Það er snert við nokkrum áhugaverðum þáttum í samtali mínu og Matta Á. hér á annálnum í dag. Þar segir Matti m.a.:
…oft er gríðarlega erfitt að fá á hreint hverju menn trúa í raun, því eru bænir og prédikanir oft eina raunverulega tækifæri okkar hinnar til að skyggnast inn í hugarheim trúaðra,…
Út úr þessum orðum las ég þá gagnrýni (hvort sem hún er þar eður ei) að kristnir menn hefðu tilhneigingu til að blurra trúarhugmyndir sínar til að forða þeim frá umræðu. Þannig væri eina leiðin til að sjá raunverulegar hugmyndir þeirra, að líta til þess hvað þeir segja í bænum sínum. Með öðrum orðum, hvernig þeir ávarpa Guð. Það segi meiri sannleika en leikur guðsmannanna að orðum. Leik sem þeir hafa stúderað um allt að fimm ára skeið í háskóla.
Ef þessi skilningur á orðum Matta er réttur, þá hefur hann ýmislegt til síns máls. Það er óljóst í huga margra fyrir hvað kristin trú stendur, ekki aðeins guðleysingjanna, heldur ekki síður almennings sem hefur í flestum tilfellum sótt sér fræðslu til kirkjunnar á yngri árum. Afstaða kirkjunnar til bókstafstrúarskilnings hefur löngum verið óljós í huga þeirra sem ekki hafa stundað nám í Biblíufræðum. Það sama má segja um skilninginn á hinu illa, skilning kirkjunnar á hvernig skilja beri Heilagan anda eða sköpunarsöguna. Hin fræga könnun Björns og Péturs leiddi enda í ljós að flestir töldu sig kristna og tilheyra kirkjunni, en guðshugmyndir þessa sama fólks voru mjög á reiki.
Kirkjan hefur aukið fræðslu sína síðustu ár. Það er vel. En betur má ef duga skal.
Skilningur þinn á orðum mínum er réttur.