Bók Nahúms er líklega það rit í Gamla testamentinu sem ég hef sjaldnast litið til. Svo sjaldan að ég þurfti að nota efnisyfirlitið í bókinni til að finna kaflana þrjá eftir Nahúm. Innihald ritsins er mótað í kringum fall Níneve 612 f. Krist. En eins og glöggir Biblíulesendur muna þá var Jónas sendur til að spá fyrir um fall Níneve í samnefndu riti. Þó því falli hafi reyndar verið aflýst.
Í Women’s Bible Commentary er bent á að Nahúm merkti huggun eða huggari sem sé nú fremur háðskt heiti, sér í lagi gagnvart íbúum Níneve. Á sama hátt sé háðskt að Nahúm sem er skrifuð af ljóðrænni snilld sem eigi sér vart hliðstæðu í Gamla testamentinu lýsi jafn mikilli grimmd og illsku.
Sá Guð sem lýst er hér í Nahúm er reiður og grimmur, enn um leið þá er Drottinn
athvarf á degi neyðarinnar, hann annast þá sem leita hælis hjá honum. Jafnvel þegar vatnsflóðið æðir fram.
Drottinn frelsar þá sem hann verndar, en gjöreyðir þeim sem ekki leita til hans. Drottinn er ofbeldisfullur Guð, sem berst fyrir sínum en útrýmir öðrum. Þetta er Guð sem Jónas fór og boðaði Níneve, Guð Ísraels, sem hikar ekki við að steypa öðrum í glötun.
>Drottinn frelsar þá sem hann verndar, en gjöreyðir þeim sem ekki leita til hans.
Minnir mann óneitanlega á Nýja testamentið?