Hvað er á seyði hjá Flugleiðum? – II

Í maí 2004 velti ég fyrir mér hvað væri á seyði hjá Flugleiðum og ljóst að margt hefur gerst síðan það var skrifað. Í dag birtust í fjölmiðlum fréttir af hugsanlegum “samruna” Sterling og Icelandair, en slíkt myndi gerast með kaupum FL-Group á hlut Fons-félaga í Sterling.

Það fylgir sögusögnum fjölmiðla að greiðsla fyrir Sterling verði í formi bréfa í FL-Group. Vangaveltur um Flugleiði snúast ekki lengur um hagræðingu á flugsviði, enda virðist rekstur félagsins snúast mun frekar um tilfærslur á fjármunum og notkun á ráðandi stöðu í almenningshlutafélagi. Ef hagsmunir almennra hluthafa skipta í blaðamenn máli, ætti að leita svara við ýmsum spurningum vegna FL-Group.

  • Af hverju sagði stjórn félagsins af sér í tengslum við síðasta aðalfund. Eru sannar þær sögusagnir að óheimil millifærsla úr bókhaldi FL-group inn á reikning KB-banka í Lúxemborg sé hluti ástæðunnar?
  • Myndaðist yfirtökuskylda á einhverjum tímapunkti í FL-group vegna náinna viðskiptatengsla Jóns Ásgeirs og Hannesar Smárasonar?
  • Voru kaup Fons á Sterling og Maersk gerð að undirlagi/með vitund stjórnenda FL-group í upphafi, með það í huga að FL-group tæki þau yfir? [Hér er nærtækast að benda á sterk viðskiptatengsl Jóns Ásgeirs og Pálma Haraldssonar]
  • Hvað verður um Iceland Express nú þegar í ljós koma náin samskipti Fonsfélaga og FL-group?
  • Hvað veldur því að nýr forstjóri FL-group er sagður taka pokann sinn á næstunni?

Einhvern tímann var sagt um fyrirtæki í erfiðum rekstri að þessu yrði reddað með veltunni. Eitt af einkennum flugreksturs er einmitt það að um er að ræða gífurlega veltu, en hagnaðurinn og eigið fé er fremur lítill hluti af því sem veltur um bókhaldið. Af þeim sökum er auðveldara en ella að nálgast mikla fjármuni á skömmum tíma, t.d. til að byggja upp. Vandinn er hins vegar sá að ef uppbyggingin gengur ekki sem skyldi er erfitt að vinna sig út úr vandanum sem myndast þegar fjármunirnir eru teknir úr daglegum rekstri. Ef verið er að nota FL-Group sem áhættusækið fjárfestingafyrirtæki sem sækir styrk sinn í mikla veltu dótturfélagsins Icelandair, þarf sú ákvörðun að liggja ljós fyrir. Ef það er svo að stjórnarmenn noti fjármuni félagsins til að styrkja persónulega stöðu sína innan annarra félaga eða hafi áform með félagið og hafi jafnvel gert áætlanir sem eru ekki ljósar almennum hluthöfum, þá eru einhverjir á gráu svæði. Þegar við bætist að hugsanlega hafi menn forðast yfirtökuskyldu með því að notast við óformleg viðskiptatengsl, þá er einfaldlega verið að hlunnfara almenning á hlutabréfamarkaði.
Hannes Smárason er eitursnjall og duglegur. Hann hefur náð góðum árangri í viðskiptum og hefur marga eiginleika sem einkenna djarfhuga og flotta menn. Hins vegar fríar það okkur ekki frá því að spyrja spurninga um hvað sé á seyði hjá Flugleiðum.

Sjálfsagt er seilst hér langt í samsæriskenningum, en FL-Group er almenningshlutafélag, skráð í Kauphöllina og því hafa eigendur félagsins rétt á því að stjórn félagsins og atferli hennar sé hafið yfir allan vafa. Því miður er ekki svo um þessar mundir.

2 thoughts on “Hvað er á seyði hjá Flugleiðum? – II”

  1. Tja, þetta er vissulega skrítið mál. Nú liggur það fyrir að ef Icelandair kaupir Sterling, að samstarf þess og SAS verður í miklu uppnámi. Eins og allir vita sem ferðast hafa til Köben undanfarið er mikil samvinna milli SAS og Flugleiða, rétt eins og þau félög séu nánast eitt. Ef slitnar upp úr því samstarfi má búast við miklum erfiðleikum hjá íslenska flugfélaginu á flugi til Köben sem er ein helsta gróðalind þess. Óþægindi farþega verða og mikil. Ekki verður lengur hægt að tjekka farangurinn inn sjálfur og allt tjekkin-systemið verður í uppnámi. Já, liklega er Icelandair eitt þeirra fyrirtækja sem hefði ekki átt að lenda í klónum á Baugsliðinu. Þeir eru með ósvífnari kaupsýslumönnum sem þekkjast.

  2. Ef verið er að nota FL-Group sem áhættusækið fjárfestingafyrirtæki sem sækir styrk sinn í mikla veltu dótturfélagsins Icelandair, þarf sú ákvörðun að liggja ljós fyrir.

    Í dag er ljóst að flugrekstrinum er ætlað að vera stoðþjónusta við fjárfestingafélag. Það er gert með því að nota veltu félagsins til arðbærra fjárfestinga. Ef þú ert EKKI áhættusækinn fjárfestir og hefur átt í Flugleiðum síðan fyrirtækið hét Flugleiðir. SELDU ÞÁ NÚNA!!! Ef þú heldur að líkurnar á að vinna í LOTTO séu 50%, annað hvort vinnur maður eða tapar, og spilar þess vegna að jafnaði með þá skaltu eiga bréfin. Eins ef þú telur að Hannes Smárason sé snillingur og ert tilbúin að veðja eign þinni í Flugleiðum á hann.

Comments are closed.