Um nafnlaus ummæli

Í kvöld fékk ég bréf frá góðum manni sem ég met mikils. Bréfið var á þessa leið:

Afhverju í ósköpunum fjarlægðir þú athugasemdina mína sem er skrifuð undir réttu nafni og er fullkomlega málefnaleg að auki? Þú meira að segja þekkir mig. Og svo lætur þú athugasemdina hans Torfa standa þrátt fyrir að þar komi hvorki fram veffang hans né netfang! Og hefur þú einhvers staðar tekið fram að færslur án gilds netfangs eða veffangs verði fjarlægðar? Slíkt hefur a.m.k. farið framhjá mér. Ég er sár.

Ég tók þá ákvörðun að svara honum án tafar og birti svar mitt einnig hér á vefnum.

Blessaður,

mér þykir leitt að þú lentir í þessu. Í textanum UM ANNÁLINN er tekið fram að:

Halldór áskilur sér rétt til að fjarlægja af síðunni hver þau ummæli sem hann telur óviðeigandi. Eins áskilur Halldór sér rétt til að eyða ummælum þar sem notast er við fölsk netföng.

Þetta er sett inn til að koma í veg fyrir “spam”-skilaboð og til að hægt sé að rekja öll ummæli. Ég hef ákveðið að taka mjög ákveðið á þessu til að bjóða ekki hættunni heim.

Til að ummælaritarar njóti verndar frá öðrum lesendum síðunnar birtist síðan netfang þeirra eingöngu hjá mér (í tölvupósti og í viðhaldskerfi síðunnar) en ekki á síðunni sjálfri.

Það er leitt að þú lendir í þessu vegna þess að í sjálfu sér voru ummæli þín málefnaleg. Ég hins vegar átti erfitt með að sjá um hvaða “[nafn]” var að ræða, enda hvorki netfang né veffang sem fylgdi ummælunum.

Þar sem ég eyddi ummælunum án þess að taka afrit fyrst verður ákvörðun mín ekki tekin aftur. Af þeim sökum vil ég biðja viðkomandi Annálalesara velvirðingar, enda alveg ljóst að hefði ég vitað hver ritaði hefðu ummælin ekki verið fjarlægð.

18 thoughts on “Um nafnlaus ummæli”

  1. Ég leyfi mér að taka undir með Bjarna. Ég botnaði ekkert í því hvers vegna þú eyddir hans ágætu ummælum á þeirri forsendu að hann væri nafnlaus. Á nafni hans var einungis óvirk krækja. Þeir sem tilgreina netföng sín í stað veffanga eru hins vegar allir „ókræktir“ í athugasemdunum. Á þessu er enginn munur. Ég skil satt að segja ekki net-siðalögguna sem býr í sumum annálariturum. Þeir eru allt of viðkvæmir fyrir ummælum sem aðrir skrifa við færslur þeirra. Þar fyndist mér eingöngu við hæfi að eyða orðum sem eru beinlínis ærumeiðandi. Athugasemdir við færslur bera höfundum sínum einum vitni, ekki eigendum annálanna. Um spam-færslur er sjaldnast að ræða á annall.is. Ég held að slík tilvik megi telja á fingrum annarrar handar.

  2. Ég er þér algjörlega ósammála. Vefsíðunni er ritstýrt af mér og í loftinu á mína ábyrgð. Við munum fljótlega sjá niðurstöðu í máli málefna.com og hver ábyrgð ritstjórans er þar.

    Athugasemdir við færslur bera höfundum sínum einum vitni, ekki eigendum annálanna.

    Ef ummælaritari kemur ekki fram undir nafni og annálaritari getur ekki staðfest hver hann er, þá er ljóst að ummælin eru á ábyrgð annálaritara. Í þessu tilfelli var um að ræða tiltölulega saklaus ummæli, en þar sem ég tel almennt að nafnlaus ummæli eigi ekki við þá mun ég standa við þessa reglu.

  3. Fyrst nafn mitt er nefnt hér vil ég taka fram að ég skrifa netfang mitt alltaf þegar ég sendi inn “ummæli”. Reyndar hélt ég að annað væri ekki hægt, þ.e. að ekki væri hægt að senda inn skrif ef netfang vantaði.

  4. Ef maður að nafni Jón skrifar athugasemd við færslu hjá þér, Elli, og þú þekkir hann ekki en sérð netfang hans í kerfinu (sem lesendur sjá hins vegar ekki), sannreynirðu þá netfangið? Ef svo er, hvernig gerir þú það? Nú gæti einhver allt annar skrifað nafn þessa Jóns undir netfangi hans, þurfum við þá að hafa samband við hann til þess að vera viss?

  5. Ég er hræddur um að sá mæti maður “Hafsteinn” fengi ekki náð fyrir þínum augum m.v. þessi móttökuskilyrði sem þú setur, Elli!

  6. Sjálfur velti ég því ekki fyrir mér hver ummælandi er (ef ég þekki hann ekki), heldur horfi eingöngu á ummælin sjálf. Ég nenni hins vegar ekki að velta mér upp úr því hvort ummælin eru málefnaleg samkvæmt mínum eigin mælikvarða eða hvort orðbragðið sé ljótt. Aldrei dytti mér t.d. í hug að strika út orð annarra í umræðum eingöngu af því að þau særa sómatilfinningu mína. Athugasemd má umfram allt ekki meiða æru nokkurs manns. Frá því ég byrjaði að blogga hef ég aldrei séð ástæðu til að þurrka út ummæli neins, nema ef vera skyldi mín eigin ummæli. Það er hægt að skipta um skoðun á Netinu.

  7. Ég færði einhverju sinni í annál nokkra þanka um ummælasiðferði. Í meginatriðum fylgi ég því sem þar kemur fram og hef endrum og sinnum krukkað í ummæli. Mér finnst sjálfsagt að gera athugasemdir við ljótt orðbragð og leiðindi (þótt slíkt verði að sjálfsögðu að meta í hverju tilfelli fyrir sig).

  8. Ég fékk einhverju sinni athugsemd senda frá svo kölluðum VINI undir netfanginu mbl.is. Það hvarflaði ekki að mér að strika hana út þar sem innihaldið var við hæfi. Í þeim tilvikum þar sem mér er misboðið hins vegar áskil ég mér rétt til að sleppa tilfinningu minni inn í skrifin í athugasemdum mínum. Það geri ég til að safna ekki upp reiði af því hún getur bæld valdið krabbameini á endanum. Einhvernveginn finnst mér eins og leið þín Elli hljóti að geta valdið hærri blóðþrýstingi en þörf er á? Mér þætti allavega erfitt að þurfa að vera á slíkri vakt? Hvað ef englar læðast hér inn í gerfi nafnleysunnar?

  9. Ég verð að viðurkenna að vaktin mín er ekki fullkomin og þetta truflar ekki svefn hjá mér. Þegar ég rek augun í það að viðmælendur mínir sigla (viljandi/óviljandi) undir fölsku flaggi þá bregst ég við. Eins hef ég séð ástæðu til að sannreyna netfang þar sem ummæli voru óviðeigandi og meiðandi að mínu mati.

  10. Ég er hræddur um að sá mæti maður “Hafsteinn” fengi ekki náð fyrir þínum augum m.v. þessi móttökuskilyrði sem þú setur, Elli!

    Hafsteinn hefur alltaf skráð virkt netfang, sem ég veit að hann notar. Aðdróttanir í hans garð eru því algerlega óviðeigandi.

  11. Þetta eru engar aðdróttanir.Ég hef reynt að brúka þetta netfang sem hann setur með en án árangurs.

  12. Hins vegar tek ég það fram til að forðast misskilning að Hafsteinn er aufúsugestur á mínum annál hvort sem netfangið virkar eða ekki!

  13. Maður fer nú bara hjá sér 🙂 Þeir sem þekkja annars hotmail netföng vita að þeim er stundum lokað tímabundið, en þau má alltaf opna aftur með einföldum hætti.

  14. Hérna leynist kannski meginmunurinn á viðhorfum til ummælaritara. Því ef við erum að fjalla um týnt netfang og spyrðum því saman við svokallaðar „aðdróttanir“ þá gæti það verið að spegla hversu stórt málið er í huga Ella. Ég hallast aftur á móti á sveif með Skúla í þessu máli og gæti aldrei talað um aðdróttanir þótt einhver hafi hugsanlega uppgötvast með óvirkt netfang. Er það ekki mergurinn málsins. Sumum finnst þetta vera stórmál og það er vel, öðrum finnst þetta ekki skipta nokkru máli og það er líka vel?

Comments are closed.