægt að eigna Kastró einhvern hluta af eignum ríkisins sem hann veitir forstöðu.
Forbes hafnar þannig þeim skilningi kúbanskra stjórnvalda að Kastró sé eignalaus en um sé að ræða eigur ríkisins. Með túlkun Forbea er gefið í skin að Kastró sé að hagnast óheyrilega sem einræðisherra, Kastró sé ekki samkvæmur sjálfum sér, misnoti sér stöðu sína og sé glæpamaður. Forbes virðist hins vegar ekkert hafa fyrir sér í þessari túlkun sinni. Þannig berst Kastró ekki mikið á, hann eða ættingjar hans nota t.d. ekki svo vitað sé peningana til að taka þátt í Gumball 3000, svall- og sukkveislu ríka fólksins, í boði Icelandair. Hann heldur ekki úti skemmtisnekkjum fyrir fínu vini sína og ferðast ekki í einkaþotum milli heimsálfa til þess eins að horfa á knattspyrnukappleiki líkt og sumir aðrir þjóðhöfðingjar.
Það er ýmislegt hægt að segja um ástandið í Kúbu, það er hins vegar óþolandi að fjölmiðlar sem vilja láta taka sig alvarlega beri slíkan áróður á borð gagnrýnislaust.