Næstu viku eiga hvers kyns sérfræðingar eftir að túlka kosningaúrslitin í gær. Helstu niðurstöður að mínu viti voru þessar.
Ólafur Ragnar Grímsson hlaut 85,6% atkvæða þeirra sem tóku afstöðu með einum frambjóðenda og hlýtur það að teljast góður árangur. Hinir frambjóðendurnir tveir hlutu 14,4% og það þrátt fyrir að Ólafur hefði hlotið mikla gagnrýni og hópar fólks hefðu beitt sér fyrir Baldur. Ljóst er að þeir sem skiluðu auðu í þessum kosningum og eins hinir sem heima sáttu, samþykktu með atferli sínu að Ólafur yrði næsti forseti Íslands.
Þegar fylgi Baldurs og Ástþórs er skoðað liggur beint við að velta upp spurningunni hvað veldur því að Baldur og Ástþór ná ekki í gegn. Ein kenning sem ég heyrði í liðinni viku var að sú gagnrýna hugsun og þá hugsanlega sjálfsrýni sem fylgir akademísku námi sé æskileg forsenda þess að einstaklingar skynji stöðu sína og hlutverk. Af þeim sökum sé Háskólanám forsenda þess að fá kosningu sem forseti Íslands. Þessi hugmynd rýmar við niðurstöðu kosninga allt frá 1952, með undantekningunni, Albert Guðmundssyni.
Um leið og árangur Ólafs í samanburði við aðra umsækendur er góður, þá hlýtur það að kalla fram spurningar um stöðu embættisins að einungis 42,45% kosningabærra manna sér ástæðu til að ljá Ólafi Ragnari sitjandi forseta atkvæði sitt. Um 37% telja kosningar um forseta skipta það litlu máli að þeir kjósa að sitja heima og tæplega 13% telja að það sé ástæða til að mæta á kjörstað en taka ekki afstöðu. Með öðrum orðum 50% þjóðarinnar ákveða að taka ekki afstöðu í kosningunum til þess sem kosið er um.
Reyndar hafa stjórnmálaspekingar nú þegar bent á minnkandi kosningaþátttöku sem eðlilega þróun í hinum vestræna heimi. Þeim sama vestræna og reynir að þvinga kosningar upp á restina af heiminum. En slíkt útskýrir ekki fámennið á kjörstað í gær. Enda var mjög mikil þátttaka í Alþingiskosningunum fyrir rétt ári síðan og enginn önnur merki sjáanleg um að þróun síðustu 30 ára annars staðar hafi mætt hingað í öllu sínu veldi á tæplega 13 mánuðum.
Þessi staða hlýtur því að vekja áhyggjur og kalla á endurskoðun forsetaembættisins, stöðu þess og hlutverk. Enda hefur 50% þjóðarinnar lýst því yfir með óbeinum hætti að embættið skipti það litlu máli að hvorki sé ástæða til að nýta kosningarétt sinn og/eða taka afstöðu til einstakra frambjóðenda.
Ég er ekki sammála túlkun þinni á niðurstöðum kosninganna, Elli, þ.e. að slök kjörsókn og auð atkvæði kalli á endurskoðun forsetaembættisins. Auðu atkvæðin sýna einungis skipulegt andóf gegn sitjandi forseta, í raun fjórða framboðið. Segja má að Mogganum og Flokknum hafi tekist ætlunarverk sitt að hluta, að skipa sér í “stjórnarandstöðu” gegn Ólafi Ragnari. Vonandi verður það einnig hlutverk Flokksins í þjóðmálabaráttunni eftir næstu alþingiskosningar. Að mæta ekki á kjörstað sýnir að mínu mati fyrst og fremst að fólk er óánægt með að framboð hafi komið gegn sitjandi forseta. Sama gerðist 1988, þó ekki í eins ríkum mæli og nú. Skoðanakannanir hafa sýnt styrk Ólafs Ragnars meðal þjóðarinnar og ríkan stuðning við forsetaembættið. Heimasetan nú getur því allt eins verið dæmi um óánægju almennings gagnvart aðförinni að forsetaembættinu.
Óskaplega er það nú máttleysilegur málflutningur að halda því fram að þessi niðurstaða sé nokkuð annað en sigur fyrir Ólaf Ragnar. Það var hann sem fékk langflest atkvæði. Jafnvel þótt margir hafi skilað auðu er það anginn áfellisdómur yfir Ólafi. Það merkir bara að þeir sem skiluðu auðu vildu frekar einhvern annan en þó ekki Baldur eða Ástþór. 33% þeirra sem mættu á kjörstað vildu sumsé ekki Ólaf, só vot? Hinir vildu hann og meirihlutinn ræður. Ólafur vann það er einfalt og þarfnast ekki túlkunar.
32% vildi ég sagt hafa, sorrý Ólafur. Já og eitt í viðbót, fólk er ekki að gefa neinar yfirlýsingar með því að sitja heima, það bara nennir ekki á kjörstað þegar kannanir benda til svo afgerandi niðurstöðu að atkvæðið skiptir í raun engu máli.
Ég er ósammála þér um það, Elli, að þeir sem skiluðu auðu, nærri 28 þúsund manns (20,7% greiddra atkvæða), hafi „samþykkt með atferli sínu“, ásamt þeim sem sátu heima, að Ólafur Ragnar yrði endurkjörinn forseti. Ég skilaði auðu vegna þess að ég studdi engan af frambjóðendunum þremur. Þá finnst mér ekki mikið til um þá kenningu að háskólanám sé forsenda þess að hljóta kosningu sem forseti Íslands. Akademískt nám er engin trygging fyrir gagnrýninni hugsun; a.m.k. er það ekki trygging fyrir æskilegri sjálfskoðun eða sjálfsgagnrýni. Þar standa margir betur að vígi en langskólagengnir. Mér finnst hins vegar mjög æskilegt að forsetaframbjóðandi hafi háskólapróf af mörgum öðrum ástæðum. Ákvörðun Ólafs Ragnars að synja lögum staðfestingar er hreyfiaflið í þeirri þróun sem nú er hafin að endurskoða forsetaembættið og stjórnarskrána. Það er atburðarás sem hann ýtti úr vör. Það er ekki merkilegt lýðræði að einn maður hafi það vald í sínum höndum, án þess að tala við neinn.
Eva segir að þeir sem sátu heima hafi ekki verið að gefa neinar yfirlýsingar, þeir hafi einfaldlega ekki nennt á kjörstað af því að úrslitin væru svo fyrirsjáanleg. Nú hefur það einu sinni gerst áður að boðið sé gegn sitjandi forseta, það var árið 1988 þegar Vigdís hafði setið jafnlengi og Ólafur í embætti. Þá voru kosningaúrslitin ennþá fyrirsjáanlegri. En kosningaþátttakan var eigi að síður 10% meiri en nú og auðir seðlar ekki nema 1,7%! Vigdís hlaut afdráttarlausan stuðning um 70% atkvæðisbærra manna en Ólafur hefur nú einungis um 42%. Er nokkur furða þótt menn vilji draga úr sigurgleðinni?
Rétt er að ítreka að færslur án gilds netfangs eða veffangs verða fjarlægðar án viðvörunar. Sbr. texta UM ANNÁLINN. Athugasemd breytt 28. júní 2004, 00:18.