Ég skrifa stundum hjá mér smápælingar sem ég hyggst síðan gera meira með seinna. Oftar en ekki liggur minnismiðinn á einhverju af smáforritunum, s.s. Evernote eða Wunderlist, þangað til ég kemst að því að þetta sé ekki merkileg pæling og hendi henni, nú eða þá að ég formi pælinguna í bloggfærslu sem ég get þá nálgast síðar.
Þannig sat ég á fyrirlestri á menntavísindasviði Háskóla Íslands fyrir rétt um ári síðan þar sem gestaprófessor talaði um muninn á mjúkri og harðri útiveru. Ég velti fyrir mér í því samhengi hvers konar útivera væri til staðar t.d. í sumarbúðastarfi KFUM og KFUK, hvort það væri einhvers konar þróun í gangi, en prófessorinn gaf til kynna að í sínu umhverfi væri kallað eftir meiri áherslu á mjúka útiveru.
Það er kannski ágæt að staldra við hvað átt er við með hugtökunum mjúk og hörð útivera. Ég velti fyrir mér hvort að það megi nálgast hugtökin út frá orðunum að sigra eða skilja. Þannig leggi mjúk útivera áherslu á skilning, umhyggju, nærgætni og virðingu gagnvart náttúrunni allri. Hörð útivera snýst hins vegar um að sigrast á sjálfum sér og eftir aðstæðum náttúrunni, með því að komast á fjallstoppinn, „hoppa í hylinn“ o.s.frv.
Við fyrstu sýn er ljóst að í sumarbúðum KFUM og KFUK og þá er ég fyrst og fremst að tala um Vatnaskóg og Kaldársel, þar sem ég þekki best til, hefur áherslan legið á harðri útiveru síðustu ár.
Í máli prófessorsins fannst mér eins og hann teldi að þróunin væri línuleg frá harðri útiveru og til þeirrar mýkri, sem gæfi þá til kynna að sumarbúðirnar ofangreindu væru aftarlega á merinni. Ég hins vegar hugsa að þetta samspil sé mun meira hringlaga en línulegt. Þannig virðast sumar sögur af starfinu í Vatnaskógi um miðja síðustu öld, söngvar og hefðir benda til ákveðinnar virðingar og þekkingar á náttúrunni, sem er vissulega minni í dag. Þá má nefna gerð lærdómslundar við kapelluna í Vatnaskógi og áherslu á jarðfræðiþekkingu í Kaldárseli á síðasta áratug síðustu aldar, sem dæmi um mjúka útiveru sem hefur að einhverju leiti glatast aftur.
Þá er ljóst að mikilvægur þáttur í sumarbúðareynslunni felst í því að sigrast á sjálfum sér, ótta og öryggisleysi og því er mikilvægt að „hörð útivera“ sé til staðar. Framtíðin felst ekki í að tapa öðru á kostnað hins, heldur að finna jafnvægi milli þess að sigra og skilja.