Trúarlíf í leikskólum

Í dag var úthlutað úr Kristnihátíðarsjóði í fjórða sinn. Það vakti athygli mína að annálaritarar voru nokkrir í hópi styrkþega og eins var gleðilegt að ummælaritarinn Torfi fékk styrk að þessu sinni. Við úthlutunina ræddi ég skamma stund við Kristínu Dýrfjörð en hún er að rannsaka Trúarlíf í leikskólum. Þar hyggst hún meðal annars á gagnrýnin hátt skoða bænalíf í leikskólum, en hún hélt því fram í mín eyru að leikskólabörn væru látin biðja allt að þrisvar á dag í einstökum leikskólum sem reknir eru af sveitarfélögum. Ég bíð með eftirvæntingu eftir niðurstöðum Kristínar og ljóst að kirkjan þarf að vera viðbúin því að gefa út hvað við teljum eðlilegt trúarlíf og hvað ekki í leikskólum á vegum opinberra aðila.

20 thoughts on “Trúarlíf í leikskólum”

  1. Kemur mér ekki á óvart með leikskólabænirnar, við höfum jú heimildir um opinberan grunnskóla þar sem einn bekkurinn hóf (og hefur eflaust enn) hvern dag á bæn.

  2. Sérstök þessi athöfn í Þjóðmenningarhúsinu! Ég upplifði hana í fyrsta sinn þótt ég fékk styrkinn nú í 3. sinn. Þarna sátu helstu fyrirmenn þjóðarinnar og hlustuðu á langlokur stjórnarmanna sjóðsins, sem reyndar gera minnst af verkinu en taka heiðurinn. Fyndnust fannst mér upptalningin á árangri fornleifauppgreftarins þar sem fólk fær 7-11 milljónir ár eftir ár til að finna pening frá 17. öld, bein ungbarna og sjúkra osfrv, uppgötvanir sem þú finnur flestar í skrifuðum heimildum á einni dagsstund og færð ekkert borgað fyrir! Já, af hverju í fjandanum varð ég ekki fornleifafræðingur? Já, eða Nýja testamentisfræðingur? Þarna var Clarence Glad, Glaður öðru nafni, sem hefur verið manna sæknastur í þessa sjóði alla: Vísindasjóð, Kristnihátíðarsjóð, you name it! Og alltaf fengið háa styrki m.a. til að skrifa um hvernig Rómverjar höfðu það á ritunartíma Rómverjabréfsins. Notagildi þess fyrir íslenskt menningarsamfélag er mér hulin ráðgáta. En hvað veit ég, heimskur götustrákur?

  3. Já stundum væri okkur best að halda kj öllum saman… gæti verið hljómbetra en þessi barningur. Og svo er hart að nefna nöfn manna sem ekki verja sig á þessari annáluðu síðu Torfi. Og ÞAÐ skilur götustrákur telji hann sig vera það í raun.

  4. Sé litið yfir verkefnin má sjá hversu vítt menn skilgreina það hlutverk sem sjóðurinn hefur. Afraksturinn er líka gríðarlegur, bæði við rannsóknir á trúararfi (45% fjárins) og ekki síst fornleifarannsóknir (55%) þar sem gríðarlegt starf hefur verið unnið. Þessir hlutir hafa verið vanræktir um áratugaskeið oft með skelfilegum afleiðingum. Þetta ætti að dýpka þekkingu okkar á sögunni.

  5. Dæmi um árangur eru útgáfur á eldri íslenskri tónlist sem var áður óþekkt úr íslenskum handritum, jafnt veraldleg og andleg. Sem dæmi um önnur verkefni má nefna rannsóknir á stöðu kristinnar trúar í grunnskóla og leikskóla, sem er verkefni sem þú ættir að hafa áhuga á. Ýmis praktísk verkefni sem stuðla að auknum skilningi á trúarhefðum og trúarbrögðum annarra hópa s.s. verkefni Elsu Arnardóttur í ár. Rannsóknir á raunverulegri stöðu kirkjunnar á fyrri öldum, sem ættu að vera áhugavert innlegg í umræðu um samband ríkis og kirkju. Eins má nefna fornleifarannsóknir að Gásum, en þar er unnið að fornleifarannsóknum án þess að um þekktan kirkjustað hafi verið að ræða. Er það líkast til eitt af fyrstu skiptunum sem slíkur staður er rannsakaður á Íslandi.

  6. Já, ég efast eins og Matti um afraksturinn. Anna Agnarsdóttir las af mikilli innlifun upp árangurinn af fornleifarannsóknum síðustu ára en þó kom ekkert mikilvægt fram sem ekki var áður vitað, svo sem að á Hólastað hafi verið stórt þorp langt fram á 17. öld. Hvað menningargeirann áhrærir þá hafa mjög fáar rannsóknir birst á prenti, og nær engar af þeim sen hafa fengið stærstu styrkina. Svo virðist sem eftirlit og krafa um árangur hafi verið í lágmarki og veitt ár eftir ár háa styrki til þeirra sem vitað var að voru að stunda önnur verkefni. Þið getið séð þetta með að fara inn á vef forsætisráðuneytisins og þar inn á upplýsingar um styrkveitingar Kristnihátíðarsjóðs síðustu ár. Reyndar er víðar pottur brotinn í samfélagi okkar en hér. Stóri skandallinn er auðvitað söngstjörnurnar okkar og það sem þær taka fyrir að troða upp, mas á styrktartónleikum. Og Hallgrímskirkja! 500.000 kr í leigu fyrir styrktartonleika ef mér skilst rétt.

  7. Eitt vegna ummæla Ella. Hvað Gásir varðar þá hefur alltaf verið vitað um kirkjuna þar og stærð hennar, enda er rústin vel sjáanleg öllum sem þangað koma. Fornleifauppgjöfturinn þar árið 1904 (Bruun) var mjög vel heppnaður og nær allar upplýsingar sem nú koma fram, voru til staðar þá.

  8. Sem dæmi um önnur verkefni má nefna rannsóknir á stöðu kristinnar trúar í grunnskóla og leikskóla, sem er verkefni sem þú ættir að hafa áhuga á.

    Ég hef vissulega áhuga, en set vissa fyrirvara við rannsóknirnar því ég hef áhyggjur af því að þær séu gerðar með hagsmuni kristinnar trúar, en ekki grunnskóla og leikskóla, í huga. Kannski eru það bara fordómar í mér, ég bíð spenntur eftir því að sjá hvernig þetta verður túlkað. Annars sagði ólyginn mér að fjöldi verkefna sem fengju styrk úr þessum sjóði tengdist kristni lítið, sú tenging væri gerð eftirá til að komast í sjóðinn. Ég fagna því !

  9. Ég viðurkenni að tilraun mín til að verja fornleifarannsóknir var líklega ekki góð, enda ekki mitt svið, svo sannarlega ekki. Annars er það rétt Matti, að fjölmörg verkefni eru einfaldlega menningarlegs eðlis og ekki tengd kirkjunni eða kristni. Þannig hefur systir mín fengið tvívegis úr sjóðnum og hennar verkefni skilar ekki mjög miklu til kristni á Íslandi. Hvað varðar rannsóknir á stöðu kristinnar trúar í grunnskóla og leikskóla, þá var augljóst að manneskjan sem ég ræddi við í gær um nýfenginn styrk, var nær þér í skoðunum en sr. Bolla. Þau auðvitað séu sannkristnir og góðir :-)einstaklingar líka að skoða þetta.

  10. Stærstu styrkirnir 2001-03 1. Saga biskupsstólanna, Gunnar Kristjánsson, 9 millj. kr. 2. Réttlæti og ást, Sólveig Anna Bóasdóttir 4.8 millj. kr. 3. Sr. Matthías Jochumsson (Þórunn Valdimarsdóttir, 4.8. millj. kr 4. Fræðileg útgáfa á sálmum og kvæðum Hallgríms Péturssonar, Margrét Eggertsdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir, 4.0 millj. kr 5. Trúarmenning og siðfræði íslenskra bændakvenna á 19. öld, Inga Huld Hákonardóttir 3.6 millj. kr 6.Bannfæringar á Íslandi á síðmiðöldum, Lára Magnúsardóttir, 3.4 millj. kr. 7. “Guði treysti ég!” – rannsókn á trúarhugmyndum íslenskra kvenna á fyrri hluta 19. aldar eins og þær birtast í bréfum og öðrum frumheimildum kvenna frá þeim tíma, Karitas Kristjánsdóttir, 3.4 millj. kr. 8. Íslensk biblíuguðfræði – Rómverjabréfið í skýringum íslenskra guðfræðinga, Clarence E. Glad, 3 millj. kr. Veit einhver hvert þessara verka hefur komið út?

  11. Ég verð að fá að leggja orð í belg enda hluti af umræðuefninu. Ég tel mitt verkefni skila þjóðinni töluverðu, hvort sem menn trúa á guð eða stokka og steina. Í verkefninu felst að gera aðgengilega gífurlegt magn sálmalaga sem fáir ef nokkrir vissu um og töluverður hluti þeirra er íslenskur, sum þessara laga eru þegar farin að heyrast t.d. á RÚV fyrir fréttir, á tónleikum og sem grunnur í verkum tónskálda og poppara, að öðrum ólöstuðum má t.d. nefna Hilmar Örn. Allnokkrir geisladiskar hafa nú verið gefnir út með þessum gömlu sálmalögum (t.d.Þýðan ég fögnuð finn útg. af Smekkleysu)Þessi rannsókn gerir okkur Íslendingum einnig kleift að vera þátttakendur í alþjóðlegu og norrænu samstarfi sem við yrðum annars að hafna vegna fákunnáttu, þekkingarskorts á okkar eigin tónlistarsögu. Ég er sjálf ekki trúuð og lít allls ekki á rannsóknina sem eitthvað kristilega, en ég er stolt af unnu verki og veit að féinu er vel varið. Með kærri kveðju Guðrún Laufey (systir Ella)

  12. Sæll Binni! Hvað liggur á? Tja, t.d. það að ekkert þessara verkefna fékk styrk núna. Svo annað hvort koma þau út frekar snemma á næsta ári, eða koma ekkert út og er þá öllum þessum peningum kastað á glæ. Reyndar var ég einungis að benda á að afraksturinn af styrkveitingum til þessara stærstu verkefna hefur verið ansi takmarkaður hingað til.

  13. Af styrkveitingum Kristinhátíðarsjóðs er einnig vel að merkja hve hlutur kvenna er þar hár. 6 af 8 hæstu styrkjanna er til kvenna og reyndar er sá hæsti að hluta til konu, sem sklrifar um Skálholt. Þá eru skrif um konur mjög áberandi, ekki bara í verkefnunum um konur á 19. öld heldur og einnig í verkefni Sólveigar Bóasdóttur um Réttlæti og ást. Þetta breyttist ekkert í ár. Svo konur hafa enga ástæðu til að verða “rauðar á brjóstunum” vegna úthlutana sjóðsins.

  14. Ég skil bara ekki þessa orðræðu, Torfi! Hún er öll fyrir neðan allar hellur. En ég óska þér til hamingju með þinn styrk og tel að þú sért vel að honum kominn.

  15. Takk fyrir hamingjuóskirnar Binni. Þú segir þó að þessi orðræða sé “öll fyrir neðan allar hellur.” Af hverju? Og hvernig þá? Má ekki gagnrýna svona framkvæmdir? Þetta er ekki eina dæmi um það í samfélaginu þar sem eftirlit með fjárveitingum er í lágmarki. Ef við þegjum yfir því leggjum við blessun okkar yfir slíkt. Er það það sem þú vilt?

Comments are closed.