Að gefa sig að fátækum og þurfandi

Ræða Biskups í upphafi Kirkjuþings er spennandi og vel samin. Sérstaklega fannst mér áhugaverð tilvísun hans til greinar í The Guardian.

Hattersley bendir á að nærfellt allir þeir sem standa að þess háttar hjálparstarfi séu á vegum trúarsafnaða eða kirkjustofnana. Og hann bætir við, „áberandi er að hvergi sjást hjálparteymi vantrúarfélaga, fríhyggjusamtaka, guðleysingjaflokka, – þess háttar fólks sem ekki einasta gerir lítið úr þeim sannindum sem trúarbrögðin standa fyrir, heldur telur þau standa gegn framförum og jafnvel vera undirrót ills.

Hér er reyndar litið framhjá ríkisreknum stofnunum, eins og sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum. Hins vegar eru eiga margar þeirra stofnanna uppruna sinn í kirkjuumhverfinu og hafa færst yfir á hendur og/eða fjárhagslega ábyrgð ríkisins.

10 thoughts on “Að gefa sig að fátækum og þurfandi”

  1. Þegar öll þau kirkjulegu hjálparsamtök eru lögð saman sem starfa undir merkjum Alkirkjuráðsins má fullyrða að þar er um að ræða ein allra stærstu samtök um þróunarsamvinnu sem um getur í heiminum. Þau starfa í samræmi við ströngustu reglur Sameinuðu þjóðanna um hjálparstarf og þróunarsamvinna og án tillits til trúarbragða, kynþáttar eða litarháttar.

    Fair enough, herra Karl. En ívitnuð Guardiangrein virðist byggjast á dálítilli blindu Hattersley sem biskup kokgleypir. Byggir Rauði krossinn á trúfélagsaðild? Gerir Save the Children það? Ég held nú síður. Menn í biskupsstóli ættu ekki að skjóta svona skotum, og hitta framhjá.

  2. Byggir Rauði krossinn á trúfélagsaðild? Gerir Save the Children það?

    Nei, en þær hreyfingar eru heldur ekki sprottnar upp hugmyndafræði fríhyggjunnar og guðleysisins. Sjálfsagt eru fjölmargir fríhyggjumenn sem starfa að góðum málefnum. Orðin benda einvörðungu á að innan slíkra hreyfinga virðast að öðru jöfnu ekki þróast hjálparsamtök sem gefa sig að þeim sem minnst mega sín.

  3. Mig langar að leggja hér orð í belg. Biskup leggur út af orðum Hattersleys sem fullyrðir að “flestir trúmenn séu einfaldlega betri manneskjur” en þeir trúlausu. Nú er það svo að okkar kirkjudeild, sú lúterska, hefur löngum átt í erfiðleikum með svona fullyrðingar. Lúter sjálfur réðist gegn þeim að hörku og sagði að þegar sá trúaði væri farinn að finnast hann vera betri en aðrir, þá væri sjálfur djöfullinn að spila með hann. Því sagði hann að allir væru jafn hæfir til góðra verka, óháð trú. Við í velferðarsamfélögum Vesturlanda sem höfum haft jafnaðarmennsku að leiðarljósi byggjum að vissu leyti á hugsun Lúters, sömu hugsun og Live Aid konsertinn í sumar stóð fyrir, Justice not Charity. Það eru opinberar stofnanir sem sjá um samhjálpina, ekki frjáls félagasamtök. Í USA er þessu öðruvísi varið. Þar sjá óopinber félagasamtök um samhjálpina, ekki ríkið. Enda er USA kalvínistískt-píetístískt í eðli sínu, þar sem þriðja lögmálið er í heiðri haft: Breytni sem sprettur af trú. Biskup einnig? Hann virðist nefnilega aðhyllast hina þriðju notkun lögmálsins, að trú (á Krist?) þurfi til svo menn geti breytt rétt. Þetta er ekki hinn rétti lúterski skilningur því Lúter lagði áherlu á að breytin (þ.e. lögmálið) væri skrifað á hjörtu okkar allra, óháð trú. Þannig vildi hann forðast faríseisma hinna “trúuðu”.

  4. Ég skil þennan kafla í ræðu biskups fyrst og fremst að hann sé áminning til kristinna manna um að sinna enn betur um náungann en að við séum hvött til að gleðjast yfir því hversu góð við erum (eða betri en aðrir). Samhengið í ræðunni er annars vegar umfjöllun um hjálparstarf og kærleiksþjónustu (á undan) og hins vegar um köllun hins kristna manns (á eftir). Ég er alls ekki sannfærður um að hægt sé að lesa út úr þessu þá afstöðu sem þú talar um Torfi. Nálgunin er svolítið önnur, annars vegar sú hugmynd að engir aðrir en trúmenn geti gert gott, hins vegar ábending hins trúlausa að það virðist sem trúmenn séu virkari í ákveðinni tegund af kærleiksþjónustu en aðrir. Var annars eitthvað fleira í ræðunni sem talaði til ykkar eða væri ástæða til að ræða frekar?

  5. Ræðan sem slík er eins og vænta mátti í byrjun Kirkjuþings. Það er aðeins þessi tónn biskups, sem Halldór vakti athygli á með velþóknun, sem ég kann ekki nógu vel við. Ég benti á vandamálið við fullyrðingar eins og þá að trúin gefi af sér umhyggju. Það er nú því miður allur gangur á því. Við sjáum nú Bush sem dæmi um að trúin gefur af sér ofbeldi og ógæfu, og höfum fjölmörg fleiri dæmi um slæm áhrif slíkrar öfgatrúar. Tilvísun biskups í þennan Hattersley er einnig óheppileg vegna þess að hún á alls ekki við í þessu samband. Trúleysingar eiga mjög erfitt með að safna fé til slíkra verka, en hinir kristnu ekki. Þeir höfða líklega til samvisku hinna ríku sem ekki þurfa að borga neina skatt til samfélagsins en gefa í staðinn Charity-gjafir. Því er óréttlát að lesa út úr slíku að þeir trúuðu séu betri en þeir trúlausu. Annars eru þessi bresku áhrif á íslenskan biskup athyglisverð. Ég er einmitt að lesa um áhrif enska siðaboðaritsins Skyldu á meistara Vídalín.

  6. Þar eru sláandi líkindi við orð meistara Vídalíns um að sáttmáli Guðs sé ekki fullnaður nema að kærleiksverk mannsins komi til. Hatterby segir á svipaðan hátt að að trúin komi með pakka af siðaboðum sem, þó að þau móti ekki skoðanir allra sem trúa, hafa þó áhrif á marga til að veita þeim siðgæðislega yfirburði yfir guðleysingja … Ég hef hingað til ekki tekið eftir siðgæðislegum yfirburðum þeirra trúuðu og leyfi mér því að efast um þessa fullyrðingu.

  7. Já, Elli, við þessu eða þvílíku máttir þú (og biskup) búast með þessari tilvitnun í grein Bretans Hattersleys. Kirkjan og kristnir menn hafa nú lengi boðað umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra – ekki síst annarra trúarbragða. Dialog, eða diskurs, hefur verið lykilorð í umræðunni. Því skýtur það skökku við þegar farið er að bauna á trúleysingja og gefa í skyn að þá skorti umhyggju gagnvart fólki sem á um sárt að binda. Ég vil ítreka þörfina á virðingu fyrir skoðunum annarra, þó svo að sú virðing sé ekki endurgoldin. Boðskapur Krists var jú einmitt sá, að “trúna” væri að finna þar sem síst skyldi. Hann gaf trúarhugtakinu víða merkingu. Gerum því ekki lítið úr þeim sem ekki “trúa”. Hve veit nema trú þeirra sé miklu mun meiri en þeirra sem hæst hrópa á torgum um eigin trú.

Comments are closed.