Djáknar á Íslandi

Frá 1995 (9 ár) þegar fyrstu djáknarnir voru vígðir eftir að námið var tekið upp við Guðfræðideildina hafa 8 af 20 söfnuðum í Reykjavíkurprófastsdæmum ráðið djákna til starfa. Aðeins eru starfandi djáknar í fjórum af þessum kirkjum í dag. Einn búin að segja upp, annar í 15% starfi og sá þriðji búin að starfa rétt rúma 13 mánuði.
Sömu sögu má segja úr öðrum prófastsdæmum, alls hafa 10 söfnuðir utan Reykjavíkurprófastdæmis vestra ráðið djákna og af þeim eru fimm með djákna í dag.
Meðal starfstími æskulýðsfulltrúa í söfnuðum í ensku biskupakirkjunni í Englandi er 18 mánuðir. Helsta ástæða þess að þeir hætta er að starfsumhverfið gerir ekki ráð fyrir þeim. Ég hef áhyggjur af að þetta sé einnig raunin með djáknanna í íslensku þjóðkirkjunni. (Upphaflega skrifað 31. mars 2004)

Skuldir safnaða

Það eru fimmtán söfnuðir á Íslandi sem skulda meira en áttföld sóknargjöld og eiga því enga von um að geta nokkurn tíma greitt skuldir sínar, nema að LOTTO komi þeim til bjargar. Um leið og staða þeirra er slæm, valda þeir ómældum andvökunóttum fyrir sóknarnefndarfólkinu í viðkomandi söfnuðum og pirringi þeirra sem fá ekki skuldir sínar borgaðar.
Af þessum fimmtán söfnuðum skulda tíu þeirra minna en 4.000.000 króna. Hér er því um gott tækifæri að ræða fyrir kirkjustjórnina til að bjóðast til að greiða upp skuldirnar, gefa ríkisvaldinu friðaðar kirkjur sem eru að sliga þessa söfnuði og sameina þessa fámennu gjaldþrota söfnuði við aðra stærri í nágrenninu. Þessi aðgerð myndi kosta 22.000.000 króna og líf fjölda fólks yrði einfaldara og þægilegra.
Hinar fimm sem fylla þennan lista þarfnast annarra aðgerða, hvaða aðgerðir þarf þar er flóknara mál. (Upphaflega skrifað 27. janúar 2004).