ELCA og Lúterska heimssambandið (LWF) varpa fram spurningum um flöskuvatn (átappað vatn) í umræðum og í rituðu máli um þessar mundir. Þannig eru einstaklingar hvattir til að notast við kranavatn og endurnýtanlega vatnsbrúsa en hafna flöskuvatninu. Ástæður þessa áróðurs eru fjölmargar og áhugavert að nefna nokkrar hér.
- Flöskur undan átöppuðu vatni skapa gífurlegt magn af rusli. Rotnun plastflaskna er hæg og þær taka gífurlegt pláss.
- Gerð plastflaskna kallar á orkunotkun og olíutengd efni eru notuð í plastgerð.
- Flutningur vatnsins á markaðssvæði er einnig orkufrekur, enda á stundum um langan veg að fara.
- Hvað varðar Bandaríkjamarkað eru reglugerðir um gæði vatns á flöskum minni en kranavatns, þannig að á engan hátt er tryggt að flöskuvatn sé hollara. Rannsóknir hafa sýnt hið gagnstæða.
- Verð á einum lítra flöskuvatns er hærra en lítraverð á bensíni. Það er óábyrg meðferð peninga að nota þá á þennan hátt.
- Þá er hugmyndinni um að vatn sé söluvara og lúti hefðbundnum markaðslögmálum varasöm í meira lagi, enda er ljóst að engin lífvera getur verið án vatns. Eignarréttur einstaklinga/fyrirtækja á vatni getur leitt til minnkandi aðgengis almennings að nauðsynlegri forsendu lífs á jörðinni. Lífverur hafa ekki val um hvort þær þarfnast vatns eða ekki og því er augljóslega um að ræða svokallaðan markaðsbrest að ræða, þegar kemur að vatnssölu.
Þessir þættir eru að sjálfsögðu ekki jafn einfaldir og hér er sett fram, t.d. má ræða um hvort vatn á flöskum sé ekki önnur vara en H2O, hvað með að nota flöskurnar í flíspeysugerð, það má spyrja sig hvort ekki sé eðlilegt að borga fyrir hagræði af flöskuvatni og svo má lengi telja.
Hitt er ljóst að það er alltaf hollt að staldra við og spyrja gagnrýnna spurninga um hvað við erum að gera og hvers vegna.
E.s. Er einhver til í að benda Jóni Ólafssyni á að flöskurnar sem hann lét hanna fyrir Glacier vatnið eru hrikalega flottar, en þær passa EKKI í glasahaldara á bílum og eru því ekki mjög söluvænlegar.
Í dag birtist frétt á Eyjunni um vatnsflöskuiðnaðinn, 19 klst eftir þessa færslu. Þessi skemmtilega tilviljun verðskuldar að sjálfsögðu ummæli þrátt fyrir að nálgunin sé nokkuð önnur.