Þriðja Mósebók er líklega það rit sem oftast er vísað til þegar talað er um að Biblían sé úrelt, vitlaus og/eða skaðleg. Í fyrstu fjórtán köflunum er reyndar fátt sem bendir til þess nema ef vera skyldu reglur um svínakjöt og skelfisk, sem þó eru ósköp skiljanlegar í því samhengi sem ritið er skrifað. Þá má auðvitað gagnrýna prestaáherslu ritsins, en sú gagnrýni er nú sjaldnast áberandi.
Hér í 15. kaflanum má segja að sé fyrsti snertiflöturinn við texta sem hefur verið gagnrýndur fyrir forneskju. En kaflinn fjallar um kynfærasýkingar. Hann hefst á umfjöllun um kynfærasýkingar hjá karlmönnum og mikilvægi hreinlætis í tengslum við þær. Þessu næst er fjallað um blæðingar kvenna og þær settar í sama flokk og kynfærasýkingar, enn með áherslu á hreinlæti. Í lok kaflans eru óhreinindi vegna sáðláts sett í sama flokk óhreinleika og blæðingar eða kynfærasýkingar.
Í samhengi textans er mikilvægt að skilja hvað það merkir að vera „óhrein“ eða „óhreinn“. Tilhneiging þeirra sem gagnrýna þennan texta er að skilja hugtakið fyrst og fremst andlega og því sé hér í textanum verið að tala um einhvers konar útlegð eða skömm. Rökin fyrir þessu eru að í kjölfar óhreinleikans er kallað eftir fórn.
Þessi skilningur byggir á einhvers konar platónískum hugmyndum um orðin bak við orðin, skuggamyndir og tvískiptan heim hins veraldlega og andlega. Slíkar hugmyndir voru ekki mótandi í heimi hebrea á ritunartíma Mósebókaflokksins. Hér er aðgreining hins andlega og veraldlega ekki til staðar. Að vera óhrein merkir að vera skítug, en ef við erum skítug þá erum við ekki lítalaus, óhreinindi okkar geta smitast á stóla, í rúm og í föt. Þessi texti hér fjallar um það, ekki meira og ekki minna.
Auðvitað er naív að okkar mati að tengja saman útferð vegna kynfærasýkinga og blæðingar. En það er ekki eins og læknisfræði og þekking á mannslíkamanum sé passív og óbreytanleg vitneskja.